Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Hér við 3. umr. hefur verið lögð fram af hv. allshn. brtt. á þskj. 1073 við þetta frv. til breytinga á stjórnarskránni. Hv. frsm. allshn. hefur skýrt þetta mál. Í raun og veru kemur þar allt fram sem þarf að koma fram um eðli málsins. Það er eðlilegt að gera breytingu á stjórnarskránni á þann veg sem gert er ráð fyrir í þessari brtt.
    Annað er það að þetta mál ber nú nokkuð einkennilega að, að á elleftu stundu skuli komið með þessa brtt. Er það einn votturinn enn um það hvers konar hrákasmíði er á því frv. sem hér liggur fyrir. Ég hefði talið eðlilegt, eins og málum er háttað og efni frv. er, að flutt hefði verið sérstakt frv. um efni þessarar brtt. og þess vegna ekki tengt afgreiðslu frv. í heild. En þó að þetta sé mál sem þarf að líta til, sem brtt. gerir ráð fyrir, er hægt að leysa það með öðrum hætti og það réttlætir að sjálfsögðu ekki á neinn hátt að breyta afstöðu til frv. í heild og þess sem er meginatriði þess, að breyta Alþingi í eina málstofu.
    Ég hef við umræður um þetta mál flutt ítarlegar ræður, bæði við 1. og 2. umr. Það má segja að ég hafi í raun og veru ekki við að bæta sem ég sagði í þessu ítarlega máli mínu. En að gefnu tilefni þykir mér rétt að ræða nokkuð frekar um málið. Þetta tilefni er að í atkvæðagreiðslu við 2. umr. frv. gerði hæstv. menntmrh. grein fyrir atkvæði sínu. Hér áðan rifjaði hæstv. menntmrh. þetta upp, svo mjög þótti honum varða að leggja áherslu á það sem hann sagði við atkvæðagreiðsluna við 2. umr.
    Hæstv. menntmrh. greiddi atkvæði með frv. með þeirri athugasemd að ekki kæmi til mála að einni málstofu þingsins mætti fylgja skerðing á málfrelsi þingmanna. Og við atkvæðagreiðsluna vitnaði hæstv. ráðherra til draga að frv. til laga um þingsköp Alþingis, sem fylgja frv., eins og hann gerði í máli sínu rétt áðan. Hæstv. ráðherra sagði að það væri óhæfa að skerða málfrelsið og, eins og hæstv. ráðherra tók fram hér áðan, þá voru fleiri þingmenn sem tóku undir þessi orð og þetta viðhorf hæstv. ráðherra.
    Nú hefur hæstv. ráðherra í þessari umræðu rifjað þetta allt upp með skýrum hætti þannig að ljóst liggur fyrir hvað vakir fyrir honum. En svo góður sem tilgangur hæstv. ráðherra er, þá er nokkuð hér við að athuga. Hér er verið að hafa hausavíxl á hlutunum, rugla saman orsök og afleiðingu. Orsök þess að hefta verður málfrelsið er breytingin úr deildaskiptu þingi í eina málstofu, eins og ég hef rækilega og ítrekað gert grein fyrir áður í umræðum um málið. Afleiðing þessa er að setja verður nýjar reglur í þingsköpum sem skerða málfrelsi frá því sem er. Heft málfrelsi fylgir eins og nótt fylgir degi. Þetta kemur eðlilega fram í drögum að þingsköpum sem fylgja frv. Þar er að finna ýmis ákvæði um skerðingu málfrelsisins. Þannig er gert ráð fyrir að hefta umræðu um þær þáltill. sem eru um allra mikilvægustu málin. Þá eru skornar niður við trog umræður utan dagskrár, einmitt þar sem síst skyldi, þ.e. um mikilvægustu málin. Og enn fremur kemur það sem er alvarlegast, að vegið er að grundvallarreglunni í 36. gr. þingskapa sem er trygging fyrir málfrelsinu og þingmenn settir undir náð forsrh., konungsnáð, eins og það var áður kallað. Hæstv. menntmrh. lýsti einmitt þessu mjög skilmerkilega og réttilega rétt áðan. Allt þetta hef ég ítarlega rætt og ítrekað tekið fram í umræðunum um þetta mál.
    Svo alvarlegt sem þetta mál má vera er þess þó að gæta að þetta er eðlileg afleiðing þess að afleggja deildir þingsins og taka upp eina málstofu, raunar óhjákvæmileg afleiðing. Þeim er ekki alls varnað sem bera ábyrgð á frv. um þessa stjórnarskrárbreytingu. Þeir gera sér grein fyrir að einni málstofu fylgir skerðing málfrelsisins og gera ráð fyrir því í þeim drögum að þingsköpum sem þeir láta fylgja með. Við þetta er þó að athuga að fyrirsjáanlegt er að málfrelsinu munu verða miklum mun meiri takmarkanir settar þegar til framkvæmdanna kemur en hér er gert ráð fyrir. Ég bið menn að íhuga þetta.
    Oft er talað um ókosti þess að vera fáir og smáir. En stundum fylgja því samt ótvíræðir kostir. Alþingi hefur þann ómetanlega kost í fámenni sínu að geta haldið vel í heiðri málfrelsi þingmanna. Hin fjölmennu þjóðþing mega öfunda sérstöðu Alþingis í þessum efnum. Þau neyðast til að setja margs konar tálmanir á málfrelsi sinna þingmanna. Það er kaldhæðnislegt að nú skuli vera lagt til að Alþingi api eftir erlend neyðarúrræði sem engin nauður rekur til að taka upp.
    Það er kaldhæðnislegt að kasta eigi á glæ sérkennum og aðalsmerki þeirrar stofnunar sem ber hæst í íslenskri sögu og þjóðlífi og horft er til með virðingu sem elsta þjóðþings veraldar. Og það er kaldhæðnislegt að hér á meðal okkar skuli vera hv. þm. sem vara við þessu en láta afvegaleiðast í þeirri sjálfsblekkingu að koma megi í veg fyrir afleiðingar stjórnarskrárbreytinga með þingskapaákvæðum. Það er þessi sjálfsblekking sem kom svo greinilega fram í máli hæstv. menntmrh. og hv. 5. þm. Reykv. hér áðan.
    Það er sannarlega margt skrýtið í þessu máli, sérstætt og óvenjulegt. Og höfum þá í huga að málið er líka í eðli sínu sérstætt. Stjórnskipunarlög eru annars eðlis en almenn lög. Hér gerist ekki þörf á að ræða um mikilvægi stjórnskipunarlaga. En vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar vegur allt þyngra í vinnubrögðum en ella, kostir og gallar. Aldrei þarf svo að gjalda varhug við vanhugsuðum breytingum, breytingum breytinganna vegna, fljótræði og flumbrugangi eins og þegar stjórnarskráin á í hlut.
Aldrei varðar meiru varúð, aðgæsla og íhaldssemi við það sem vel hefur reynst heldur en þegar stjórnarskráin á í hlut. Nú hefur hvort tveggja brugðist. Farið er að þeim ráðum sem bera með sér mest fljótræðið í ákvörðunum og athöfnum. Þeir sem á verði áttu að standa eru nú látnir gera sér til fordildar að hafa forustu fyrir fljótræðinu. Svo bregðast krosstré sem önnur tré og við blasir að haltur leiðir blindan.
    Ég hef áður í þessum umræðum rakið hvernig málsmeðferðin við þessa stjórnarskrárbreytingu er út af fyrir sig með endemum. Ég hef kallað þetta upphlaup á móti deildaskiptingunni. Ég hef bent á að farið hefur verið með málið eins og mannsmorð. Ég hef kallað þetta samsæri þagnarinnar. Vegna mikilvægis stjórnarskrárbreytinga hafa í rás tímans mótast reglur, venjur og hefðir. Allar breytingar á stjórnarskránni hafa því farið fram með háttbundnu lagi. En nú bregður svo við að ekkert er um það hirt og sniðgengin öll eðlileg vinnubrögð. Ég hef fyrr í umræðunum lýst þessu ítarlega og þó er nú um að ræða stjórnskipulega veigamestu breytingu á stjórnarskránni allt frá árinu 1874.
    Hver er skýringin á þessum firnum sem við nú stöndum frammi fyrir? Það á áreiðanlega eftir að verða rannsóknarefni síðari tíma en nú spyr ég ykkur, hv. þm. efri deildar, viljið þið bera ábyrgð á þessu? Viljið þið bera ábyrgð á því að kollsteypa skipan Alþingis? Ef þið greiðið atkvæði með frv., sem brátt kemur til atkvæðagreiðslu, þá berið þið ábyrgðina. Þið getið með engu móti skotið ykkur undan beinni, persónulegri ábyrgð. Hér er ekki um að ræða mál sem menn hafa mismunandi þekkingu og kunnáttu á, mál sem er þess eðlis að þeir sem minna vita þurfa að skírskota til og reiða sig á þá sem meira telja sig vita, forustumenn og flokkssamþykktir. Í þessu máli sem við nú fjöllum um eru allir hv. alþm. kunnáttumenn, allir á sinn hátt sérfræðingar í málinu. Þetta leiðir af sjálfu sér, við erum, hv. alþm., að fást við okkar eigin vinnustað, sjálft Alþingi. Þetta er alvara málsins.
    Hv. þm. efri deildar, feiknstafir eru á lofti. Nú vildi ég á elleftu stundu mega gefa ykkur heilræði, það er það besta sem ég get gefið. Firrið ykkur ábyrgð á þeirri röskun á stöðu og störfum Alþingis sem mun fylgja afnámi deildaskiptingarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt þingræði. Og síðastra orða: Greiðið atkvæði gegn frv.