Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Ég tel rétt að segja það að á rabbfundi fjh. - og viðskn. varð samkomulag um að breyta þeirri brtt. sem var flutt af meiri hl. fjh. - og viðskn. við 2. umr. og stendur öll nefndin að baki þeirri brtt. sem hér er lögð fram. Efni brtt. er:
    ,,a. Í stað 1. málsl. 1. mgr. komi þrír nýir málsl. er orðist svo: Telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests má skattstjóri bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar. Þó skal skattstjóri taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefur farið fram í staðgreiðslu. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði.
    b. Í stað ,,1%`` og ,,15%`` í 2. málsl. 1. mgr. komi: 0,5% og 10%.``
    Ég tel rétt að taka það fram hér við lokaafgreiðslu á þessu máli að hv. 5. þm. Norðurl. e. Valgerður Sverrisdóttir flutti frv. hér í hv. deild sem fól í sér að tekið yrði tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefði farið fram í staðgreiðslu og var með tillögu um að laga þar hluti á þann veg að ekki yrði álag á þá greiðslu. Í framhaldi af umræðu um þá tillögu hefur síðan sú tillaga sem hér er lögð fram orðið til í samstarfi allra nefndarmanna í hv. fjh. - og viðskn.