Frv. um fæðingarorlofsgreiðslur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. þakka hæstv. ráðherra fyrir að hann tekur undir það að nefndin taki þetta mál til umræðu. Það ætti ekki að taka langan tíma. Málið er búið að fara í gegnum Nd. og var samþykkt þar. Það má segja að hér sé um að ræða réttlætismál. Þetta kostar ekkert fjármagn úr ríkissjóði og Tryggingastofnun ríkisins.
    En ég vil í leiðinni aðeins vekja athygli á því að stjórnarandstaðan hefur ekki verið í því að tefja málin í þessari hv. deild. Ég held að við höfum frekar verið lipur og reynt að greiða fyrir málum en hitt. Þess vegna finnst mér það vera sanngjörn og fróm ósk að við biðjum um að þetta mál verði tekið til umræðu í nefndinni.