Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Fyrst út af þeim fyrirspurnum sem hér hefur verið beint til mín af hv. 7. þm. Norðurl. e. Í fyrsta lagi hvort endanleg úthlutun til smábáta hafi reynst enn verr en tilraunaúthlutunin. Ég hlýt að svara því neitandi. Landssamband smábátaeigenda og smábátaeigendur lögðu á það alla áherslu að reynt yrði að leiðrétta verstu dæmin í þessu sambandi innan ramma laganna. Það var gert en reynt að gera það með þeim hætti að það kæmi sem minnst við þá sem höfðu fengið bærilega úthlutun.
    Hitt er svo annað mál að margir smábátar fá litlar aflaheimildir. Sérstaklega þeir sem hafa verið að fjárfesta í dýrum og afkastamiklum skipum og fara illa út úr því. Þeir hafa tilhneigingu til að kenna stjórnvöldum um það, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga á hlut þeirra sem fyrir eru í greininni. Það sama á við um loðnuskipin. Þegar kvótakerfið var tekið upp höfðu loðnuskipin verulegar botnfiskheimildir sem þau misstu. Eru dæmi þess að eitt loðnuskip hafði veitt á einu viðmiðunaráranna tæplega 3000 lestir af botnfiski. Þessar aflaheimildir voru að mestu leyti teknar af loðnuskipunum og færðar til annarra skipa í botnfiskveiðunum. Það er þess vegna sem það var ákveðið að setja inn svokallaða 9. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem sjútvrh. var heimilt við tilteknar aðstæður að færa aflaréttindi til þessara skipa.
    Þó að hér sé um heimild að ræða þá er alveg ljóst að slíkar heimildargreinar leggja skyldur á ráðherra. Og það er hjá því sem ég vil reyna að komast vegna þess að aflaheimildir í botnfiskveiðum eru svo litlar í mörgum tilvikum að það mundi koma illa við mjög mörg byggðarlög ef 9. gr. væri beitt. Og ég get staðfest það sem hv. 5. þm. Vestf. spurði hér um að verði þessar heimildir samþykktar þá stendur ekki til af minni hálfu að beita 9. gr. Þetta kom mjög skýrt fram í umfjöllun efri deildar og þar af leiðandi er 3. brtt. hans óþörf. Ég vænti þess að hann taki slíka yfirlýsingu gilda.
    Það kemur fram í öllum þessum brtt. sem hér eru til umræðu að allir þeir sem að þessu máli hafa komið vilja taka tillit til þessa áfalls loðnuflotans en þó með mismunandi hætti. Hv. efri deild hefur samþykkt þá tillögu sem ég gerði, að skipin fengju tilteknar aflaheimildir í hlutfalli við loðnukvóta þeirra, sem er í sjálfu sér einfalt mál, og með þeim hætti komið í veg fyrir að 9. gr. verði beitt.
    Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson o.fl. leggja til að þessar bætur verði í formi fjármuna og það verði gert samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Það er að mínu mati mjög erfitt að setja góðar reglur um mál sem þetta ef það er hugmyndin að þetta fjármagn gangi ekki aðeins til skipanna heldur jafnframt sjómanna og jafnvel verkafólks líka. Í 1. brtt. þeirra var þetta með öðrum hætti sem ég skal ekki rekja hér. Mér líst ekki á þá leið og ég held að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sjái annmarkana í henni miðað við þá miklu reynslu sem hann hefur af því að deila út fé í hv.

fjvn. Hann og fleiri hafa viljað setja um það skýrari reglur hvernig að því er staðið.
    Í þriðja lagi hafa þingmenn Kvennalistans lagt það til að aðeins hluta af aflaheimildum Hagræðingarsjóðs yrði ráðstafað. Það var allmikið rætt í hv. efri deild, um það náðist ekki samstaða. Í öðru lagi leggja þær til að þessi tilteknu skip verði skylduð til að landa í tilteknum sveitarfélögum, ein skipa á landinu. Er það sanngirni að skipin, sem mörg hver eru af Suðurnesjum, Vestmannaeyjum, héðan af Reykjavíkursvæðinu, verði skylduð til þess að landa við hafnir norðan lands og austan, hvort sem þau vilja það eða ekki, ein skipa í landinu? Ég held að það sé gjörsamlega óframkvæmanlegt og stefndi líka samskiptum þessara skipa og verksmiðjanna í voða. Og ég veit að það er ekki fyrir því vilji í þessum tilteknu landshlutum að setja þau samskipti í slíka hættu.
    Að lokum að því er varðar fyrirspurn hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, þá er það ljóst að hér er eingöngu verið að ræða um aflaheimildir Hagræðingarsjóðs fram að 1. sept. nk., en stjórn sjóðsins mun starfa með eðlilegum hætti og sinna þeim erindum sem koma miðað við það að Hagræðingarsjóður geti hafið úthlutanir frá og með 1. sept. nk. Það er alveg ljóst að þetta mun taka alllangan tíma og Byggðastofnun þarf að koma mjög að því máli þannig að ég vænti þess, þó að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verði varið með þessum tiltekna hætti fyrstu átta mánuðina, að það komi ekki að jafnmikilli sök og oft hefur verið haldið fram.
    Að öðru leyti vil ég þakka þær umræður sem hér hafa átt sér stað og meðhöndlun nefndarinnar. Þetta mál hefur nú verið skoðað í víðara ljósi, sem er eðlilegt og fram kom í grg. frv. Það hefur verið unnið að því, ekki aðeins í sjútvn. heldur jafnframt í fjh.- og viðskn, og fjh.- og viðskn. hefur tekið tillit til margvíslegra sjónarmiða sem hafa komið fram í þessu erfiða og viðkvæma máli sem snertir mjög mörg byggðarlög víðs vegar um landið.