Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 9 . mál.


Sþ.

9. Tillaga til þingsályktunar



um átak gegn einelti.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að gert verði átak gegn einelti meðal barna og unglinga. Skipaður verði samstarfshópur fólks sem hefur reynslu af starfi með börnum og unglingum og honum falið að skila áætlun um úrbætur gegn einelti eigi síðar en 1. september 1991.


G r e i n a r g e r ð .


    Ofbeldi meðal barna og unglinga var mjög umrætt síðastliðinn vetur ekki síst vegna tíðra blaðafregna um götuofbeldi í Reykjavík. Ofbeldi á götum úti er sýnilegt og því er mikil umfjöllun um það og oft og tíðum ómálefnaleg. Hljóðara hefur verið um aðra tegund ofbeldis, einelti, sem er þó að flestra mati mun algengara en ekki eins sýnilegt. Allt að 80% þeirra barna og unglinga, sem koma í unglingaathvörfin í Reykjavík, búa við félagslega einangrun, en það er einmitt sá hópur sem verður helst fyrir einelti.
    Að undanförnu hefur þó töluvert verið fjallað um einelti, m.a. í tímaritum og á ráðstefnum fagfólks, kennara, sálfræðinga og heilbrigðisstétta. Menn eru að vakna upp við vondan draum og gera sér grein fyrir hvert ástand þessara mála er hér á landi. Flestir virðast sammála um að grípa verði til aðgerða gegn einelti nú þegar. Nokkur þekking er á einelti á Íslandi þótt hennar hafi ekki verið aflað skipulega. Ýmsir sálfræðingar og fleiri sem starfa í þágu barna og unglinga búa yfir dýrmætri reynslu úr starfi sínu og vita hvað hægt er að gera til að fyrirbyggja einelti og hjálpa þeim sem beitt hafa aðra einelti eða orðið fyrir því. Faglegan grunn vantar því ekki og á honum er hægt að byggja.
    Bent hefur verið á að í Noregi og Japan hefur verið gert sérstakt átak gegn einelti og árangur verið mjög góður.
    Hér á landi er það tilviljunum háð hvort börn og unglingar, sem verða fyrir einelti, fá aðstoð nógu snemma til þess að auðvelt sé að liðsinna þeim. Ef tekið er í taumana fljótt er hægt að rjúfa vítahring sem annars kann að skapast. Skipuleg fræðsla fyrir foreldrafélög og starfsfólk skóla og dagvistarstofnana um einkenni eineltis er ekki fyrir hendi nú. Kennarar og fóstrur eru þó í góðri aðstöðu til að finna fórnarlömb eineltis ef þau hin fyrrnefndu þekkja einkennin. Auk þess geta þessir hópar haft veruleg áhrif á samskiptamynstur innan einstakra hópa barna og unglinga og minnkað líkur á að einelti endurtaki sig, ef vel tekst til.
    Fagfólk, sem starfað hefur með unglingum, telur tiltölulega auðvelt að greina einkenni eineltis í hópi barna og unglinga og því sé fræðsla eitt af lykilatriðum þess að hægt sé að gera átak gegn einelti. Sérfræðiráðgjöf fyrir foreldrafélög, fóstrur og fósturnema, kennara og kennaranema mundi því vera ein þeirra leiða sem samstarfshópur athugaði gaumgæfilega.
    Einkum er nauðsynlegt að fræðslan nái til þeirra stétta er mest samskipti hafa við börn og unglinga, og má geta þess að einelti er tekið fyrir í fósturnámi.
    Í nokkrum skólum hér á landi hefur verið fjallað um ofbeldi, m.a. einelti, og reynt að vinna gegn því. Árangur þess starfs gefur tilefni til bjartsýni. Í þeim tilvikum hefur verið um að ræða frumkvæði og framtak starfsfólks skólanna og sálfræðinga fræðsluumdæmanna. Þessari mikilvægu fræðslu er ekki ætlað rúm í venjulegu skólastarfi og því hefur þurft að vinna mikið starf í sjálfboðavinnu. Tæplega er hægt að ætlast til að svo verði til langframa. Auk þess er víða lítið sem ekkert fjallað um þessi mál og árangurinn í heild hlýtur því að verða takmarkaðri. Full þörf er á að sem flestir vinni saman gegn einelti, fagfólk sé foreldrum, kennurum og nemendum til ráðgjafar um samskipti innan skóla og utan og allt sé gert sem unnt er til að hindra að aðstæður skapist fyrir einelti.
    Ýmsar ytri aðstæður, svo sem hönnun skólalóða og gæsla í frímínútum, geta skipt sköpum um hvort börnum og unglingum sé búið öryggi í frímínútum eða þar séu aðstæður sem ýta undir einelti. Reynsla annarra þjóða, sem glíma við sama vanda, hefur orðið til þess að farið er að huga gaumgæfilega að tómstundaaðstöðu í skólum með það í huga að veita orku barna og unglinga útrás í uppbyggjandi leikjum og starfi. Ætla má að hægt sé að gera einfaldar úrbætur og bæta gæslu á leikvöllum án mikils tilkostnaðar. Auk þess sem slík ráðstöfun mundi spara ómælda þjáningu gæti slík fjárfesting leitt til sparnaðar þegar fram í sækir. Ef hægt væri að koma í veg fyrir ofbeldi og einelti á skólavöllum yrði það í allra þágu. Á sama hátt verður einnig að líta á fleiri staði þar sem börn safnast saman í stórum hópum, t.d. skólabíla.
    Rétt er að vekja athygli á því að hér er verið að benda á tiltölulega ódýrar leiðir til að ná miklum árangri til hagsbóta fyrir börn og unglinga, ekki síst þá sem eiga undir högg að sækja. Ef vel tekst til yrði hér um að ræða öflugt forvarnastarf sem byggðist fremur á skynsamlegri stefnumörkun en dýrum björgunaraðgerðum þegar skaðinn er skeður.
    Afleiðingar eineltis eru oft mjög alvarlegar fyrir þau börn og unglinga sem fyrir því verða. Margir þeirra unglinga, sem síðar leiðast út í ofneyslu áfengis og annarra vímuefna, hafa orðið fyrir einelti þegar þeir voru yngri. Verulegu máli skiptir því að ná fljótt til sem flestra fórnarlamba. Átak gegn einelti er því fyrirbyggjandi starf sem getur skilað góðum árangri.
    Þeir sem leggja aðra í einelti eiga einnig við vandamál að stríða. Breytt samskiptamynstur í félagahópi, t.d. í skóla, getur einnig hjálpað þeim sem beita einelti.
    Kveikjan að átaki Norðmanna og Japana gegn einelti var umfjöllun fjölmiðla um vaxandi einelti í þessum löndum og alvarlegar afleiðingar þess. Ofbeldi í hópi barna og unglinga, ekki síst einelti, var talið ein helsta orsök þess að sjálfsvígum skólabarna hafi fjölgað mjög. Þegar loks var gripið til aðgerða og gert átak gegn einelti varð árangurinn betri en menn höfðu þorað að vona.
    Vonandi skilst Íslendingum að gera þarf átak gegn einelti án þess að til slíkrar fjölmiðlaumfjöllunar komi. Við getum greint ákveðin hættumerki í íslensku samfélagi nú þegar. Bent hefur verið á að eitt þessara hættumerkja sé sú staðreynd að tíðni sjálfsvíga íslenskra drengja er sú þriðja hæsta í Evrópu. Reynsla annarra þjóða sýnir að ofbeldi og einelti geta verið ástæða fyrir sjálfsvígum barna og unglinga.
    Grípa þarf til aðgerða gegn einelti nú þegar. Þótt starfshópi gegn einelti sé ætlaður tími til haustsins 1991 verður jafnframt að huga að því sem hægt er að gera nú þegar. Nota verður þá þekkingu og reynslu sem tiltæk er og hefja fræðslu um einelti og afleiðingar þess og gera þær úrbætur sem augljóslega geta dregið úr ofbeldi meðal barna og unglinga.
    Vernd barna og unglinga, velferð þeirra og góð líðan verður aldrei metin til fjár og það er skylda löggjafarvaldsins að tryggja öryggi og vellíðan allra þegna sinna og gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín. Börn og unglingar, sem verða fyrir einelti, eru einn slíkra hópa og þeirra hagsmunir mega undir engum kringumstæðum sitja á hakanum.