Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 10 . mál.


Sþ.

10. Tillaga til þingsályktunar



um viðurkenningu á fullveldi Eistlands, Lettlands og Litáens og stjórnmálasamband við þessi ríki.

Flm.: Þorsteinn Pálsson, Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur H. Garðarsso

n,

Ingi Björn Albertsson, Matthías Bjarnason, Matthías Á. Mathiesen,


Halldór Blöndal, Birgir Ísl. Gunnarsson, Geir H. Haarde,


Eyjólfur Konráð Jónsson, Ólafur G. Einarsson.




     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að árétta formlega viðurkenningu Íslands á fullveldi Eistlands, Lettlands og Litáens og taka tafarlaust upp stjórnmálasamband við þessi ríki með því að tilnefna íslenska sendiherra í þeim og veita viðtöku sambærilegum sendimönnum þeirra. Þá felur Alþingi ríkisstjórninni að vinna að því að önnur ríki sýni með sama hætti stuðning við fullveldi og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.


G r e i n a r g e r ð .


     Á síðustu missirum hefur mikið umrót orðið í stjórnmálalífi Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litáens. Þing þessara ríkja hafa öll lýst yfir sjálfstæði ríkjanna, en upphaflega urðu þau sjálfstæð ríki 1918. Þau voru innlimuð með valdbeitingu í Sovétríkin í júní 1940 í kjölfar griðasáttmála Hitlers og Stalíns árið áður. Í hálfa öld hafa þessi þrjú ríki verið, á grundvelli valdbeitingar, sovétlýðveldi.
     Ætla verður að á Íslandi ríki almennur skilningur á sjálfstæðiskröfu Eystrasaltsþjóðanna sem eiga sér merka sögu, eigin tungu og þjóðmenningu.
     Í viðræðum við leiðtoga þessara ríkja kemur það ítrekað fram að virk viðurkenning annarra ríkja á sjálfstæði þeirra er mjög mikilvæg að þeirra mati bæði í viðræðum þeirra við Sovétríkin og aðrar þjóðir og inn á við til að styrkja stjórnmálalega samstöðu um sjálfstæðisyfirlýsingar ríkjanna.
     Ísland hefur nú þegar sýnt þessum þjóðum mikinn og eindreginn stuðning. Alþingi sendi m.a. sérstakar heillaóskir til Litáens er landsmenn lýstu yfir sjálfstæði 11. mars 1990 og utanríkisráðherra hefur heitið því að Íslendingar muni vinna að viðurkenningu annarra ríkja á því að Eystrasaltslöndin fái að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi sem sjálfstæð ríki.
     Öll rök hníga þess vegna að því að rétt sé og sjálfsagt að árétta formlega viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáens og að taka tafarlaust upp stjórnmálasamband við þessi ríki.


Prentað upp.
........