Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 50 . mál.


Ed.

50. Frumvarp til laga



um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson.



1. gr.


     Stjórn lífeyrissjóðs skal sjá um að saminn sé ársreikningur fyrir hvert almanaksár í samræmi við reglur sem Seðlabanki Íslands setur. Ársreikningur skal hafa að geyma ársskýrslu, rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, fjármagnsstreymi og skýringar. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju, bæði að því er varðar mat á hinum ýmsu liðum og framsetningu.
     Í ársskýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
     Ársreikningur lífeyrissjóðs skal lagður fyrir skoðunarmenn eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Ársreikningur skal undirritaður af öllum stjórnarmönnum lífeyrissjóðs. Hafi einhver stjórnarmanna mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.

2. gr.


     Endurskoðun hjá lífeyrissjóði skal framkvæmd af tveimur skoðunarmönnum sem valdir eru samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sjóðsins og einum skoðunarmanni sem er löggiltur endurskoðandi.

3. gr.


     Skoðunarmenn skulu framkvæma endurskoðun í samræmi við góðar endurskoðunarvenjur og reglur Seðlabanka Íslands þar að lútandi. Með endurskoðun sinni skulu þeir komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem ársreikningurinn veitir. Þeir skulu ganga úr skugga um að ársreikningurinn sé gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta varðandi meðferð fjármuna, ráðstöfun fjár, ávöxtun og upplýsingaskyldu lífeyrissjóða.
     Skylt er að veita skoðunarmönnum aðstöðu til að gera þær athuganir sem þeir telja nauðsynlegar. Þeir skulu fá aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum lífeyrissjóðsins og skulu stjórn sjóðsins og starfsmenn veita þeim allar þær upplýsingar sem þeir æskja og unnt er að láta í té.
     Skoðunarmenn skulu árita ársreikninginn og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Þeir skulu gefa upplýsingar um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Þeir skulu láta í ljósi álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar að öðru leyti.
     Telji skoðunarmenn að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skulu þeir geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar, ef þess er kostur. Að öðru leyti geta skoðunarmenn greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem þeir telja eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Ábendingar og athugasemdir, sem skoðunarmenn vilja koma á framfæri við stjórn eða framkvæmdastjóra, skal bera fram skriflega og skal veita þessum aðilum hæfilegan frest til svara. Ef skoðunarmönnum þykir ástæða til skulu þeir gera tillögur til stjórnar lífeyrissjóðs um endurbætur varðandi meðferð fjármuna, um breytingar á innra eftirliti og öðru því sem þeir telja að geti verið til bóta í rekstri lífeyrissjóðsins.
     Skoðunarmönnum er skylt að veita bankaeftirliti Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar um málefni lífeyrissjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og þeir geta látið í té. Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs varðandi innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins eða skaðað hann að öðru leyti skulu skoðunarmenn gera stjórn sjóðsins og Seðlabanka Íslands viðvart.
     Skoðunarmenn hafa rétt til að sitja stjórnarfund þar sem fjallað er um ársreikning.

4. gr.


     Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1992.

G r e i n a r g e r ð .


    Hliðstætt frumvarp var lagt fram í efri deild á síðasta þingi og hlaut góðar undirtektir og afgreiðslu í deildinni. Hins vegar dagaði það uppi í lokaönnum þingsins sl. vor. Frumvarpið er því endurflutt í trausti þess að nú gefist nægilegt svigrúm til þess að báðar deildir geti fjallað um það og samþykkt það.
    Á Íslandi eru nú starfandi um 100 lífeyrissjóðir. Flestir þessara sjóða hafa orðið til vegna samninga milli launþega og vinnuveitenda og starfa samkvæmt reglugerðum er aðilar hafa komið sér saman um.
    Reglugerðir þessar þurfa síðan að fá staðfestingu fjármálaráðuneytisins til þess að unnt sé að starfrækja sjóðina samkvæmt þeim. Þá hefur með lögum verið ákveðin aðildarskylda að lífeyrissjóðum er tekur til allra er starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Þróun þessara mála tvo síðustu áratugi hefur því orðið með þeim hætti að í núverandi söfnunarkerfi lífeyrissjóða hafa myndast gífurlegar eignir. Til þess kjörnir stjórnendur annast meðferð þessara fjármuna samkvæmt settum lögum og reglugerðum um lífeyrissjóði.
    Eftir að lífeyrissjóðir urðu almennt viðurkennt lífeyristryggingaform á Íslandi, en það var með samningum aðila vinnumarkaðarins árið 1969, kom fljótt í ljós að þörf var á almennri löggjöf um starfsemi þeirra. Að frumkvæði ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar árið 1976 var því sett á laggirnar svonefnd lífeyrissjóðanefnd, skipuð aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum ríkisins. Skyldi nefndin vinna að því að auka og efla grundvöll lífeyrisréttinda sjóðsfélaga og samræma starfsemi þeirra.
    Nefnd þessi starfaði um tíu ár og lagði margt til í málefnum lífeyrissjóðanna sem m.a. kom fram í breytingum og endurbótum á reglugerðum þeirra. Skulu hér nefndar breytingar á sviði lífeyris - og örorkubóta, samræming á starfsemi sjóðanna, aukið samstarf þeirra á milli, tillögur um betri hagræðingu í rekstri og fleiri atriði svipaðs eðlis. Þá hafði nefndin mikil áhrif á setningu laga er tengjast hinum ýmsu þáttum lífeyrismála á því tímabili sem hún starfaði.
    Til þess að forðast misskiling er rétt að vekja athygli á því að nefnd sú, sem hér er vísað til, var svokölluð sautján manna nefnd og veitti Jóhannes Nordal seðlabankastjóri henni forstöðu. Innan þessarar nefndar starfaði átta manna nefnd, sem í áttu sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Farmanna - og fiskimannasambands Íslands Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnuhreyfingarinnar. Formaður þessarar nefndar, skipaður af forsætisráðherra, var fyrst Jón Sigurðsson, núverandi viðskiptaráðherra, en síðar tók við formennsku Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri vegna breyttra aðstæðna Jóns Sigurðssonar.
    Það var svo umrædd sautján manna nefnd sem skilaði til fjármálaráðherra tillögum að frumvarpi til laga um starfsemi lífeyrissjóðanna. Þetta frumvarp hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi. Án þess að vera með neinar getsakir um ástæður þess, að það hafi ekki verið gert, er ljóst að brýn nauðsyn er á því að frumvarp um starfsemi lífeyrissjóðanna verði lagt sem fyrst fyrir Alþingi. Vafalaust verða skiptar skoðanir um ýmis atriði frumvarpsins.
    Hér skal þess og getið að flutningsmaður þessa frumvarps um ársreikninga og endurskoðun ársreikninga var einn af fulltrúum í sautján manna nefndinni og skrifaði undir með fyrirvara þegar nefndin skilaði af sér tillögum um frumvarp til laga um starfsemi lífeyrissjóða. Ekki er ástæða til þess að rekja það nánar hér.
    Augljóst er að ákveðnar greinar frumvarps til laga um starfsemi lífeyrissjóða eru þess eðlis að um þær ætti að geta ríkt fullkomið samkomulag milli flestra aðila. Það er einnig ljóst að það frumvarp í heild verður ekki lagt fyrir yfirstandandi Alþingi svo að litlar líkur eru á að það nái fram að ganga í ár eða á næsta ári. Það er eindregin skoðun flutningsmanns að ekki megi draga að flytja frumvarp til laga um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða og lögfesta þar með veigamikil atriði í rekstri lífeyrissjóðanna. Í þessu frumvarpi er lagt til að þær greinar í tillögum að frumvarpi til laga um starfsemi lífeyrissjóðanna (30., 31. og 32. gr.) verði samþykktar með framlögðu frumvarpi og er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi og komi til framkvæmda 1. janúar 1992.
    Þetta frumvarp er því sniðið eftir nefndu frumvarpi, þó með þeirri veigamiklu breytingu að fellt er niður að koma á fót miklu eftirlitsbákni sem skipað yrði 15 aðilum. Hér er lagt til að þetta eftirlit verði í höndum Seðlabanka Íslands.
    Samkvæmt lögum á Seðlabanki Íslands að hafa eftirlit með banka - og peningakerfi þjóðarinnar. Seðlabankinn hefur þar með góða heildaryfirsýn yfir þennan málaflokk, en slíkt gerir hann að sjálfsögðu öðrum fremri að vega og meta eignavörslu sjóðanna og fjárhagsstöðu þeirra og einnig að annast faglega umfjöllun um ráðstafanir fjármuna. Þá hefur bankinn á að skipa hæfu starfsfólki sem þegar hefur töluverða reynslu í samskiptum við lífeyrissjóðina.
    Það er mjög mikilvægt fyrir farsælt starf lífeyrissjóðanna að óháð stofnun, óháðir aðilar, hafi með höndum eftirlit með fjárreiðum og fjárvörslu lífeyrissjóðanna með reglubundnum hætti eins og eftirlit Seðlabankans á að vera gagnvart bönkum og öðrum fjármálastofnunum.
    Á það er að lokum lögð áhersla að frumvarp þetta er ekki flutt vegna þess að með núverandi fyrirkomulagi fari ekki fram uppgjör og endurskoðun á reikningum lífeyrissjóða með eðlilegum hætti. Í reglugerðum lífeyrissjóðanna eru ströng ákvæði um gerð reikninga og endurskoðun. Þessum ákvæðum hefur að sjálfsögðu verið fylgt. En lagasetning eins og hér er gert ráð fyrir varðandi ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða mun þó tryggja enn betur framkvæmd þessara mála og veita eigendum sjóðanna betra aðhald og tryggingu fyrir góðri meðferð þeirra miklu fjármuna sem eru í lífeyrissjóðunum.