Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 51 . mál.


Ed.

51. Frumvarp til laga



um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum.

Flm.: Eiður Guðnason.



1. gr.


     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Áfengis - og tóbaksverslun ríkisins skal að höfðu samráði við landlæknisembættið og Umferðarráð merkja allar umbúðir undir áfengi, sem selt er í útsölum hennar, með viðvörun þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .


    Frumvarp um að merkja áfengisumbúðir með viðvörun um að áfengi geti valdið fósturskaða og að akstur og áfengisneysla eigi ekki samleið var flutt á síðasta þingi, en varð eigi útrætt.
    Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða sem lögleiddu að merkimiðar með varnaðarorðum um skaðsemi tóbaks væru settir á allar tóbaksumbúðir. Þetta framtak vakti athygli víða um lönd og enda þótt erfitt sé að mæla bein áhrif slíkra viðvarana er flutningsmaður sannfærður um að slík varnaðarorð hafa áhrif, bæði bein og óbein.
    Í Bandaríkjunum var fyrir nokkru lögleitt að aðvaranir um skaðsemi áfengis skuli að finna á öllum áfengisumbúðum og er þar ekkert undanskilið, hvorki létt vín né áfengur bjór. Aðvörunin á áfengisumbúðum í Bandaríkjunum er svohljóðandi:
    „Opinber aðvörun: (1) Að ráði landlæknis ættu barnshafandi konur ekki að neyta áfengis vegna hættu á fósturskaða. (2) Áfengisneysla dregur úr ökuhæfni og hæfileika til að stjórna vélum og kann að valda heilsutjóni.“
    Íslenskt áfengi, svo sem Eldur Ís vodka og Icy vodka, sem selt er í Bandaríkjunum, er með viðvörunum eins og að ofan greinir. Annars væri sala á því ekki leyfð. Ekki verður séð að neinir tæknilegir örðugleikar séu samfara því að merkja áfengi sem selt er hér á landi með viðlíka hætti og nú er lögboðið í Bandaríkjunum. Merkingu áfengisumbúða kann að fylgja nokkur kostnaður, en sé ráð fyrir þessu gert strax við prentun merkimiða hlýtur sá kostnaður að vera hverfandi lítill.