Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 71 . mál.


Sþ.

73. Tillaga til þingsályktunar



um brúarframkvæmdir á Suðurlandi.

Flm.: Eggert Haukdal.




     Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að hraða hönnun og öðrum undirbúningi brúarframkvæmda á Suðurlandi í þeim tilgangi að eftirtaldar framkvæmdir verði ákveðnar sem hér segir við endurskoðun vegáætlunar í vetur:
     Ný brú á Markarfljót verði byggð og henni lokið á árinu 1991 vegna þeirrar miklu hættu sem stafar af skemmdum á gömlu brúnni frá því í sumar.
     Ný brú á Kúðafljót verði byggð í beinu framhaldi af framkvæmdum við Markarfljót.
     Brú á Hvítá hjá Bræðratungu verði byggð samkvæmt nánari tímaáætlun í framhaldi af verklokum við Kúðafljót.
     Áformum um byggingu göngubrúar yfir Ölfusá hjá Selfossi verði hrint í framkvæmd árið 1991.

G r e i n a r g e r ð .


     Ný brú á Markarfljót er á gildandi vegáætlun þar sem gert er ráð fyrir að hún verði byggð á árunum 1991 og 1992. Í sumar bilaði núverandi brú og var gert við hana til bráðabirgða. Óvíst er hversu lengi sú viðgerð dugir. Er því brýnt að byggingu brúarinnar ásamt tengingu verði lokið á árinu 1991.
     Ný brú á Kúðafljót er ekki inni á núverandi vegáætlun. Vegagerðin gerir ráð fyrir að hún verði byggð fyrir sunnan Skaftártunguna þannig að nýr Suðurlandsvegur á þessum kafla mundi ekki liggja um Skaftártunguna eins og hann gerir nú. En Skaftártungan er nú snjóþyngsti kaflinn á leiðinni frá Reykjavík og austur á firði. Sérstaklega sker hún sig nú úr eftir að nýr vegur var gerður yfir Mýrdalssand mun sunnar en gamli vegurinn. Hin nýja brú verður því ekki aðeins mikil samgöngubót fyrir austurhluta Vestur - Skaftafellssýslu, heldur einnig alla Austfirði.
     Um þessar mundir er verið að ljúka byggingu nýrrar brúar á Tungufljót, við bæinn Krók í Biskupstungum. Þessi brú leysir af hólmi gamla brú sem er nokkru ofar eða við fossinn Faxa. Með þessu er þó aðeins hálf sagan sögð. Nauðsynlegt er að byggja líka brú á Hvítá á móts við Bræðratungu. Með byggingu brúar á þessum stað yrði komið á tengingu milli miðstöðva tveggja stærstu hreppanna í uppsveitum Árnessýslu. En samanlagður íbúafjöldi í þessum tveimur hreppum er rúmlega 1.100 manns. Ekki þarf að fjölyrða um hve mikil lyftistöng þessi tenging yrði fyrir atvinnulíf þessara sveitarfélaga ef þau yrðu eitt atvinnusvæði, en fátt er jafnbrýnt um þessar mundir og einmitt efling atvinnulífs í sveitum landsins til að mæta samdrætti í framleiðslu landbúnaðarafurða.
     Göngubrú á Ölfusá á Selfossi var upphaflega á vegáætlun á árinu 1990. Framkvæmdum var hins vegar frestað til ársins 1992 vegna byggingar nýrrar brúar á Múlakvísl sem ekki var á vegáætlun. Nauðsynlegt er hins vegar að byggja þessa brú sem fyrst vegna ört vaxandi byggðar Selfoss norðan Ölfusár. Er hér um að ræða bæði íbúðar - og iðnaðarhús.


Fylgiskjal.
.......



Vegagerð ríkisins:


Leiðir á Suðurlandi.


(23. okt. 1990.)



    Þrjár leiðir á Suðurlandi sem gætu styst við að byggðar yrðu nýjar brýr.


    

Stytting vegna

Meðalumferð


    

nýrrar brúar

bíla á dag


    

í km

1989 (ÁDU)

    



    Um Kúðafljót     
7,1
170
    Um Markarfljót     
5,1
320

___________



Aratunga Flúðir

.

    

Vegalengd í km

Vegalengd


    

miðað við brú

án brúar




     Um Hvítá hjá Iðu (Skálholtsvegur)     

21

35


     Um Hvítá hjá Brúarhlöð (Einholtsvegur)     

23

37


     Sama og b, en um Biskupstbr. og Hrunamv.     

34

48


     Um Hvítá nálægt Hvítárholti (óbrúað)     

14



___________



    Kostnaður við brýrnar, ásamt vegum og varnargörðum er metinn sem hér segir:

    Kúðafljót     270 m.kr.
    Markarfljót     250 m.kr.
    Hvítá     240 m.kr.

    Kostnaður við Ölfusá, göngubrú, er metinn 31 m.kr.