Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 147 . mál.


Sþ.

153. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga sem gerður var í Strassborg 28. janúar 1981.

A t h u g a s e m d i r v i ð þ i n g s á l y k t u n a r t i l l ö g u þ e s s a .


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga. Samningur þessi var gerður á vegum Evrópuráðsins og lagður fram til undirritunar í Strassborg 28. janúar 1981. Hann var undirritaður af Íslands hálfu 27. september 1982. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari. Ástæða þess að svo lengi hefur dregist að leita eftir fullgildingarheimild er fyrst og fremst að lög hér á landi um vernd persónuupplýsinga hafa verið tímabundin, fyrst lög 63/1981 og síðan lög 59/1985, lög um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni. Lög þessi giltu hvor um sig aðeins til fjögurra ára.
    Með setningu laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989, sem ekki hafa markaðan gildistíma, telst vera fenginn ótvíræður grundvöllur fyrir staðfestingu þessa samnings.
    Samningurinn öðlaðist gildi 1. október 1985, en tíu ríki hafa nú fullgilt hann: Austurríki, Bretland, Danmörk, Frakkland, Írland, Lúxemborg, Noregur, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland. Tilgangur samnings þessa er fyrst og fremst að tryggja sérhverjum manni rétt til einkalífs að því er varðar vélræna vinnslu á persónuupplýsingum.
    Aðdragandi samningsins er sá að á árinu 1968 samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun um að láta kanna hvort Mannréttindasáttmáli Evrópu og löggjöf aðildarríkjanna veiti einstaklingum næga einkalífsvernd gagnvart nútíma tækni. Athugun á vegum ráðsins leiddi í ljós að þágildandi löggjöf veitti ónóga vernd fyrir einkalíf manna gagnvart vélvæddum gagnabönkum. Ráðherranefnd ráðsins gerði síðan 1973 og 1974 tvær samþykktir um upplýsingavernd til leiðbeininga fyrir aðildarríkin við setningu laga um þessi málefni.
    Þegar sérfræðingar voru að vinna að texta samþykkta ráðherranefndarinnar varð þeim ljóst að þegar löggjöf ríkjanna hefði verið aðlöguð nýrri tækni væri nauðsyn að setja alþjóðasamning til að treysta framkvæmd lagareglnanna þar sem ríki kæmu sér saman um samræmda framkvæmd réttarreglna á þessu sviði. Árið 1976 fól ráðherranefndin því sérfræðingum að gera drög að samningi um vernd einkalífs gagnvart vinnslu upplýsinga milli landa og vinnslu upplýsinga erlendis.
    Niðurstaða þeirrar vinnu var samningur sá sem hér er lagður fram til staðfestingar.
    Efni samningsins má skipta í þrjá meginþætti:
     Ákvæði um grundvallaratriði sem kveða á um í lögum.
     Ákvæði um streymi upplýsinga milli ríkja.
     Ákvæði um skipulag gagnkvæmrar aðstoðar milli aðila.
    Samkvæmt 3. gr. samningsins skuldbinda aðilar sig til að láta ákvæði samningsins gilda um vélræna vinnslu slíkra upplýsinga. Samkvæmt 4. gr. skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til að taka í lög sín þau grundvallaratriði sem II. kafli samningsins fjallar um.
    Telja verður að reglur þær sem nýsett lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989, gera ráð fyrir uppfylli þau skilyrði sem sett eru í samningnum um vernd persónuupplýsinga. Að því er varðar ákvæði III. kafla samningsins um streymi upplýsinga milli ríkja þá er í 27. gr. laganna heimild til að setja í reglugerð ákvæði til að fullnægja þeim reglum sem eru í samningnum.

Fylgiskjal.


REPRÓ