Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 19 . mál.


Sþ.

186. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Inga Björns Albertssonar um húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi.


     1. Var leitað tilboða hjá framleiðendum einingahúsa í Stykkishólmi í húsnæði handa lögreglunni á staðnum? Ef svo var gert: hvernig voru þau tilboð? Ef það var ekki gert, hverjar voru ástæður þess?

     Svar:
    Ekki var leitað tilboða í smíði einingahúss til nota sem lögreglustöð í Stykkishólmi. Ástæða fyrir því var sú að engin fjárveiting var á fjárlögum 1990 til þessa verks.

     2. Hvort var það einingahús, sem upp var sett fyrir lögregluna í Stykkishólmi, keypt eða leigt og á hvaða kjörum var það?

     Svar:
    Frá fyrirtækinu S.G. einingahús kom tilboð um lausn á þeim vanda sem húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi voru í án þess að leitað væri tilboða, sbr. svar hér að framan.
    Tilboðið hljóðaði upp á smíði húss af tiltekinni gerð, að stærð rúmlega 103 fermetrar, sem hentaði vel sem lögreglustöð.
    Í tilboðinu var gengið út frá því að húsið yrði leigt á 41 þús. kr. á mánuði. Jafnframt var ráðuneytinu boðið að kaupa húsið á 6.064 þús. kr. að viðbættri hækkun er kynni að verða á byggingarvísitölu, miðað við byggingarvísitölu 164,9 stig, enda fengist til þess fjárveiting.
    Þessu tilboði tók ráðuneytið að því er leiguþáttinn varðar, enda var hér um boð að ræða sem bakaði ríkinu ekki fjárútlát á þessu ári. Hugsanleg kaup eru hins vegar háð ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum, en ráðuneytið er reiðubúið til að samþykkja þau að fullnægðum þeim skilyrðum.