Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 177 . mál.


Ed.

198. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.

Flm.: Halldór Blöndal, Margrét Frímannsdóttir, Karl Steinar Guðnason,


Guðrún J. Halldórsdóttir, Salome Þorkelsdóttir.



1. gr.


     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður svohljóðandi:
     Meðan núverandi sóknarprestur í Kirkjuhvolsprestakalli þjónar kallinu taka breytingar á Odda-, Kirkjuhvols- og Fellsmúlaprestaköllum í Rangárvallaprófastsdæmi skv. 1. gr. ekki gildi.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .


     Hinn 1. júlí sl. gengu í gildi ný lög um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Frumvarpið var samþykkt í önnum þingsins síðustu dagana og þess vegna kemur ekki á óvart þótt nauðsynlegt sé að breyta einstökum ákvæðum laganna.
     Samkvæmt lögunum verður Kirkjuhvolsprestakalli skipt upp. Hábæjarsókn á að falla undir Oddaprestakall, Kálfholts - og Árbæjarsóknir skulu leggjast til Fellsmúlaprestakalls.
     Nú hafa sóknarnefndir Hábæjar - , Kálfholts - og Árbæjarsókna skrifað kirkjumálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir, eins og segir í bréfi sóknarnefndar Árbæjarsóknar:
     að hafa áfram sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur,
     að þurfa ekki að hlíta því að vera með stjórnvaldsákvörðun skikkuð í annað prestakall.
     Flutningsmenn telja rétt að leggja það álitamál til hliðar um sinn hvort sá lagabókstafur skuli standa til frambúðar að Kirkjuhvolsprestakall verði lagt niður. Á hinn bóginn leggja flutningsmenn áherslu á að sóknarbörn Kirkjuhvolsprestakalls fái áfram að njóta þjónustu þess sóknarprests sem þau kusu, séra Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur. Slík frestun á skipulagsbreytingu er enn fremur í samræmi við hefðir og góða lagavenju.
    Flutningsmenn minna á að séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir er sú kona íslensk sem fyrst hlaut prestsvígslu.
     Fylgiskjal með frumvarpi þessu eru bréf frá sóknarnefndum Árbæjar-, Hábæjar- og Kálfholtssókna í Kirkjuhvolsprestakalli til kirkjumálaráðherra.


Fylgiskjal.
.......



Bréf sóknarnefnda Árbæjar-, Hábæjar- og Kálfholtssókna


til kirkjumálaráðherra.



1. Bréf sóknarnefndar Árbæjarsóknar.


(20. okt. 1990.)


    Okkur í sóknarnefnd Árbæjarsóknar í Kirkjuhvolsprestakalli, Rangárvallaprófastsdæmi, er sagt að prestakall okkar verði lagt niður um áramótin nk. samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi á síðasta vori. Við óskum ekki eftir þessum breytingum og vorum búin að mótmæla þeim. Því grípum við til þess ráðs að skrifa yður.
    Rök okkar eru tvíþætt:
    Í fyrsta lagi: Við óskum eftir að hafa áfram sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur.
    Í öðru lagi: Við viljum ekki hlíta því að vera með stjórnvaldsákvörðun skikkuð í annað prestakall.
    Við förum þess á leit við yður að þér beitið þeirri heimild sem þér hafið í 49. gr. laga nr. 62 frá árinu 1990 og frestið ákvörðun um breytingu á Kirkjuhvolsprestakalli.

Virðingarfyllst,



Hannes Hannesson, Þórunn Ragnarsdóttir, Helgi Haraldsson.




2. Bréf sóknarnefndar Hábæjarsóknar.


(19. okt. 1990.)


    Með þessu bréfi til yðar, herra kirkjumálaráðherra, viljum við enn einu sinni mótmæla því að Kirkjuhvolsprestakall í Rangárvallaprófastsdæmi verði lagt niður. Því var mótmælt á héraðsfundi sem haldinn var um málið meðan það var enn á umræðustigi og við sendum kirkjuþingi sérstök mótmæli sóknarnefndarinnar.
    Við bjuggumst ekki við að prestakall okkar yrði lagt niður og höfum ekki áttað okkur á þessu fyrr en nú. Þess vegna höfum við ekki komið að máli við yður eða skrifað yður um þetta fyrr.
    Við erum enn sem fyrr andvíg því að prestakall okkar verði lagt niður og prestssetrið flytjist úr Þykkvabæ. Við óskum eftir að halda áfram að njóta þjónustu prests okkar, séra Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur. Við erum andvíg því að tilheyra prestakalli austan Rangár. Við sjáum enga ástæðu til breytinga á Kirkjuhvolsprestakalli.
    Við óskum því eindregið eftir því, herra kirkjumálaráðherra, að þér beitið heimild í lögum nr. 62 frá 1990, í 49. gr., og frestið ákvörðun um breytingu á prestakalli okkar.

Virðingarfyllst,



Páll Ó. Hafliðason, Búð, Helga Tyrfingsdóttir, Tjörn,


Ágúst Gíslason, Suður-Nýjabæ, Eygló Yngvadóttir, Önnuparti,


Páll Guðbrandsson, Hávarðarkoti.




3. Bréf sóknarnefndar Kálfholtssóknar.


(22. okt. 1990.)


    Okkur í sóknarnefnd Kálfholtssóknar í Kirkjuhvolsprestakalli, Rangárvallaprófastsdæmi, er sagt að prestakall okkar verði lagt niður um áramótin samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi á síðasta vori. Við mótmælum þessum breytingum þar sem ekki hefur verið haft samráð við Kálfholtssöfnuð og munum við ekki hlíta því að vera með stjórnvaldsákvörðun skikkuð í annað prestakall.
    Því óskum við eftir að hafa áfram þann sóknarprest, sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur, sem við höfum kosið okkur.
    Við förum þess á leit við yður að þér beitið þeirri heimild sem þér hafið í 49. gr. laga nr. 62 frá árinu 1990 og frestið ákvörðun um breytingu á Kirkjuhvolsprestakalli.

Virðingarfyllst,



Jónas Jónsson, Sveinn Tyrfingsson, Jón Þorsteinsson.