Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 200 . mál.


Sþ.

253. Tillaga til þingsályktunar



um kortlagningu gróðurlendis Íslands.

Flm.: Egill Jónsson, Jón Helgason, Geir Gunnarsson,


Árni Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gróðurlendi Íslands verði kortlagt.
     Lögð verði áhersla á að upplýsa:
     heildarstærð gróinna landsvæða svo að staðfest verði hve mikill hluti landsins er hulinn gróðri,
     stærð og mörk þeirra landsvæða þar sem gróðureyðing er ör til að auðvelda markvissar aðgerðir í gróðurvernd og uppgræðslu þeirra,
     stærð þeirra landsvæða þar sem gróður á í vök að verjast og friðun telst árangursrík til styrkingar,
     stærð ógróinna landsvæða sem hæf eru til landgræðslu en gróa ekki sjálfkrafa.
    Að öðru leyti byggist nánari greining landsins eftir jarðvegi og gróðri á þeim möguleikum sem sú tækni í myndagerð, sem notuð verði við þetta verkefni, framast leyfir.


Greinargerð.


     Á síðustu áratugum hefur gróðurfar landsins verið fyrirferðarmikið umræðuefni hér á landi. Slík umfjöllun kemur tæpast á óvart því að þjóðin býr í stóru landi með fjölbreytilegu og stórbrotnu landslagi sem eldur og ís hefur mótað í aldanna rás. Þessi umræða hefur m.a. beinst að útbreiðslu og viðgangi gróðurs á ýmsum tímum. Drjúgan þátt í þessari umfjöllun hafa lærðir menn á þessu sviði átt og er því fróðlegt að íhuga skoðanir þeirra. Í bókinni Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen, sem kom út í 2. útgáfu árið 1933, kemst höfundur m.a. svo að orði:
     „Í Íslendingabók Ara prests hins fróða er sagt, að Ísland hafi verið „viði vaxið milli fjalls og fjöru“, er það byggðist. Þó þetta sé líklega ýkt, þá er það víst, að birkiskógar hafa á landnámstíð tekið yfir miklu stærri svæði en síðar varð. Hinar neðri fjallshlíðar hafa þá að öllum líkindum verið skógivaxnar víða um land og skógur hefur tekið yfir meginið af holtum og melum á undirlendi og yfir ýmis gömul hraun og sandsvæði á láglendi, sem nú eru uppblásin. Skógur hefir náð yfir mikinn hluta af bygðum og dölum, en hvergi hefir hann að mun náð upp á hálendi, og flestir útkjálkar hafa þá sennilega verið alveg skóglausir einsog nú. Á sjálfu undirlendinu hafa þegar á landnámstíð mörg svæði verið skóglaus, t.d. margar mýrar, sandar við sjó og fram með ám, ný hraun o.fl. Mun vera vel í lagt, ef þess er getið til, að þá hafi þrítugasti hluti landsins verið skógivaxinn; hálendið nærri alt og allmiklar spildur af útkjálkum og útnesjum voru gróðurlitlar auðnir síðan á ísöldu; skóganna hefir því aldrei gætt mikið í samanburði við flatarmálið þó þeir eðlilega hljóti að hafa verið mjög þýðingarmiklir fyrir landnámsmenn.“
    Niðurstaða Þorvalds Thoroddsens á útbreiðslu skóglendis á Íslandi er sú að við landnám hafi um 3.400 km 2 lands verið skógi vaxnir en það er u.þ.b. þrefalt á við það sem nú er.
    Í ársriti Skógræktarfélags Íslands 1971 kemst Hákon Bjarnason skógræktarstjóri að nokkuð ólíkri niðurstöðu. Þar segir að á fyrri tímum hafi skóglendi þakið um 40.000 km 2 og að um helmingur landsins hafi verið vaxinn samfelldum gróðri.
    Árið 1972 ritar Ingvi Þorsteinsson grein í rit Landverndar Gróðurvernd undir kaflaheitinu „Hve mikið hefur tapast?“ Þar segir:
    „Gróðureyðingin náði hámrki á síðari hluta 19. aldar. Þá voru víðáttumikil svæði á hálendinu orðin örfoka, uppblástursgeirarnir teygðu sig víða niður í byggð, fjöldi bæja hafði lagzt í eyði vegna sandfoks og uppblásturs og tilveru heilla byggðarlaga var ógnað. Upp úr síðustu aldamótum tók að draga úr eyðingarhraðanum, bæði vegna hlýnandi loftslags og landgræðsluaðgerða, og vegna þess að víða var allt fokið, sem fokið gat. Samt fer því fjarri, að enn hafi tekizt að stöðva landeyðinguna, eins og síðar verður að vikið.
    Ekki er fyrir hendi vitneskja um, hve mikið af landinu er gróið nú. Unnið er að kortlagningu á gróðri landsins, en henni er ekki lokið. Af þeim niðurstöðum, sem þegar liggja fyrir, virðist þó mega áætla að 1 / 4 1 / 5 þess (20 25 þús. km 2 ) sé gróinn. Þetta táknar, að á þeim tæpum 1100 árum, sem liðin eru frá upphafi landnáms, hefur tapazt meira en helmingur af gróðurlendi landsins af svæði, sem svarar til a.m.k. 1 / 3 af heildarstærð landsins. Árlegt tap hefur samkvæmt þessu numið að meðaltali 20 25 km 2 gróðurlendis á þessu tímabili.
    Af heildarflatarmáli landsins eru nú um 12% jöklar, 5 6% ár og vötn, 20 25% gróið og 50 60% ógróið land.“
    Athyglisverðasta niðurstaða þessarar greinar er að gróið land þeki 20 25 þús. km 2 og að árlegt tap gróins lands nemi að meðaltali 20 25 km 2 .
    Í ritinu Náttúra Íslands , sem gefið var út árið 1981, fjallar Ingvi Þorsteinsson aftur um þessi mál. Þar segir undir kaflaheitinu „Gróðurrýrnun“:
    „Á Íslandi hefur orðið gífurleg rýrnun landgæða á þeim 1100 árum, sem liðin eru frá því að land byggðist. Rýrnunin er fyrst og fremst fólgin í því, að á þessu tímabili hefur flatarmál gróins lands minnkað úr 60 70 þúsund km 2 í u.þ.b. 25 þúsund km 2 , og flatarmál skóg- og kjarrlendis úr 30 40 þúsund km 2 í 1.250 km 2 . Þessi eyðing ætti að vera flestum kunn, því að í öllum landshlutum blasa við auðnir, sem áður voru klæddar gróðri, og rofabörð og önnur merki þess, að gróður - og jarðvegseyðingu er ekki lokið á Íslandi.“
    Það sem vekur sérstaka eftirtekt er að hér er áætlað að gróður hafi við landnám þakið um 60 70 þús. km 2 og er það mikil aukning frá fyrri áætlunum.
    Ritið Íslensk þjóðmenning (1987) birtir m.a. grein eftir Sturlu Friðriksson þar sem hann fjallar ítarlega um þessi mál. Samkvæmt heimildaskrá sem fylgir greininni hefur Sturla m.a. haft til hliðsjónar efni þeirra ritgerða sem að framan er getið. Í greininni segir:
    „Af ýmsum fyrrgreindum heimildum og rökum má þó telja fullvíst að gróður hafi a.m.k. hulið um 40.000 km 2 lands, en það er tvöfalt víðáttumeira landsvæði en nú er gróið. Sennilega hefur tæpur helmingur þess lands verið vaxinn skógi, eða um 18.000 km 2 .
    Rétt er að geta þess að skiptar skoðanir eru um víðáttu skóglendis um landnám. Þannig var lengi álitið að aðeins 3.000 5.000 km 2 lands hafi verið viði vaxnir. Síðar hafa menn talið að að minnsta kosti rúmir 25.000 km 2 landsins hafi þá verið skógi vaxnir eða jafnvel getið þess til að um 40.000 km 2 lands hafi verið vaxnir birki.“
     Þótt skoðanir sérfróðra manna um gróðurfar landsins séu ekki samdóma, eins og framangreindar tilvitnanir bera með sér, verður að telja að hin faglega umræða hafi skilað þeirri niðurstöðu að enn gangi á gróðurlendi landsins og að þannig sé fenginn grundvöllur að þjóðfélagsumræðunni um þessi mál.

Einhliða umræða.
    Í umræðu um orsakir eyðingar gróðurlenda á Íslandi hefur jafnan gætt nokkuð einhliða skýringa, sérstaklega hefur svo verið hin síðari ár, að þar sé búsetunni í landinu um að kenna. Miklu minna hefur verið rætt um áhrif hinna hörðu náttúruafla sem m.a. ráðast af eldvirkni og jöklum og breytilegri veðráttu á ýmsum tímum.
    Um þessi efni fjallar Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur í grein er birtist í ritinu Saga Íslands I, árið 1974. Þar er m.a. sýnd hitafarslína frá fyrri öldum og snælínan í suðurhlíðum Vatnajökuls allt frá landnámi, sjá fskj. I. Þarna kemur greinilega fram hversu veðráttan hefur farið hörðum höndum um þetta land þótt úr hófi hafi keyrt á sautjándu, átjándu og nítjándu öld, og má nærri geta hver áhrifin hafa verið á gróðurfar landsins. Margar heimildir vitna um þá óheillaþróun sem af þessu langvinna harðæri hlaust. Í því sambandi er vert að minna á hin eftirtektarverðu orð Sveins Pálssonar er hann viðhafði fyrir tveimur öldum þegar eyðingaröflin fóru hamförum:
    „Hver er líka sá, að hann hafi leikið eftir eða fylgst með öllum seinagangi náttúrunnar stig af stigi, öllum duttlungum hennar og umbreytingum, eða þori að neita því að þar sem jökulárnar flæmast nú um, brjóta grassvörðinn, valda uppblæstri og mynda samfellda sanda og jökulaura, geti orðið frjósamt sléttlendi þegar aldir renna?“
    Einnig hlýtur að vekja eftirtekt skoðun Runólfs Sveinssonar sandgræðslustjóra á þessum málum sem kemur fram í yfirgripsmikilli grein sem birtist í ritinu Sandgræðsla Íslands fimmtíu ára . Þar segir m.a.:
    „Víst er, að hálendis- og öræfagróður landsins er mjög háður hitastigi og veðráttunni yfirleitt. Takmörk gróðurs og auðnar inni á öræfum og jafnvel allt niður undir byggð sums staðar á landinu hafa áreiðanlega flutzt til fyrir áhrif veðráttunnar einnar. Gróðureyðing og uppblástur á því stundum upptök sín ekki sízt inni á hálendinu, vegna þess að árshitinn lækkar og veðráttan harðnar um lengri eða skemmri tíma.“
    Með engu móti má þó gleymast að landið ber búsetunni órækt vitni enda oft á tíðum gengið hart að nytjum þess, bæði er varðar viðartekjur og beit þess búfjár er í landinu hefur gengið.

Breyttir tímar.
    Um þessar mundir er liðin u.þ.b. ein öld frá því að hjöðnun jöklanna hófst. Frá þeim tíma hefur veðrátta farið hlýnandi og er nú að mati fróðra manna svipuð og var við landnám. Þessi hagstæðu áhrif í veðurfari eiga sinn þátt í að gróður er í framför víða um land. Að sama marki stefna áhrif þess umbótatíma í landbúnaði sem varað hefur um fjögurra áratuga skeið. Með aukinni túnrækt og nýtingu ræktunarlanda til beitar hefur stórlega dregið úr beitarálagi á landið.
    Mörg stórvatna landsins, sem áður eyddu gróðurlendum, hafa nú tekið sér fastan farveg, m.a. vegna aðgerða við fyrirhleðslur. Þessi lönd eru nú í örri framför hvað sjálfgræðslu varðar. Tilvitnuð orð Sveins Pálssonar hér að framan, sem hann viðhafði fyrir tveimur öldum, eru þannig orðin að staðreynd. Af þessum ástæðum og fleirum er gróður víða um land í mikilli framför. Áraurar, sem til skamms tíma voru berangur, eru sem óðast að vaxa samfelldum gróðri, sums staðar eru lyng og birkiplöntur farnar að ná umtalsverðri útbreiðslu og birki og víðir eru víða í mikilli framför, einkum til dala. Þrátt fyrir þessa hagstæðu þróun í gróðurfari landsins er hennar lítið getið og ekki hefur hún enn verið tekin til uppgjörs við mat á ástandi gróðurs í landinu.

Mat á aðstæðum.
    Tæpast verður það áréttað sem vert er hversu gróðurfarslegar aðstæður í landinu eru ólíkar því að þrátt fyrir þá hagstæðu þróun sem að framan er getið eru eyðingaröflin á fullri ferð víða um land þótt áhrifa þeirra gæti einkum á móbergssvæðunum um miðbik landsins. Við vissar náttúrufarslegar aðstæður geta jafnvel áhrif hlýnandi veðráttu leitt til óhagstæðari gróðurskilyrða. Fróðir menn telja að afleiðing hjöðnunar jökla sé að landið rísi sem leitt getur til lægri grunnvatnsstöðu í jarðvegi og lakari gróðurskilyrða. Við hærri snjólínu á þurrviðrasömum heiðarlöndum dregur úr þýðingarmikilli vatnsmiðlun og vaxtarskilyrði versna. Þessi dæmi og raunar mörg fleiri sýna hvert grundvallaratriði það er við þær breytilegu aðstæður sem einkenna náttúrufar landsins að sem nákvæmust staðbundin þekking á ræktun þess sé fyrir hendi.
    Í áður tilvitnaðri ritgerð Runólfs Sveinssonar, þar sem fjallað er um stærð gróins lands og ástand gróðurs á þeim tíma, kemst höfundur þannig að orði:
    „Því miður getum við ekki gert gróðurreikning landsins upp í dag, og því ekki séð með neinni vissu hvort um hallabúskap er að ræða eða ekki. Til þess þarf umfangsmiklar rannsóknir sem eru kostnaðarsamar og tímafrekar. Engu að síður er okkur lífsnauðsynlegt að vita hvort gróður landsins er enn að eyðast og þá hve mikið. Ef ræktun og aukning gróðurs, sem unnið er að, ekki vegur upp á móti gróðureyðingunni, er mikil alvara á ferðum. Auk þess, með væntanlega fjölgun búfjár í landinu í huga, er mikil nauðsyn að komast sem fyrst að viðunanlegri niðurstöðu um hvernig gróðurreikningur landsins stendur nú. Því má þó ekki gleyma, sem áður er hér drepið á, hvað veðráttan á hverjum tíma mun hafa mikla þýðingu fyrir allan gróður í landinu.“
    Enn er ekki fyrir hendi nákvæm vitneskja um stærð þeirra landsvæða sem eru að eyðast gróðri. Sveinn Runólfsson áætlar að ör gróðureyðing taki til 5 6 þús. km 2 og að á um það bil 10 12 þús. km 2 sé gróður í bágu ástandi.
    Þótt hér séu ónákvæmar tölur tilgreindar er fullljóst að mikil verkefni í landgræðslu og gróðurvernd eru fram undan.

Að greiða skuldina við landið.
    Oft á tíðum hefur gætt ótrúlegrar bjartsýni þegar ákvarðanir hafa verið teknar um einstök markmið í landgræðslumálum. Þannig var jafnan haft á orði í umræðum um fyrstu landgræðsluáætlunina sem Alþingi samþykkti á hátíðarfundi á Þingvöllum árið 1974 þegar þjóðin minntist ellefu alda afmælis á Íslandi „að nú skyldi skuldin við landið greidd“. Þrátt fyrir árangursrík störf Landgræðslu ríkisins er ljóst að langur tími mun líða þar til eyðingaröflin í náttúru Íslands verða að velli lögð og fullyrða má að gróðurvernd og græðsla verða ævarandi verkefni á Íslandi. Það ræðst af hörðu náttúrufari landsins og viðkvæmri jarðvegsbyggingu.
    Í því sem að framan er greint kemur greinilega fram að vitneskju um gróðurfar í landinu er afar ábótavant, bæði er varðar stærð gróinna landa en þó sérstaklega varðandi þau lönd sem umönnunar þurfa. Nákvæm mæling þeirra landa, röðun verkefna og nákvæm ræktunaráætlun eru mikilvægur grundvöllur til að meta stærð þessa mikilvæga verkefnis og tryggja sem bestan árangur í landgræðslustarfi.
    Miklar nýjungar og tækniframfarir hafa átt sér stað á síðari árum í myndagerð með notkun gervihnatta. Vafalaust mun þekkingu á þessu sviði enn eiga eftir að fleygja fram á næstu árum. Landmælingar Íslands hafa nýlega gert fyrsta kortið á grundvelli þessarar nýju tækni sem sýnir að gervihnattamyndir er auðvelt að hagnýta við flokkun landsins eftir gróðurfari og að með þeirri þekkingu, sem þegar er fyrir hendi í landinu og m.a. byggist á gróðurkortum, er hægt að ákvarða með sæmilegu öryggi ástand gróðurs á einstökum svæðum landsins. Vísast í þeim efnum til álitsgerðar Landmælinga Íslands sem er birt sem fskj. II.
    Á síðasta Alþingi var samþykkt tillaga (fylgiskjal III) sem kveður á um stórátak í landgræðslu. Er þar miðað við að uppblástur landsins verði að mestu úr sögunni um næstu aldamót. Þessi áform eiga að byggjast á raunhæfri úttekt á landsvæðum þar sem beitarálag er of mikið og eyðingaröflin eru enn að verki. Til þess að þessi markmið nái fram að ganga er óumflýjanlegt að kortleggja landið svo að stærð þessa verkefnis liggi fyrir.
    Sú tillaga, sem hér er flutt, ef samþykkt verður, leggur grundvöll að markvissum aðgerðum í landgræðslumálum jafnframt því sem sú mikilvæga þekking, sem þannig fæst, hlýtur að færa þjóðfélagsumræðuna um gróðurfar landsins til þess horfs sem er við hæfi menntaðrar þjóðar.


Fylgiskjal I.


Sigurður Þórarinsson:


Sambúð lands og lýðs í ellefu aldir.


(Grein úr Sögu Íslands I, 1974.)



    Það má líta á lengd ístíma við Ísland sem eins konar mæli á lofthita hérlendis, að vísu ekki nákvæman, auk þess sem honum eru þau takmörk sett, að hann mælir ekki hækkun hitans, eftir að ísinn hættir algjörlega að koma upp að landinu. Með því að hafa einnig hliðsjón af harðærum og samhengi þeirra við hitafar og ístíma hefur Páll teiknað línuritið á bls. 37. Kemur það nokkuð heim við hitafarsbreytingar á Grænlandi. Samkvæmt því hefur meðalhiti 30 ára tímabils orðið hæstur framan af 12. öld, en færa má nokkur rök fyrir því, að hann hafi orðið a.m.k. jafnhár á heitasta 30 ára tímabilinu milli 1920 og 1960. Hinu einfaldaða línuriti á bls. 37 er ætlað að sýna aðalganginn í hitafarsbreytingunum frá upphafi byggðar. Er það byggt að miklu leyti á útreikningum Páls og að nokkru á eigin könnun. Samkvæmt því hefur meðalhiti frá því um 900 og fram yfir miðbik 12. aldar verið nokkru hærri en á tímabilinu 1901 30, en eitthvað lægri en á tímabilinu 1931 60. Á síðustu áratugum 12. aldar lækkaði hitinn mjög og verður lægstur á tímabilinu 1250 1350, en þó ekki alveg eins lágur og á 18. og 19. öld. Árferði er að líkindum eitthvað skárra undir lok 14. aldar og á 15. öld. Um veðurfar 1430 1500 er annars mjög lítið vitað, svo sem áður getur. Síðari tíma annálar nefna mikil ísár 1470 og 1479 og af lýsingu á hafís í Íslandslýsingu Odds Einarssonar frá því um 1590 má ráða að á áratugunum upp úr miðri 16. öld hafi árferði ekki verið mjög ólíkt því sem var á tímabilinu 1901 1930. En með síðustu áratugum 16. aldar tekur að síga á ógæfuhlið um árferði. Hitafar er í lágmarki á 18. og 19. öld, og verður hvað lægst um miðbik þeirrar 18. og aftur milli 1860 og 1890. Upp úr því fer að hlýna, þó ekki að ráði fyrr en um 1920, og tímabilið 1920 1960 er svipað um hitafar og hlýjustu tímabil svipaðrar lengdar á 10. og 11. öld.


    













                     Einfaldað línurit af hitafarsbreytingum frá upphafi Íslandsbyggðar.
                    Lárétta línan er nærri 1901 1930.
                        Sigurður Þórarinsson 1969.


    Hitafarssveiflur milli áratuga eru ef til vill minni en margur mundi ætla út frá áhrifum þeirra. Tíu ára tímabil 1878 1887 mun eitt hið kaldasta er sögur fara af, og hið kaldasta er beinar mælingar ná yfir, en tíu árin hálfri öld síðar, 1928 1937, í tölu þeirra hlýjustu. Munur meðalárshitans á þessum tímabilum var 1,6°C í Stykkishólmi og 2,1°C í Berufirði.
    En um áhrifin hérlendis af breytingum árferðis og hitafars kemur það til að Ísland er tiltölulega nærri mörkum þess að vera byggilegt landbúnaðarþjóð og sama hitafarsbreyting því afdrifaríkari þar en í löndum sem hafa meira upp á að hlaupa um árferði. Sturla Friðriksson hefur reiknað út að heyfengur af hektara minnki um eitt tonn (10 hesta) við einnar gráðu lækkun á meðal árshita. Samtímis vex heyþörfin, þar eð sá tími lengist, sem búpeningur er á gjöf. Einnig hefur verið reiknað út, af Páli Bergþórssyni að loftslag á tímabilinu 1873 1922 hefði, miðað við árin 1931 60, skert nautgripaafurðir um 20%, afurðir sauðfjár um 30% og afurðir hrossa eitthvað svipað. Enda þótt slíkum útreikningum verði að taka með varúð, þar eð dæmin eru ekki svona einföld, veita þeir þó innsýn í áhrif loftslagsbreytinga hérlendis.


    Þau línurit, sem hér fylgja, varða breytingar á loftslaginu, afdrifaríkasta þættinum í umhverfi mannvistar, og áhrif þeirra breytinga.
    Efstu línuritin tvö sýna, nokkuð einfaldað, varanleika hafísa við Íslandsstrendur og hæð hjarnmarka á jöklum og eru bæði mælikvarði á breytingar loftslags, einkum hitafars.

Ístími, vikur árlega.


(Meðaltal á öld.)










Hæð hjarnmarka sunnan í

Vatnajökli.

(Í metrum.)













Fylgiskjal II.


Landmælingar Íslands:


Bréf Ágústs Guðmundssonar til Egils Jónssonar alþingismanns,


um gróðurkort af Íslandi.


(20. nóvember 1990.)



    Í bréfi yðar dags. 8. nóvember 1990 kemur fram ósk um upplýsingar varðandi gerð gróðurkorts af öllu landinu. Í bréfinu segir m.a.: „Hugmynd mín er að þetta verk byggist á nýjustu og fullkomnustu tækni í loftmyndagerð frá gervihnöttum og yrði því umfang þess og niðurstaða að ákvarðast af þeim möguleikum sem þessi tækni hefur yfir að ráða.“
    Áður en farið er út í nánari verklýsingu við gerð gróðurkortsins er rétt að gera örstutta grein fyrir þeirri tækni og þeim möguleikum sem að baki liggja.
    Notkun gervitunglamynda hefur vaxið mjög á síðustu tveimur áratugum, einkum á sviði veðurfræði, kortagerðar og ýmiss konar rannsókna á landi. Ný tækni við stafræna vinnslu gervitunglamynda hefur aukið verulega möguleika á rannsóknum á ýmsum sviðum. Sú þróun hefur orðið á síðustu árum að tæki og hugbúnaður til stafrænnar myndvinnslu hefur stöðugt verið að lækka í verði og verða aðgengilegri til notkunar. Notkunargildi myndanna hefur einnig aukist með tilkomu nýrra tækja í gervitunglunum sem skila skýrari myndum.
    Gögn frá hinum ýmsu gervitunglum eru mjög mismunandi eftir því til hvers á að nota þau. Veðurtunglamyndir sýna yfirleitt mjög stór svæði sem getur verið á kostnað þess hversu nákvæmlega þær sýna einstök fyrirbæri.
    Þær gervitunglamyndir, sem notaðar eru við kortagerð og rannsóknir á landi, sýna minni svæði, en á þeim má greina nákvæmar einstök fyrirbæri á jörðinni. Í gervitunglunum eru skannar sem nema stafrænt útgeislun frá jörðu á mismunandi bylgjusviðum rafsegulrófsins. Oftast er rafsegulrófinu skipt niður í afmörkuð bil, svonefnd bönd, og fer það eftir eðli og gerð skannans hve mörg böndin eru og hve nákvæmlega má greina einstök fyrirbæri á jörðu. Myndir á hverju bandi eru byggðar upp af litlum ferningum, svonefndum myndeiningum (pixels) sem hafa mismunandi tölugildi eftir styrk geislunarinnar sem skanninn nemur. Tölugildin segja til um mismunandi yfirborð lands, svo sem gróið og ógróið land, en þau koma síðan fram sem mismunandi grátónar á mynd. Með því að velja og setja saman ólík bönd í tölvu má fá fram litmyndir sem sýna mismunandi fyrirbæri á jörðinni í ólíkum litum eftir því hvernig þeim er blandað saman.
    Möguleikar á öflun stafrænna gervitunglagagna fyrir kortagerð af Íslandi eru aðallega frá tveimur gerðum gervitungla, Landsat og Spot.
    Bandarísku Landsat - gervitunglin eru nú orðin fimm að tölu. Landsat 5 hefur kerfisbundið tekið myndir af jörðinni í rúm sex ár og er mikið myndefni til af Íslandi, geymt í Kiruna í Svíþjóð. Landsat 5 er í 705 km hæð og fer yfir sama svæði á 16 daga fresti. Það svæði, sem hver mynd sýnir, er 185x185 km að stærð og til að þekja allt Ísland er hugsanlegt að komast af með 12 myndramma. Mjög sjaldgæft er að myndir séu algjörlega án skýja og myndir til kortlagningar gróðurs þarf að velja frá tiltölulega stuttum tíma seinni hluta sumars. Landmælingar Íslands hafa beint samband við dreifingarfyrirtæki Landsat í Evrópu sem gerir stofnuninni kleift að fylgjast með þeim gögnum sem til verða og afla þeirra.
    Myndir frá frönsku Spot - gervitunglunum hafa verið fáanlegar í rúm fjögur ár. Þær eru taldar henta vel til kortagerðar, m.a. vegna sérstakra eiginleika á því sviði, svo sem þrívíddarmyndatökur, en sá annmarki er á notkun þeirra við kortlagningu stærri svæða að hver mynd þekur aðeins 60x60 km svæði og þarf því níu slíkar til að þekja sama svæði og ein heil Landsat - mynd og kostnaður er þar af leiðandi mun meiri. Um reglulega myndatöku hefur ekki verið að ræða af Íslandi og ekki munu enn þá vera til slíkar myndir nema af hluta landsins. Því er sjálfgefið að verkefni það sem hér um ræðir verður að byggjast á Landsat - gögnum.
    Landmælingar Íslands hafa nýlega gefið út tvær gervitunglamyndir með skýringum í mælikvarða 1:100.000 þar sem notuð var Landsat 5 mynd frá 7. september 1986. Önnur myndin er litmynd sem byggir á þremur böndum á sýnilega sviði rafsegulrófsins, en hin myndin er innrauð litmynd í breyttum litum þar sem notuð voru tvö bönd af sýnilega sviðinu og eitt á nær innrauða sviði rafsegulrófsins, en það band er mjög næmt fyrir útgeislun gróðurs sem kemur fram í rauðum lit. Báðar útgáfurnar eru gerðar eftir sama segulbandinu á mismunandi hátt með stafrænni myndvinnslu sem fram fór erlendis. Með slíkri myndvinnslu má draga fram marga ólíka þætti myndanna eftir verkefnum hverju sinni.
    Vinnsluferill útgáfu sem þessarar er sá að fyrst er keypt segulband með þeim sjö böndum sem myndin er byggð upp af. Síðan hefst myndvinnslan í tölvu og eru gerðar mismunandi útfærslur sem valið er úr og taldar eru henta við verkefnið. Þær eru yfirfærðar á svarthvítar filmur sem hægt er að gera eftir litfilmur, annaðhvort til þess að gera stækkanir eða litgreiningu vegna prentunar. Þær myndir, sem gefnar voru út, komu sem litfilmur úr myndvinnslu erlendis, síðan fór fram teiknivinna og gerð skýringa hjá Landmælingum, en litgreining og prentun fór fram í prentsmiðju hér á landi. Hægt er að kaupa staðlaðar útgáfur gervitunglamynda á pappír eða filmu án þess að jafnframt sé keypt segulband með myndinni, en þá er ekki um að ræða neina möguleika á vinnslu mynda til að draga fram þau fyrirbæri sem leitað er eftir hverju sinni. Því eru segulböndin undirstaða til nákvæmrar greiningar myndanna.
    Hér fer á eftir áætlun um kostnað við gerð gróðurkorts af Íslandi í mælikvarða 1:500.000 eftir gervitunglamyndum og fjallað um helstu verkþætti.
    Verkinu má skipta í fjóra meginþætti:
     Val og kaup á skýjalausum gervitunglamyndum af landinu.
     Val og kaup á tölvubúnaði og úrvinnsla stafrænna gervitunglamynda.
     Túlkun gervitunglamynda, gagnasöfnun hér á landi og gerð handrits að gróðurkorti. (Hér þarf að koma til samstarf við þá aðila sem lögum samkvæmt eiga að annast upplýsingaöflun um gróðurfar landsins.)
     Kortateiknun, filmuvinna og útgáfa.
    Verk þetta mætti vinna á þrjá vegu miðað við áðurnefndar forsendur, nýjustu tækni og notkun nýrra gervitunglamynda.

Leið 1.
    Keyptar verði gervitunglamyndir á tölvuböndum og pappír af öllu landinu, tölvubúnaður og hugbúnaður til myndvinnslu. Síðan verði hér á landi gerð nákvæm túlkun og flokkun gróðurs með aðstoð tölvu, kortateiknun og prentun.
    Hér yrði til mikilvægt gagnasafn nýrra gervitunglamynda af öllu landinu á stafrænu formi og tæki og aðstaða fyrir vísindamenn og sérfræðinga á fjölmörgum sviðum náttúruvísinda og kortagerðar. Slíkur gagnabanki af öllu Íslandi mundi nýtast til samanburðar í framtíðinni og til allra annarra rannsókna sem nýtt geta gervitunglamyndir. Nota á tölvuböndin síðar til að gera nákvæmari kort af ákveðnum svæðum, sbr. „Gervitunglamyndir með skýringum“ (Mosfellsheiði) sem LMÍ gáfu út nýlega. Skráning gagna og landgreining geymist í tölvutæku formi ásamt gervitunglagögnunum.
    Kostnaður við verkið er eftirfarandi:
     Kaup á tölvuböndum og pappírsmyndum      4 .000.000 kr.
     Kaup á hugbúnaði og tölvu til myndvinnslu      4 .000.000 kr.
     Túlkun, gagnasöfnun og gerð handrits      9 .000.000 kr.
     Kortateiknun, filmuvinna og útgáfa      1 .800.000 kr.
                                  Samtals     
18
.800.000 kr.

Leið 2.
    Keypt yrðu tölvubönd og pappírsmyndir af öllu landinu, þær túlkaðar með hliðsjón af takmarkaðri tölvuvinnslu erlendis til samanburðar. Handrit yrði aðallega gert eftir pappírsmyndum og að lokum færi fram kortateiknun og útgáfa.
    Hér yrði um að ræða almenna greiningu mynda þar sem stuðst er við samanburðardæmi úr tölvuvinnslu erlendis en ekki yrðu sömu möguleikar á nákvæmri greiningu gróðurs og jarðvegs að ræða og samkvæmt Leið 1. Með þessari leið yrði til á stafrænu formi gagnabanki með gervitunglamyndum af öllu landinu sem nýtist til rannsókna, en sá annmarki verður á notkun tölvubandanna að leita þarf eftirúrvinnslu erlendis.
    Kostnaður við verkið er eftirfarandi:
     Kaup á tölvuböndum og pappírsmyndum      4 .000.000 kr.
     Túlkun, gagnasöfnun og gerð handrits      3 .600.000 kr.
     Tölvuvinnsla við prufumyndir erlendis      1 .000.000 kr.
     Kortateiknun, filmuvinna og útgáfa      1 .800.000 kr.
                                  Samtals     
10
.400.000 kr.

Leið 3.
    Keyptar verði eingöngu gervitunglamyndir á pappír af öllu landinu og þær túlkaðar án tölvuvinnslu. Handrit verði gert með mjög einfaldri skiptingu lands í gróið og ógróið land og kortateiknun og prentun verði með hefðbundnum hætti.
    Kostnaður við verkið yrði eftirfarandi:
     Kaup á pappírsmyndum      1 .500.000 kr.
     Túlkun, gagnasöfnun og gerð handrits      2 .700.000 kr.
     Kortateiknun, filmuvinna og útgáfa      1 .800.000 kr.
                                  Samtals     
6
.000.000 kr.

    Öll ofangreind verð eru án virðisaukaskatts.
    Framsetning gróðurkortsins yrði grafísk hvaða leið af þremur ofantöldum sem valin yrði, svipuð jarðfræðikorti því sem LMÍ gáfu út fyrir u.þ.b. ári síðan í samvinnu við Náttúrufræðistofnun. Nákvæmni kortsins fer eftir því hver ofantalinna leiða er valin og má segja að gæðin séu í hlutfalli við kostnaðinn. Við frágang og filmuvinnu yrði notaður sami grunnur af landinu (í mælikvarða 1:500.000) og notaður er við gerð jarðfræðikortsins.
    Við vinnsluna þarf að styðjast við ýmis gögn sem til eru í landinu, þar með talið loftmyndir og gróðurkort. Við túlkun gervitunglamyndanna og gerð handrits kortsins þurfa að koma til sérfræðingar á sviði gróðurs og jarðvegs. Frá þeim tíma að ákvörðun er tekin um framkvæmd verksins má gera ráð fyrir a.m.k. tveggja ára framkvæmdartíma.
    Það er mitt mat að ef horft er til nútíðar og framtíðar þá sé Leið 1 ódýrust og gefi nákvæmustu upplýsingar af ofantöldum þremur leiðum. Með henni færist notkunarmöguleiki þessarar nýju gervitunglatækni inn í landið og fullkominn gagnabanki fæst af yfirborði þess. Það mun skapa rannsókna - og vísindamönnum nýjan grunn til að meta ástand og þróun gróðurs, jarðvegs, jökla og fleiri þátta í náttúru Íslands.

Bréf Egils Jónsssonar til Ágústs Guðmundssonar,


forstjóra Landmælinga Íslands.


(8. nóvember 1990.)



    Ég hefi ákveðið að flytja Alþingi tillögu um að gert verði gróðurkort af Íslandi. Fyrirmyndina sæki ég til jarðfræðikortsins sem þið lukuð við í fyrravetur.
    Hugmynd mín er að þetta verk byggist á nýjustu og fullkomnustu tækni í loftmyndagerð frá gervihnöttum og yrði því umfang þess og niðurstaða að ákvarðast af þeim möguleikum sem þessi tækni hefur yfir að ráða.
    Þau markmið sem ég hefi sérstaklega í huga eru:
     Flokkun landsins í fjóra aðalflokka, gróið land, ógróið land sem hægt er að græða, það land sem er að eyðast og auðnir.
     Æskilegt er að skipta grónu landi í flokka eftir gróðri og jarðvegi að því marki sem unnt er.
    Mikilvægt er að fyrir liggi hvað ætla má að þetta verk taki langan tíma og að áætlaður sé kostnaður við framkvæmd þess.


Fylgiskjal III.

Þingsályktun um landgræðslu.


(Samþykkt á Alþingi 19. mars 1990.)



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um aðgerðir til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs á Íslandi þar sem þess er kostur.
    Sérstök áhersla verði lögð á að afmarka þau landsvæði þar sem sandfok á sér enn stað svo að unnt sé að hefja þar skipulagt ræktunarstarf.
    Kannað verði hvort Áburðarverksmiðju ríkisins muni fært að lækka verð á áburði til landgræðslustarfa sem einkum væri ráðstafað til brýnna verkefna.
    Miðað verði við að um næstu aldamót verði uppblástur þessara svæða stöðvaður.