Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 201 . mál.


Sþ.

254. Tillaga til þingsályktunar



um fjárveitingar til fræðsluskrifstofa.

Flm.: Málmfríður Sigurðardóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Sigrún Jónsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til menntamálaráðherra að því fjármagni, sem veitt er á fjárlögum hverju sinni til grunnskóla í fræðsluumdæmum landsins, verði ráðstafað beint til fræðsluskrifstofa hvers umdæmis um sig sem síðan sjá um að útdeila og ábyrgjast fjárveitinguna hver í sínu umdæmi.

Greinargerð.


    Um allmörg undanfarin ár hefur miðstýring samfélags okkar farið sívaxandi og það í þeim mæli að margir hafa áhyggjur af. Sú krafa verður nú æ háværari að stefna beri að því að færa völd, verkefni og ábyrgð til sveitarstjórna og landshluta enn frekar en orðið er. Sú skipan mála tryggi betur lýðræðislega stjórnun og efli sveitarfélögin. Betra sé öllum landslýð að ákvarðanir séu teknar sem næst fólkinu sjálfu af þeim sem best þekkja til staðhátta, þarfa og innri mála á hverjum stað.
    Sama máli gegnir með ýmsar ríkisstofnanir. Sú skoðun vinnur nú æ meira fylgi að rétt sé að ríkisstofnanir séu fluttar af höfuðborgarsvæðinu út um land eða a.m.k. deildir eða útibú frá þeim. Stjórnvöld hafa sýnt vilja sinn í þessum efnum, sbr. Skógrækt ríkisins, sem flutt hefur verið að Hallormsstað, og útibú Byggðastofnunar og Húsnæðisstofnunar.
    Það er mat margra, enda vaxandi krafa, að það fé, sem stofnunum er ætlað á fjárlögum hvers árs, eigi ekki að vera niður neglt til hvers einstaks verkefnis innan þeirra heldur sé stjórnendum falin ráðstöfun fjárins og treyst til að gera það á þann hátt sem öllum kemur best. Þetta skref hefur þegar verið stigið varðandi Háskóla Íslands og virðist eðlilegt að halda áfram á þeirri braut hvað varðar menntastofnanir.
    Núverandi ríkisstjórn hefur lýst vilja sínum til þess að færa verkefni, völd og ábyrgð út um landið og þegar hafið það starf, þótt hægt fari. Efling þeirrar opinberu þjónustu sem fyrir er á hverju svæði, ásamt auknu forræði, er mikið nauðsynjamál í augum landsbyggðarbúa. Sjálfstæði fræðsluskrifstofanna er þar ofarlega á blaði enda er starfsemi þeirra nátengd hverju einasta sveitarfélagi í landinu. Starfsfólk fræðsluskrifstofanna gjörþekkir starfsemi hvers einasta grunnskóla og er í nánum tengslum við þá. Því má ætla að þar sé fyrir hendi sú þekking sem á þarf að halda við útdeilingu fjár til rekstrar og uppbyggingar skólastarfsins á hverjum stað og til þeirra sérþarfa og verkefna sem kunna að vera fyrir hendi á mismunandi stöðum. Þetta verk verði unnið í samvinnu við fræðsluráð og skólanefndir.
    Samþykkt þessarar tillögu væri mikilsverður þáttur í eflingu starfsemi í héruðum og í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnarinnar en þar stendur í kafla um byggðamál:
    „Gerðar verða ráðstafanir til aukinnar valddreifingar, meðal annars með því að auðvelda flutning stofnana og svæðisbundinna verkefna frá miðstjórn ríkisvaldsins út í héruð.“