Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 208 . mál.


Nd.

261. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.

Flm.: Friðjón Þórðarson.



1. gr.


     Í stað orðsins „Grundarfjarðarprestakall“ í 4. tölul. VII. í 1. gr. laganna komi: Setbergsprestakall.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hinn 1. júlí 1990 gengu í gildi ný lög um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Frumvarpið var samþykkt á síðasta degi 112. löggjafarþings, 5. maí 1990. Það er vitað að jafnan eru miklar annir á lokadegi þings. Má því vera að einstök mál séu ekki athuguð svo gaumgæfilega sem vera þyrfti í öllum greinum.
    Samkvæmt hinum nýju lögum er nafni Setbergsprestakalls í Eyrarsveit á Snæfellsnesi breytt í Grundarfjarðarprestakall. Þessu vilja heimamenn ekki una og skilja ekki í hvaða tilgangi þessi nafnbreyting hefur verið gerð.
    Fylgiskjal með frumvarpi þessu er bréf, dags. 1. desember 1990, undirritað af sóknarnefndarformanni og sóknarpresti. Þar er komin fram sú ósk að lögunum frá 5. maí sl. verði breytt í hið fyrra horf þannig að nafn Setbergsprestakalls standi óbreytt, svo sem verið hefur um aldaraðir.


Fylgiskjal.

Grundarfirði, 1. desember 1990.


Hr. alþingismaður
Friðjón Þórðarson
Alþingishúsinu við Kirkjustræti,
101 Reykjavík.

    Þann 5. maí síðastliðinn voru samþykkt á Alþingi lög um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Lögin tóku gildi 1. júlí sl.
    Í 1. grein laganna kemur í ljós að nafni Setbergsprestakalls hefur verið breytt í Grundarfjarðarprestakall. Þessi nafnabreyting kemur nokkuð flatt upp á sóknarnefnd Setbergssóknar sem er eina sókn prestakallsins, og telur hún að heimamenn hafi ekki verið hafðir með í ráðum þegar breyting þessi var gerð. Mikil óánægja er í sóknarnefndinni og einnig meðal sóknarmanna með þessa breytingu og er vandséð í hvaða tilgangi hún var gerð.
    Vitað er að til stóð að breyta nöfnum nokkurra annarra prestakalla en frá því mun hafa verið horfið vegna eindreginna mótmæla heimamanna. Má í þessu sambandi nefna Breiðabólsstaðarprestakall sem átti að heita Hvammstangaprestakall, Hjarðarholtsprestakall sem átti að nefnast Búðardalsprestakall, Hvammsprestakall sem heita átti Hvolsprestakall og þannig mætti nefna fleiri prestaköll.
    Við undirrituð förum þess á leit við yður, hr. alþingismaður, að þér hlutist til um að gerð verði breyting á nefndum lögum þannig að nafn Setbergsprestakalls standi óbreytt frá því sem það var fyrir gildistöku laganna eins og það hefur verið um aldaraðir.

Með vinsemd og virðingu,



Salbjörg Nóadóttir


sóknarnefndarformaður.

Sigurður Kr. Sigurðsson


sóknarprestur.