Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 157 . mál.


Sþ.

301. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um verkefni, skipulag og rekstur Póst - og símamálastofnunar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið tekin ákvörðun um eða er á döfinni að breyta lögum þannig að prófun og viðurkenning notendabúnaðar á sviði síma - og fjarskiptatækja verði færð til óskylds, sjálfstæðs aðila?
     Hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um eða stendur til að afnema úr lögum skyldu stofnunarinnar til þess að selja notendabúnað, svo og um að hún hætti slíkri starfsemi?
     Hver eru viðbrögð yfirmanna stofnunarinnar og samgönguráðherra við gagnrýni og tillögum Ríkisendurskoðunar varðandi skipulag og rekstur Póst - og símamálastofnunar?
     Má búast við því að farið verði eftir tillögum Ríkisendurskoðunar um skilmerkilega aðgreiningu á stofn - og rekstrarliðum stofnunarinnar?

    1. Ákvörðun hefur ekki verið tekin um að breyta lögum um fjarskipti á þann hátt að prófun og viðurkenning notendabúnaðar á sviði síma - og annarra fjarskiptatækja verði alfarið færð til óskylds, sjálfstæðs aðila. Póst - og símamálastofnun hefur mælt með því að prófanir og annað eftirlit fari frá stofnuninni og er það til athugunar í ráðuneytinu, m.a. með tilliti til fjarskiptalaga.
    Ráðuneytið hefur hins vegar ákveðið að setja ákvæði í reglugerð um skipulag og verkefni Póst - og símamálastofnunar sem unnið er að í ráðuneytinu og verður birt innan tíðar að þessi verkefni heyri til sjálfstæðrar deildar sem verði undir stjórn póst - og símamálastjóra og samgönguráðuneytisins. Með þessu fyrirkomulagi er stigið fyrsta skrefið í þá átt að flytja frá stofnuninni allar prófanir og viðurkenningar á notendabúnaði, úthlutun tíðna, veitingu rekstrarleyfa og annað eftirlit með því að reglum og stöðlum sé fullnægt.
    Til frekari upplýsingar er rétt að geta þess að símastjórnir í Vestur - Evrópu, þar á meðal íslenska símastjórnin, hafa haft frumkvæði að því að setja á stofn sjálfstæða staðalstofnun, ETSI, sem mun annast gerð staðla á sviði fjarskipta, þar með talið um notendabúnað. Stefnt er að því að staðlarnir verði teknir upp í öllum löndum Vestur - Evrópu og ef til vill víðar. Með þessu skapast möguleikar á því að einfalda mjög prófun búnaðar að því leyti að hún þarf ekki að eiga sér stað nema í einu landi. Í þessu sambandi verða gerðar miklar kröfur um vinnubrögð á prófstofum hvort sem þær eru í einkaeign eða starfræktar af hinu opinbera.
    2. Hvorki samgönguráðherra né ríkisstjórn hafa tekið ákvörðun um að afnema skyldu Póst - og símamálastofnunar til þess að selja notendabúnað. Er sú stefna í samræmi við samþykktir Evrópubandalagsins um skipan fjarskiptamála í Evrópu sem til umræðu eru við EFTA-ríkin í tengslum við sameiginlegt Evrópskt efnahagssvæði, en í þeim er gert ráð fyrir að símastjórnirnar taki þátt í samkeppni með sölu notendabúnaðar og fjarskiptaþjónustu.
    Í reglugerð, sem nefnd er hér að framan um breytingar á skipulagi stofnunarinnar, er gert ráð fyrir að þessi þáttur í starfsemi hennar verði betur aðgreindur frá öðrum verkefnum hennar en nú er.
    3. Eins og þegar hefur komið fram er á vegum ráðuneytisins unnið að reglugerð um skipulag og verkefni Póst - og símamálastofnunar. Þetta verk var hafið að hluta til á árunum 1986 og 1987 að frumkvæði Matthíasar Bjarnasonar samgönguráðherra, en hann fól Ólafi Tómassyni, póst - og símamálastjóra, og Halldóri S. Kristjánssyni, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, að vinna það verk. Óskað var tillagna um breytingar á skipulagi stofnunarinnar sem umræddir aðilar töldu æskilegt að gera. Að frumkvæði þeirra lagði samgönguráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um stjórn og starfrækslu póst - og símamála og með samþykkt þess, sbr. lög nr. 34/1987, voru ákvæði um verkefni og skipulag einstakra deilda felld úr lögum.
    Tillögur um breytingar á reglugerð voru kynntar ráðherra á vordögum 1987, en hann ákvað að láta eftirmanni sínum í ráðherrastóli eftir að taka ákvörðun um setningu reglugerðarinnar.
    Fyrrverandi samgönguráðherra, Matthías Á. Mathiesen, skipaði nefnd undir forustu Árna Vilhjálmssonar prófessors, með bréfi dags. 15. júlí 1988, til að hafa umsjón með sérstakri athugun sem gerð yrði á stjórnun og rekstri Póst - og símamálastofnunar, þar sem tekið yrði mið af þeim breytingum, tæknilegum og rekstrarlegum, sem orðið hafa og fyrirsjáanlegar eru í fjarskiptaþjónustunni. Ákveðið var að bíða með setningu reglugerðar þar til tillögur þessarar nefndar lægju fyrir.
    Í júní 1989 skilaði nefndin skýrslu um athugun á stjórnun og rekstri Póst - og símamálastofnunarinnar. Ráðuneytið hófst aftur handa við þá vinnu að reglugerð um skipulag og verkefni stofnunarinnar sem frá var horfið þegar þessi nefnd var skipuð og hafði nú hliðsjón af starfi hennar og niðurstöðum í samráði við Póst - og símamálastofnun.
    Ráðuneytið var langt komið með tillögur að reglugerð þegar Ríkisendurskoðun skilaði frá sér skýrslum um stjórnsýsluendurskoðun á stjórnunarsviðum stofnunarinnar í maí 1990. Var þá talið rétt að staldra við og taka til skoðunar þær tillögur sem þar eru fram settar. Má segja að viðbrögð ráðuneytis og stofnunar séu almennt jákvæð varðandi tillögur Ríkisendurskoðunar þótt ekki sé talið fært að taka að fullu tillit til þeirra við setningu reglugerðarinnar. Ein megintillaga Ríkisendurskoðunar er að stofnað verði sérstakt póstmálasvið, en viðskiptadeild verði lögð niður. Þessi tillaga kemur fyrst fram í drögum að reglugerð sem lögð var fyrir ráðherra 1987 og aftur sem ein af tillögum nefndar frá árinu 1988 sem fyrr er getið.
    Ríkisendurskoðun leggur jafnframt til að umsýsludeild verði lögð niður og verkefni hennar færð til fjármálasviðs þannig að stjórnunardeildum/sviðum verði fækkað í þrjár/þrjú. Í þeim tillögum, sem nú liggja fyrir í ráðuneytinu, er ekki gengið svo langt, heldur byggt á tillögum nefndarinnar um skiptingu stjórnunarhluta í fjögur svið, fjármála-, fjarskipta - , póstmála - og umsýslusvið.
    Varðandi rekstrarhlutann er í tillögum þeim að reglugerð, sem nú eru til athugunar hjá ráðherra, er lagt til að umdæmi I verði skipt í þrjú umdæmi. Fellur sú breyting að tillögum Ríkisendurskoðunar. Þessi breyting hefur verið til athugunar í ráðuneytinu allt frá árinu 1987.
    Ríkisendurskoðun leggur til að aðalendurskoðun stofnunarinnar, sem nú heyrir undir fjármáladeild, verði sett beint undir póst - og símamálastjóra. Ráðuneytið mun taka þessa ábendingu til athugunar.
    Að lokum vill ráðuneytið vekja athygli á eftirfarandi umsögn Ríkisendurskoðunar sem fram kemur í inngangi skýrslu hennar um stjórnsýsluendurskoðun á stjórnunarsviðum Póst - og símamálastofnunarinnar:
    „Þess ber að geta að Póst - og símamálastofnunin hefur tekið athugasemdum Ríkisendurskoðunar vel og lagfært margt sem betur mátti fara. Því er í lokaskýrslu þessari m.a. að finna athugasemdir sem Póst - og símamálastofnunin hefur þegar fært til betri vegar. Þess ber og að geta að margt er með miklum ágætum í rekstri stofnunarinnar þótt í lokaskýrslu þessari sé einungis að finna athugasemdir er varða reksturinn.“
    4. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um annað en að Póst - og símamálastofnunin aðgreini í bókhaldi sínu á skilmerkilegan hátt stofnkostnaðar - og rekstrarliði stofnunarinnar.
    Að því er stefnt að tveir aðalþjónustuþættir stofnunarinnar, póstþátturinn og símaþátturinn, standi undir sér og var síðasta gjaldskrárbreyting liður í þeirri stefnumörkun.