Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 226 . mál.


Nd.

308. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 52/1985.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.


     Við 18. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
    Ef í lagafrumvarpi er gert ráð fyrir útgjöldum úr ríkissjóði má ekki taka það til meðferðar nema einnig sé í frumvarpinu ákvæði um samsvarandi tekjur fyrir ríkissjóð.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Stærsta verkefni Alþingis er að setja fjárlög á hverju ári. Gerð þeirra er tímafrek vinna fyrir nefndarmenn í fjárveitinganefnd og starfsfólk Alþingis, ráðuneyta og ýmissa ríkisstofnana.
    Það hlýtur að vera markmið Alþingis að hafa fjárlög hvers árs í jafnvægi. Gjöld og tekjur standist á og ríkissjóður skili helst afgangi til að mæta hugsanlegum áföllum. Þess vegna verða tekjur hvarvetna að mæta gjöldum í fjárlögum því að annars myndast halli og svokallað fjárlagagat.
    Þess vegna á þingmönnum ekki að vera heimilt að ávísa á ríkissjóð nema sýna fram á raunhæfar tekjur í staðinn og rökstyðja þær. Annars má búast við að hallinn aukist ár frá ári uns hann vex ríkissjóði yfir höfuð.
    Í mörgum nágrannaþingum okkar eru víða ríkar hefðir fyrir því að þingmenn geri ekki útgjaldatillögur nema jafnframt sé séð fyrir tekjum á móti.
    Á Alþingi Íslendinga virðist hins vegar ríkja sama hefð með öfugum formerkjum. Hér er stöðugt ávísað á ríkissjóð án þess að gera grein fyrir hvar fjárins skal afla.
    Nái þetta frumvarp fram að ganga mun öll fjárlagagerð á Íslandi verða bæði ábyrg og raunhæf. Tími fjárlagahalla er þá væntanlega allur og eftirsóttur jöfnuður ríkir framvegis í þjóðfélaginu.