Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 231 . mál.


Nd.

332. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 87/1985, um sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


    2. mgr. 5. gr. laganna orðist svo:
     Stofnendur og sparisjóðsaðilar geta verið fjárráða ríkisborgarar búsettir hér á landi, sveitarfélög, héraðsnefndir, starfandi sparisjóðir og samvinnufélög.

2. gr.


     Í ákvæði til bráðabirgða bætist við nýtt ákvæði IV sem hljóði svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga þessara er samvinnufélögum, sem reka innlánsdeildir við gildistöku laga þessara, heimilt að leggja fram sem stofnfé í sparisjóði, varasjóði, ábyrgðir og aðrar eignir ásamt ábyrgð félagsmanna. Um endurmat þess stofnfjár sem þannig er lagt fram fer eftir ákvæði I til bráðabirgða í lögum þessum eftir því sem við getur átt.

3. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um samvinnufélög, en tilgangur þess er að gefa samvinnufélögum heimild til þess að stofna sparisjóði í stað þess að reka innlánsdeildir eins og nú er heimilt, en gert er ráð fyrir í fyrrgreindu frumvarpi að sú heimild falli brott.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að breytt verði núgildandi ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 87/1985 á þann veg að stofnaðilar að sparisjóðum geti einnig verið samvinnufélög. Jafnframt er tækifærið notað til þess að samræma orðalag greinarinnar núgildandi sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, en samkvæmt þeim hafa sýslunefndir nú verið lagðar niður, en héraðsnefndir komið í þeirra stað.

Um 2. gr.


     Samkvæmt núgildandi lögum nr. 46/1937, um samvinnufélög, sbr. lög nr. 47/1977, er samvinnufélögum heimilt að stofna og starfrækja innlánsdeildir sem taka við innlánum frá félagsmönnum og ávaxta þau í rekstri sínum. Til tryggingar fyrir því fé, sem lagt er í innlánsdeild, er varasjóður félagsins og aðrar eignir þess ásamt ábyrgð félagsmanna. Í þessu ákvæði er lagt til að heimilt verði að leggja sömu eignir fram sem stofnfé sparisjóðs sem stofnaður er á grundvelli laga þessara. Í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum um sparisjóði, nr. 87/1985, er að finna reglur sem settar voru við gildistöku laganna varðandi endurmat á stofnfé sparisjóða. Lagt er til að stuðst verði við ákvæði greinarinnar eftir því sem við getur átt ef heimild til þess að leggja fram stofnfé innlánsdeilda verður notuð við stofnun sparisjóðs á vegum samvinnufélags sem við gildistöku laganna rekur innlánsdeild.

Um 3. gr.


     Lagt er til að gildistaka laganna verði samtímis og gildistaka nýrra laga um samvinnufélög.