Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 241 . mál.


Nd.

352. Frumvarp til laga



um Útflutningsráð Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


    Útflutningsráð Íslands hefur það hlutverk að koma á auknu samstarfi fyrirtækja, samtaka og stjórnvalda í málum er lúta að eflingu útflutnings og veita útflytjendum alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir og auka útflutning á vöru og þjónustu. Enn fremur skal Útflutningsráð vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum sem varða utanríkisviðskipti Íslendinga.

2. gr.


     Heimili og varnarþing Útflutningsráðs skal vera í Reykjavík.


3. gr.


     Tekjur Útflutningsráðs eru:
     0,05% af aðstöðugjaldsstofni fiskveiða, fiskvinnslu, iðnaðar og byggingarstarfsemi,
     0,01% af aðstöðugjaldsstofni veitinga - og hótelrekstrar, flutninga á sjó, þó ekki strandflutninga, og flugrekstrar,
     framlag ríkissjóðs,
     þóknun fyrir veitta þjónustu,
     sérstök framlög og aðrar tekjur.
     Um álagningu gjalds skv. a - og b - liðum skal fara eftir IV. kafla laga nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Innheimtuaðilar aðstöðugjalda skulu innheimta gjald þetta og ber þeim að skila því mánaðarlega til Útflutningsráðs Íslands. Gjaldið er lögtakskræft.

4. gr.


     Útflutningsráð skal opið öllum aðilum sem flytja út vörur og þjónustu eða afla gjaldeyris á annan hátt, svo og samtökum atvinnugreina. Allir þeir aðilar, sem greiða til ráðsins skv. 3. gr. þessara laga, verða sjálfkrafa félagar. Af hálfu stjórnvalda eiga aðild að Útflutningsráði utanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.

5. gr.


     Stjórn Útflutningsráðs skipa tíu menn sem valdir eru til tveggja ára í senn. Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi tilnefna þrjá menn og Félag íslenskra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna tilnefna sameiginlega þrjá menn, Ferðamálaráð tilnefnir einn mann, Verslunarráð Íslands tilnefnir einn mann og utanríkisráðherra og samgönguráðherra tilnefna einn mann hvor. Sömu aðilar skulu einnig tilnefna varamenn, þó þannig að iðnaðarráðherra tilnefni varamann fyrir þann fulltrúa sem samgönguráðherra tilnefnir og sjávarútvegsráðherra fyrir þann fulltrúa sem utanríkisráðherra tilnefnir. Utanríkisráðherra skipar stjórnina samkvæmt tilnefningu ofangreindra aðila.
     Stjórnin kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin skipuleggur og ákveður verkefni Útflutningsráðs.

6. gr.


     Útflutningsráð skal starfrækja skrifstofu sem annast öll dagleg störf og þau verkefni er stjórnin tekur ákvörðun um. Skrifstofan skal hafa sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Hún skal undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarfélaga. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og ákveður laun og önnur starfskjör hans. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Stjórnin ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu skrifstofunnar. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra útflytjenda.

7. gr.


     Útflutningsráði skal heimilt að ráða viðskiptafulltrúa sem starfa á skrifstofum Útflutningsráðs erlendis eða í sendiráðum að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Um aðstöðu þeirra við sendiráð Íslands skal semja við utanríkisráðuneytið. Um skipan þeirra, stöðu og starfskjör setur stjórn ráðsins sérstakar reglur. Útflutningsráði er einnig heimilt að ráða eða styrkja menn til starfa erlendis í þágu þeirrar starfsemi sem ráðið sinnir.

8. gr.


     Utanríkisráðherra getur samkvæmt tillögum stjórnar Útflutningsráðs sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Útflutningsráðs í reglugerð.

9. gr.


     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 38/1986, um Útflutningsráð Íslands, og lög nr. 7/1988, um breytingu á þeim lögum.

10. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum um Útflutningsráð Íslands, sem samþykkt voru á Alþingi á árinu 1986, var gert ráð fyrir því að framlag sjávarútvegs til Útflutningsráðs yrði tekjur af útflutningsgjaldi samkvæmt lögum nr. 52/1983 og að framlag iðnaðar yrði tekjur af iðnlánasjóðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 55/1984. Um svipað leyti og Útflutningsráð tók til starfa var útflutningsgjald af sjávarafurðum lagt niður. Af þeim sökum var ákveðið að framlag sjávarútvegsins til Útflutningsráðs á árunum 1987 1989 yrði hluti af endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Um áramótin 1989/90 var söluskattur lagður niður en virðisaukaskattur tekinn upp í hans stað. Þessi tekjustofn féll því niður og er enn óljóst hvernig sjávarútvegurinn greiðir framlag sitt til Útflutningsráðs á árinu 1990. Það ber því brýna nauðsyn til að ákveðinn verði nýr tekjustofn til að tryggja framlag sjávarútvegsins til Útflutningsráðs.
    Frumvarp þetta byggir á tillögum nefndar sem utanríkisráðherra skipaði 11. maí sl. Í nefndina voru skipaðir: Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri, formaður, Benedikt Sveinsson framkvæmdastjóri, Bjarni Árnason framkvæmdastjóri, Friðrik Pálsson forstjóri og Þórleifur Jónsson framkvæmdastjóri. Ingjaldur Hannibalsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, hefur starfað með nefndinni.
    Sú ein efnisbreyting er gerð frá tillögum nefndarinnar að gert er ráð fyrir 0,01% gjaldi af aðstöðugjaldsstofni veitinga - og hótelrekstrar, flutninga á sjó, þó ekki strandflutninga, og flugrekstrar.
    Á árinu 1990 eru framlög iðnaðar og sjávarútvegs til Útflutningsráðs Íslands 60 millj. kr., en félagsgjöld 5,2 millj. kr. Framlög atvinnulífsins eru því samtals 65,2 millj. kr. á árinu 1990. Samkvæmt því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í 3. gr. þessa frumvarps, hefðu tekjur Útflutningsráðs orðið 70,6 millj. kr. á árinu 1990, þ.e. 68 millj. kr. frá iðnaði og sjávarútvegi, en 2,6 millj. kr. frá ferða - og flutningaþjónustu.
    Á árinu 1991 er gert ráð fyrir að tekjur Útflutningsráðs frá iðnaði og sjávarútvegi verði 75 millj. kr. og tekjur frá ferða - og flutningaþjónustu 2,9 millj. kr. verði frumvarp þetta að lögum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs verði 16,3 millj. kr. Sértekjur eru áætlaðar u.þ.b. 60 millj. kr., en þar á móti koma útgjöld vegna sýninga, kynninga, markaðsrannsókna o.s.frv.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.

Um 2. gr.


     Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 3. gr.


     Greinin fjallar um fjármögnun ráðsins sem í gildandi lögum er fjallað um í 6. gr. laganna. Við breytinguna falla niður tekjur af iðnlánasjóðsgjaldi en Útflutningsráð hefur aldrei fengið neinar tekjur af útflutningsgjaldi. Þar sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir gjaldi á öll þau fyrirtæki sem starfi í útflutningsgreinum er lagt til að árgjöld verði felld niður og að öll þau fyrirtæki, sem borga til ráðsins, verði sjálfkrafa aðilar. Nýmæli er að ráðið fái tekjur af veitinga - og hótelrekstri, flutningum á sjó og flugrekstri í öðru formi en með árgjöldum.

Um 4. gr.


     Greinin byggir á 3. gr. gildandi laga. Þar sem tillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir sjálfkrafa aðild fyrirtækja í gjaldeyrisskapandi greinum fellur niður 2. mgr. 3. gr. í gildandi lögum. Jafnframt þykir nefndinni ekki rétt að setja í lög að utanríkisráðherra boði til funda ráðsins og stýri þeim.

Um 5. gr.


     Með breyttri fjármögnun þykir rétt að breyta skipan ráðsins. Hér er lagt til að tíu menn skipi stjórnina en æskilegt er að sem flest sjónarmið komi fram í stjórninni, enda er henni fyrst og fremst ætlað að móta stefnu ráðsins.
    Þar sem fé til almennrar starfsemi kemur fyrst og fremst frá sjávarútvegi og iðnaði, svipuð fjárhæð frá hvorri grein, er lagt til að þessar greinar tilnefni hvor um sig þrjá menn í stjórn ráðsins. Einnig er lagt til að Verslunarráð Íslands skipi einn mann í stjórn en innan Verslunarráðs eru mörg fyrirtæki sem tengjast útflutningsstarfsemi bæði beint og óbeint.
    Til að tryggja samráð og samvinnu við Ferðamálaráð er hér lagt til að það tilnefni einn mann í stjórn Útflutningsráðs. Jafnframt væri æskilegt að Útflutningsráð ætti á sama hátt aðild að stjórn Ferðamálaráðs.
    Af hálfu stjórnvalda er lagt til að utanríkisráðuneyti og samgönguráðuneyti eigi aðild að stjórninni en sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðarráðuneyti tilnefni varamenn sem taki þátt í störfum ráðsins á svipaðan hátt og nú er.

Um 6. gr.


     Greinin er samhljóða 5. gr. í gildandi lögum að öðru leyti en því að í þeim er gert ráð fyrir að stjórn ráði framkvæmdastjóra og helstu starfsmenn en í tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir að stjórn ráði framkvæmdastjóra en hann ráði annað starfsfólk.

Um 7. gr.


     Greinin byggir á 7. gr. í gildandi lögum. Eina breytingin er sú að nefndin leggur til að 1. mgr. 7. gr. gildandi laga verði breytt og hún verði: „Útflutningsráði skal heimilt að ráða viðskiptafulltrúa sem starfa á skrifstofum Útflutningsráðs erlendis eða í sendiráðum að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið.“

Um 8. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 9. gr.


     Grein þessi þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.


     Nefndin leggur til að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 1991.