Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 242 . mál.


Sþ.

356. Tillaga til þingsályktunar



um björgunarþyrlu.

Flm.: Ingi Björn Albertsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.

Greinargerð.


    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu nauðsynleg öryggistæki þyrlur eru fyrir sjómenn. Má segja að þær séu nokkurs konar sjúkrabifreiðar sjómannsins.
    Stærri þyrla Landhelgisgæslunnar getur flogið um 150 sjómílur frá eldsneytisstað á haf út og bjargað sex mönnum. Hún hefur ekki afísingarbúnað frekar en aðrar sambærilegar þyrlur og ekki er hægt að setja slíkan búnað í hana. Þetta þýðir að þyrla, sem ekki er búin afísingarbúnaði, yrði að fljúga með ströndum fram um það bil 300 sjómílur á slysstað ef slys yrði á Hornströndum eða Húnaflóa að vetri til. Þyrla með afísingarbúnaði mundi hins vegar fara stystu leið frá Reykjavík sem er um það bil 90 sjómílur. Þyrlan, sem Landhelgisgæslan hefur núna, þyrfti að koma við á Ísafirði til eldsneytistöku og það tekur sinn tíma. Flugtími yrði því tvær klukkustundir og 40 mínútur. Væri vélin hins vegar búin afísingarbúnaði tæki flugið 42 mínútur.
    Ef slys yrði á svæðinu við Langanes gæti þyrla, sem ekki er með afísingarbúnaði, þurft að fljúga 410 sjómílur á slysstað. Það tæki þrjár klukkustundir og 35 mínútur, en þyrla með slíkum útbúnaði gæti flogið beint en það eru um það bil 230 sjómílur og tæki flugið um eina klukkustund og 50 mínútur.
    Íslenski skipaflotinn er þannig saman settur í stórum dráttum:
     Frystitogarar eru með 20 26 manna áhöfn og veiðisvæði þeirra allt að 120 sjómílur frá landi.
     Ísfisktogarar eru með 12 16 manna áhöfn og veiða allt að 120 sjómílur frá landi.
     Vertíðarbátar eru með 10 12 manna áhöfn og fara allt að 70 sjómílur frá landi.
     Loðnuskip eru með 13 15 manna áhöfn. Veiðisvæði þeirra er að sumarlagi allt að 300 sjómílur frá landi en að vetrarlagi allt að 120 sjómílur frá landi.
     Kaupskip eru með 6 16 manna áhöfn.
    Af þessari upptalningu sést að stærri þyrla Landhelgisgæslunnar ræður ekki við að bjarga heilum áhöfnum nema ef til vill af kaupskipi. Hún nýtist takmarkað til björgunaraðgerða vegna lítils flugþols og takmarkaðrar burðargetu.
    Það er því brýnt að þjóðin eignist sem fyrst björgunarþyrlu er sinnt geti sem allra best öryggismálum sjómanna. Það er jafnframt grundvallaratriði að þyrlan sé með afísingarbúnaði. Hún þarf að geta flogið um eða yfir 300 sjómílur frá eldsneytisstað á haf út. Enn fremur þarf hún að geta flutt allt að 20 manns miðað við þá fjarlægð.
    Það má ekkert spara þegar mannslíf eru í húfi. Í DV 19. október sl. er viðtal við tvo úr áhöfn björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar. Viðtalið hefst á eftirfarandi hátt:
    „Við erum búnir að vera á uppleið frá 1984 eftir að reksturinn var endurskipulagður og TF - Sif komst í gagnið. En þyrlan er nú farin að stoppa lengur vegna bilana og viðhalds. Útköllin eru orðin nærri 500 og að áliti lækna höfum við bjargað 74 mannslífum þar sem ekki var fræðilegur möguleiki á að önnur tæki hefðu getað komið til bjargar. Vegna aldurs þyrlunnar er kúrfan því farin að falla og nú þegar er brýnt að við fáum aðra þyrlu til viðbótar. Við óbreytt ástand getum við ekki haldið uppi sömu þjónustu og verið hefur. Við förum að standa á brauðfótum. Þyrlan hefur snúist um öryggi annarra nú er komið að öryggi okkar.“
    Afgreiðslutími fullnægjandi björgunarþyrlu er trúlega ekki skemmri en 18 mánuðir. Samþykkt þessarar tillögu ætti því ekki að raska fjárlögum ársins 1991 að neinu verulegu leyti.