Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 214 . mál.


Ed.

368. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lánsfjárlögum fyrir árið 1990, nr. 116/1989.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund fulltrúa Lánasjóðs íslenskra námsmanna, aðstoðarflugmálastjóra og fulltrúa Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Fyrsti minni hl. furðar sig á því óraunsæi sem komið hefur fram í áætlun um fjölda námsmanna en þar skakkar 500 nemendum sem síðan olli að mestu þeim halla sem hlaut að verða á Lánasjóðnum ef hann átti að standa við þær skuldbindingar sem lög kveða á um.
    Ekki gerir fyrsti minni hl. athugasemd við áætlun um að endurlána Alþjóðaflugþjónustunni það sem í lögum er áætlað.
    Í annan stað skal undirstrikað að furðu gegnir að í ljós skuli koma nú á haustdögum 1990 að ekki var gert ráð fyrir greiðslu 2 millj. kr. skammtímaskuldar við Seðlabankann sem ríkisstjórnin hefur ekki komist hjá að vita að greiða þurfti á vordögum 1990. Það að halli á fjárlögum skuli hafa aukist um 1,4 milljarða kr. síðari hluta ársins 1990 kemur ekki á óvart þrátt fyrir gum ríkisstjórnarinnar af stöðugleika í efnahagslífinu. Þó að auknar innlendar lántökur og minni erlendar séu hagstæðar vísa þær til þess samdráttar sem orðinn er í íslensku atvinnulífi og eru því að nokkru teikn um uggvænlega þróun.
    Fyrsti minni hl. mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið.

Alþingi, 19. des. 1990.



Guðrún J. Halldórsdóttir.