Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 100 . mál.


Nd.

384. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands.

Frá minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur rætt frumvarpið sem fjallar um undanþágur frá ákvæðum laga handa fiskiskipum frá Grænlandi og Færeyjum til að landa afla sínum hér á landi. Umsagna var ekki leitað og ekki var sóst eftir að fá umsagnaraðila á fund nefndarinnar. Hins vegar lágu fyrir nefndinni álit Landssambands íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands, Fiskifélags Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands frá því í janúar 1988, sem öll lögðust gegn samþykkt frumvarpsins, og frá Félagi íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem fagnaði framkomnu frumvarpi.
    Samkvæmt samkomulagi hafa grænlensk skip, sem stunda veiðar við Austur-Grænland, heimild til löndunar og allrar skipaþjónustu í íslenskum höfnum. Þetta er frávik frá ákvæðum laganna, en þar segir að erlendum fiskiskipum sé ekki heimilt að leita hafnar á Íslandi nema í neyð. Grænlendingar hafa nýtt sér þessa aðstöðu við rækjuveiðar á Dohrnbanka. Færeyingar, sem veitt hafa botnfisk hér við land samkvæmt sérstöku samkomulagi, hafa aldrei leitað eftir að fá að landa afla hér á landi.
    Í nýgerðum samningum milli Íslands, Grænlands og Noregs er skipum þessara þjóða, sem loðnuveiðar stunda, veittur löndunarréttur í hverju þessara landa. Var sérstaklega tiltekið að færeysk skip, sem veiddu loðnu í umboði Grænlendinga, fengju þennan rétt. Við gerð samnings um rétt Grænlendinga til löndunar hér á landi og um skiptingu loðnustofnsins milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen verður að telja að Færeyingum og Grænlendingum séu tryggðir þeir möguleikar til löndunar á Íslandi sem þeir þarfnast eins og staðan er nú. Það er því álit minni hl. að fram komið frumvarp sé tilefnislaust. Ef á að endurskoða þessi lög ætti að gera það í víðara samhengi og skiptir þá samningsstaða okkar við aðrar þjóðir verulegu máli.
    Það er því rétt að áliti minni hl. að láta breytingar á ákvæðum um löndunarrétt þessara þjóða bíða uns náðst hafa frekari samningar um gagnkvæma nýtingu sameiginlegra fiskstofna því að telja verður að löndunarréttindi muni skipta verulegu máli í viðræðum um nýtingu þessara stofna. Gæti það veikt samningsaðstöðu okkar ef við hefðum í raun einhliða afsalað okkur ákvörðunarrétti í þessu efni.
    Minni hl. leggur því til að frumvarpi þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 18. des. 1990.



Jón Sæmundur Sigurjónsson,


form.