Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 271 . mál.


Sþ.

500. Tillaga til þingsályktunar



um íslenska heilbrigðisáætlun.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



    Alþingi ályktar að stefna í heilbrigðismálum á Íslandi fram til ársins 2000 skuli verða í samræmi við heilbrigðisáætlun þessa sem hefur það að markmiði að bæta heilsufar þjóðarinnar.

Markmið 1

.
    Tilgangur heilbrigðisþjónustunnar er að skapa heilsufarslegt jafnrétti, að bæta árum við lífið, heilbrigði við lífið og lífi við árin.
    Til þess að svo megi verða þarf að tryggja að tekið sé fullt tillit til heilbrigðissjónarmiða í þjóðfélaginu eftir því sem við á. Ákvarðanir stjórnvalda verði ekki síður byggðar á vitneskju um heilsufarslegar afleiðingar ákvarðana en um efnahagsleg og menningarleg áhrif. Gefa þarf sérstakan gaum að þörfum þeirra sem verst eru settir og þjóðfélagshópa sem ekki njóta fyllsta jafnréttis til að öðlast heilbrigði eða njóta heilbrigðisþjónustu. Í þessu sambandi er rétt að nefna sérstaklega aldraða, þá sem þjást af langvinnum sjúkdómum sem valda verulegri fötlun og þá sem fatlaðir eru frá fæðingu.

Markmið 2

.
    Stefnt skal að því að saman fari í heilbrigðisþjónustu ábyrgð á fjármögnun og rekstri.
    Heimilt verði að gera samninga við félög og samtök um að annast afmarkaða rekstrarþætti í heilbrigðisþjónustu sé það hagkvæmt.

Markmið 3.


    Heilsugæslustöðvar skulu vera hornsteinar heilsugæslunnar hver á sínu starfssvæði í samvinnu við göngudeildir sjúkrahúsa og sérhæfðar stofnanir.
    Þjónusta heilsugæslustöðva skal ná til allra landsmanna árið 1995.
    Leitast skal við að auka samstarf heilsugæslunnar við aðra aðila, svo sem fræðsluyfirvöld, félagsmálastofnanir og íþróttahreyfinguna í því skyni að auka heilsuvernd og heilsurækt.

Markmið 4.


    Setja skal reglur um flokkun sjúkrastofnana, verkaskiptingu og starfssvið og gera þar skýran greinarmun á sérhæfðu sjúkrahúsi, almennu sjúkrahúsi og hjúkrunarheimili.
    Setja má reglur um þjónustusvæði einstakra sjúkrastofnana og um mönnun þeirra.

Markmið 5

.
    Koma skal á fót stofnun forvarna - og heilbrigðisfræðslu. Þessi stofnun skal hafa yfirumsjón með öllu forvarnastarfi, annast ráðgjöf um heilbrigða lífshætti, gerð fræðsluefnis og endurmenntun starfsliðs í heilsugæslu á því sviði. Til stofnunarinnar færast m.a. áfengisvarnir, manneldismál, smitsjúkdómavarnir, tannvernd, tóbaksvarnir, CINDI - verkefnið og önnur forvarnastarfsemi eftir því sem við verður komið.
    Til að stuðla að heilbrigðum lífsháttum skal lögð á það áhersla að starfslið heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa fái grundvallarmenntun og kennslu í heilbrigðisfræðslu og kennslu í heilsufræði til þess að geta miðlað þeim sem þangað leita.
    Leita skal samvinnu við skóla og félög um að þau taki þátt í átaki fyrir heilbrigðari lífsháttum fjölskyldna og einstaklinga.

Markmið 6.


    Manneldis - og neyslustefna verði í samræmi við þingsályktun frá 19. maí 1989 og þær upplýsingar sem neyslukannanir leiða í ljós.
    Enda þótt næringarástand þjóðarinnar sé talið gott þarf að tryggja að allir fái nægan mat og að í honum séu rétt hlutföll frá næringarfræðilegu sjónarmiði.
    Leggja skal áherslu á framleiðslu og framboð hollrar innlendrar fæðu.
    Ýta þarf undir neyslu kornmetis, fisks, fitulítils kjöts, kartaflna, ávaxta og grænmetis.
    Með fræðslu og verðstýringu skal stuðla að neyslu mjólkurvara með lágu fituinnihaldi. Á sama hátt skal stuðla að minni neyslu sætinda og matar með miklu af sykri og salti.
    Auðvelda þarf fæðuval með áberandi og vel skiljanlegum upplýsingum um vörur.

Markmið 7.


    Draga skal úr og helst útrýma neyslu tóbaks með því að fá fólk til að byrja ekki að reykja og þá sem reykja til að hætta. Til þess að ná þessu takmarki verður að auka bæði upplýsingar og áróður og taka til sérstakrar íhugunar tengsl milli reykinga og annarra lífshátta.
    Minnka verður verulega og helst útiloka að fólk sem ekki reykir þurfi að líða tóbaksreyk.
    Verð á tóbaksvörum skal hækka umfram almennar verðhækkanir.
    Útiloka skal áhrif innflytjenda á útsöluverð tóbaksvara.

Markmið 8.


    Almenna neyslu áfengis skal minnka og útrýma ofneyslu. Leggja skal sérstaka áherslu á upplýsingastarfsemi og hefja markvisst áróðursstríð gegn slæmum drykkjusiðum með auglýsingum, stuttum sjónvarpsþáttum, slagorðum o.fl.
    Minnka skal og eyða að lokum alveg óæskilegum heilsufarslegum áhrifum áfengisnotkunar. Auka skal rágjöf sem heilbrigðisþjónustan veitir og efla þarf starf að því að greina áfengisvanda á byrjunarstigi.
    Stofna þarf til samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda og félagasamtaka sem hafa bindindi á stefnuskrá sinni og reyna að efla starf þessara samtaka.
    Verð áfengra drykkja hækki árlega á næstu fimm árum umfram almennar verðhækkanir og sterkt áfengi meira en létt vín, en bjór hlutfallslega minnst.
    Gera skal áætlun til að ná þessum markmiðum og hún endurskoðuð á fimm ára fresti.

Markmið 9.


    Efla þarf aðstöðu almennings til íþróttaiðkana innan dyra og byggja í því skyni almenningsíþróttahús eða samnýta betur en nú er tiltæk íþróttamannvirki. Einnig þarf að gefa gaum að því að fólk fái tækifæri til að hreyfa sig utan dyra og setja upp sérstakar gangbrautir og hjólreiðabrautir í þéttbýli.
    Skipulagsmálum skal haga þannig að fólk, einkum hið eldra og þeir sem eru fatlaðir, geti notið umhverfisins með hreyfingu og þjálfun utan dyra.

Markmið 10.


    Með heilbrigðis - og umhverfiseftirliti skal að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð manna með því að fylgjast með andlegum, líffræðilegum, eðlisfræðilegum og efnafræðilegum áhættuþáttum í umhverfinu og draga úr áhrifum þeirra.
    Stýring þessara mála með sérstökum lögum og reglugerðum kann að vera nauðsynleg en megináhersla skal lögð á fræðslu og samvinnu, fremur en valdboð.
    Tryggja þarf fullnægjandi sérfræðiþekkingu starfsmanna við störf að heilbrigðis - og umhverfiseftirliti og verkefni þurfa að vera við hæfi. Þannig skal miðað við það að á hverju heilbrigðiseftirlitssvæði verði að jafnaði einn heilbrigðisfulltrúi á hverja 7.000 íbúa.

Markmið 11.


    Leggja skal áherslu á eftirlit og grunnrannsóknir varðandi heilnæmi neysluvatns, matvæla og annarra neysluvara.
    Þann árangur, sem náðst hefur í smitsjúkdómavörnum, skal bæta með því að auka almennar varnaðarráðstafanir með auknum ónæmisaðgerðum. Jafnóðum og ný og nothæf bóluefni verða til fyrir smitsjúkdóma skal skipuleggja ónæmisaðgerðir gegn þeim.
    Efla skal rannsóknir og eftirlit til að upplýsa orsakir matarsýkinga og matareitrana. Gera skal ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær.
    Hefja skal markvissar þjónusturannsóknir og eftirlit með efnisþáttum, aukefnum, eiturefnum og aðskotaefnum í neysluvörum.

Markmið 12.


    Til að bægja frá þeirri heilbrigðishættu sem stafar af eiturefnum og hættulegum efnum í nauðsynjavörum skal koma í veg fyrir að slíkum vörum verði dreift.
    Með viðeigandi ráðstöfunum skal einnig stefnt að því að nauðsynjavörur verði óskaðlegar með tilliti til annarra áhættuþátta, svo sem af völdum hönnunar, sem gæti leitt til meiðsla eða kvilla.

Markmið 13

.
    Leggja skal áherslu á það að sú geislun, sem fólk verður fyrir, sé í lágmarki.
    Notkun röntgentækja skal stillt í hóf og efla ber fræðslu um ekki jónandi geislun, t.d. við sólböð og notkun sólarlampa.
    Auka skal eftirlit með geislavirkni í matvælum og umhverfi. Við innflutningseftirlit skal þess gætt að geislavirkar neysluvörur komist ekki á markað.
    Áhersla skal lögð á að draga úr hávaða frá umferð og atvinnurekstri og áhrifum hans.
    Að því skal stefnt að við skipulag byggðar verði þess gætt að hávaði af völdum umferðar og hvers konar starfsemi valdi hvergi heilsutjóni né verulegu ónæði eða óþægindum.

Markmið 14.


    Koma skal í veg fyrir umhverfismengun eins og frekast er kostur.
    Fylgjast skal með sem flestum mengunarþáttum um allt land. Enn fremur skal reynt að meta þá mengun sem berst til landsins með vindum og hafstraumum.
    Áherslu skal leggja á að draga úr mengun af völdum brennslu eldsneytis í ökutækjum og í iðnaði og mengun vatna og sjávar af völdum fiskeldis.
    Frágangur skolpútrása skal stórlega bættur og að því verði stefnt að allt skolp frá þéttbýli verði grófhreinsað ef það er leitt til sjávar. Fullkomnari hreinsun verði beitt við aðrar aðstæður.
    Að því skal stefnt að við skipulag byggðar sé ávallt gert ráð fyrir fullnægjandi lausn frárennslismála.
    Þær aðferðir, sem notaðar eru við losun úrgangs, verði bættar og stefnt skal að því að endurvinna úrgang þar sem það er framkvæmanlegt.
    Loftmengun skal athuga sérstaklega og setja loftgæðastaðla. Loftræsting í almennum byggingum og á vinnustöðum skal athuguð sérstaklega. Þá skal herða eftirlit með og setja reglur um byggingarefni sem nota má til innréttinga á íbúðarhúsnæði og vinnuhúsnæði og þau efni sem notuð eru í húsgögn til þess að tryggja heilnæmi innilofts.

Markmið 15.


    Stefnt skal að fullnægjandi aðbúnaði á vinnustöðum til að fækka alvarlegum vinnuslysum um a.m.k. fjórðung fram til ársins 2000.
    Stefnt skal að því að gera áætlun um vinnuvernd og hrinda henni í framkvæmd þannig að brýnustu verkefni fái forgang.
    Gæta þarf bæði að geðrænum og líkamlegum heilbrigðisvandamálum sem tengd eru vinnu. Gera þarf heilsugæslustöðvar virkari á þessu sviði og auka tengsl heilsugæslustöðva við vinnustaði á starfssvæði þeirra.
    Leggja skal áherslu á að framfylgt sé reglum um hávaðavarnir á vinnustað og heyrnareftirlit starfsmanna.
    Stefnt skal að því að minnka verulega áhrif skaðlegra efna við vinnu.

Markmið 16.


    Stefnt skal að því að fækka vinnuslysum, umferðarslysum, slysum á sjó, á heimilum, í skóla, í íþróttum og öðrum frístundum. Stofna skal slysavarnaráð sem hefur yfirumsjón með og samræmir slysavarnir í landinu.
    Stefnt skal að því að draga úr slysum vegna áfengis - og vímuefnanotkunar.

Markmið 17.


    Í þróun heilbrigðisþjónustunnar skal sérstök áhersla lögð á heilsugæslu. Sérfræðiþjónustu skal haldið á því háa stigi sem hún er á nú.
    Markvisst skal dregið úr þeim mismun sem enn er á möguleikum fólks til heilbrigðisþjónustu eftir búsetu.
    Starfsliði í heilbrigðisþjónustu þarf að fjölga til að sinna nýjum og auknum verkefnum. Hér vega þungt aukin áhersla á forvarnir annars vegar og hins vegar sú staðreynd að Íslendingar sem þjóð eru að eldast.
    

Markmið 18.


    Stefnt skal að því að gera heilbrigðisþjónustuna persónulegri og þjálli en hún er nú. Einnig skal reynt að hafa meðferð samfellda þannig að sjúklingar geti ávallt leitað sama læknis þegar um langvarandi meðferð er að ræða.

Markmið 19.


    Ný áætlun skal gerð um nauðsynlega mönnun á hverri heilsugæslustöð. Áætlunin skal byggjast á skipulegri upplýsingaöflun um starfssvæði hverrar stöðvar (svæðisgreiningu) sem taki tillit til eftirtalinna þátta: íbúafjölda, aldursskiptingar, fjölda íbúa með langvinna sjúkdóma eða fötlun, fæðingafjölda, stærð skóla og stærð og eðli atvinnufyrirtækja. Aldrei skulu þó vera færri en einn heilsugæslulæknir og einn hjúkrunarfræðingur á hverja 1.000 íbúa eða brot úr þeirri tölu á heilsugæslustöðvum í dreifbýli. Í þéttbýli skulu vera a.m.k. einn læknir og einn hjúkrunarfræðingur á hverja 1.500 íbúa. Annað sérmenntað starfslið ákvarðist af aðstæðum á hverjum stað.
    Ákvarðanir um forvarnaaðgerðir í hverju heilsugæsluumdæmi skal byggja á upplýsingum um lífshætti, viðhorf til heilbrigðis, slysatíðni og ýmsa áhættuþætti heilsutjóns hjá íbúum viðkomandi svæði.

Markmið 20.


    Fyrir árið 1995 skal vera völ á sérfræðiþjónustu á öllum H2 - heilsugæslustöðvum. Skal þetta gert með skipulögðum ferðum sérfræðinga og ráðningu sérfræðinga eftir þörfum.

Markmið 21.


    Stefnt skal að því að endurhæfingarstarfsemi verði í hverju heilsugæsluumdæmi, annaðhvort við heilsugæslustöð eða sjúkrahús. Sérhæfð endurhæfingarstarfsemi skal vera í Reykjavík og nágrenni og á Akureyri.
    Endurhæfingarstarfsemi þarf að fela í sér fræðslu og fyrirbyggjandi þjálfun fyrir einstaklinga, sérstaka hópa og almenning auk endurhæfingar vegna afleiðinga sjúkdóma og slysa. Endurhæfing í forvarnaskyni skal sniðin við hæfi fólks á öllum aldri og veitt í heimahúsum, skólum og á vinnustöðum auk heilbrigðisstofnana.

Markmið 22.


    Sérstakt átak skal gera til þess að bæta tannheilsu þjóðarinnnar. Kannaðar skulu leiðir til þess að auka verulega varnir gegn tannskemmdum.
    Skipuleggja þarf tannheilsugæslu með það fyrir augum að áherslur séu í samræmi við meginmarkmið um bætta tannheilsu almennings. Er þá bæði átt við greiðslur hins opinbera og samræmdar aðgerðir til þess að draga úr tannskemmdum. Sérstaklega þarf að kanna hvernig megi tryggja betur en nú er að tannheilsugæsla sé hluti af almennri heilsugæslu og starfsemi heilsugæslustöðva. Skólatannlækningar skulu skipulagðar í öllum grunnskólum landsins.

Markmið 23.


    Gæðum sérfræðiþjónustu skal haldið og þau aukin eftir því sem kostur er.
    Tengsl milli sérfræðiþjónustu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva skulu aukin og bein tengsl tekin upp milli heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa að þessu leyti.
    Beinum tengslum verði komi á milli sérfræðinga sem starfa á sjúkrahúsum í Reykjavík og á Akureyri og heilsugæsluumdæma þannig að ákveðið sjúkrahús hafi umsjón með sérfræðiþjónustu á ákveðnu heilsugæslusvæði.
    Göngudeildaþjónusta sjúkrahúsa skal skipulögð og efld.
    Sérstök áhersla skal lögð á að geðlæknisþjónusta komi á heilsugæslustöðvum og menntun heilsugæslulækna og hjúkrunarfræðinga miðist við að þeir geti sinnt geðsjúklingum. Gera skal ráð fyrir að geðspítalar í Reykjavík og á Akureyri taki að sér þjónustuhlutverk fyrir ákveðin heilsugæslusvæði. Barna - og unglingageðdeild verði aðeins í Reykjavík.
    Áhersla verði lögð á að sjúklingar með langvarandi geðsjúkdóma fái inni á langlegudeildum eða sambýlum með öðrum sjúklingum. Aldraðir geðsjúklingar verði vistaðir, svo sem unnt er, á almennum hjúkrunardeildum.

Markmið 24

.
    Uppbyggingu öldrunarlækninga, sem hafin er, skal haldið áfram. Öldrunarlækningadeildir skulu vera í Reykjavík og á Akureyri. Stefnt skal að því að aldraðir sjúkir verði vistaðir á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum í sinni heimabyggð.
    Vinna skal áfram að auknum tengslum öldrunarþjónustunnar og heilbrigðisþjónustunnar annars vegar og og félagslegu þjónustunnar hins vegar eins og lög um málefni aldraðra gera ráð fyrir.
    Leggja skal áherslu á endurhæfingu aldraðra og stuðla skal að því að þeir geti dvalið sem lengst í heimahúsum með aðstoð heimilishjálpar og heimahjúkrunar.

Markmið 25

.
    Öll málefni lyfjasölu og lyfjaneyslu skal taka til sérstakrar athugunar. Athuga skal sérstaklega möguleika heilsugæslustöðva til þess að annast lyfjasölu og ráða lyfjafræðinga til að sinna þeim verkefnum á sama hátt og annað heilbrigðisstarfslið er ráðið.
    Upplýsingar til fólks um lyf og lyfjaneyslu skulu stórauknar og sérstakar ráðstafanir gerðar til þess að draga úr ónauðsynlegri og óhóflegri lyfjaneyslu hvort sem hún er á kostnað sjúkratrygginga eða ekki.
    Stefnt skal sérstaklega að virku samstarfi heilsugæslustöðva og sjúkrastofnana annars vegar og apóteka hins vegar í sambandi við hagkvæmt lyfjaval og að læknar fái jafnan upplýsingar um lyfjaávísanir sínar og kostnað af þeim.
    Apótekum verði falin forvarnaverkefni í samvinnu við heilsugæslustöðvar, skóla og áhugamannasamtök.

Markmið 26.


    Setja skal sérstakar reglur um bætur til sjúklinga ef þeir verða fyrir heilsutjóni eða örorku vegna óhappatilviljunar við læknismeðferð eða sjúkrahúsdvöl.

Markmið 27.


    Stefnt skal að því að útgjöld til heilbrigðismála haldist a.m.k. í sama hlutfalli af þjóðarframleiðslu og nú er til að unnt sé að mæta auknum þörfum vegna öldrunar íbúanna og vegna fjölgunar langvarandi sjúkdóma og ráðstafana til fyrirbyggjandi aðgerða og meðferða.
    Gera skal áætlun um byggingu heilbrigðisstofnana þannig að stofnanir til þess að sinna heilsugæslu verði allar komnar upp fyrir árið 1995 og fyrir árið 2000 verði að fullu sinnt annarri stofnanaþjónustu eins og áætlunin gerir ráð fyrir.

Markmið 28.


    Gera skal áætlun fyrir 1992 um heildarmannaflaþörf í heilbrigðisþjónustu og auk þess sérstaka áætlun um hvað þarf af löggiltum heilbrigðisstéttum fram til ársins 2000.

Markmið 29.


    Í grunnskólum skal kenna undirstöðuatriði í líkams - og heilsufræði, svo og í næringarfræði og matargerð. Þar skal einnig veita fræðslu um kynlíf, um ábyrgð á eigin heilbrigði, um líkamsþjálfun og um vímuefni og fyrstu hjálp við slysfarir.
    Í framhaldsskólum skal efla fræðslu um mataræði og matseld, um kynlíf, samlíf og foreldrahlutverkið, um vímuefni, um hvíld, streitu, geðvernd og fyrstu hjálp við slysfarir.
    Námsskrár grunn- og framhaldsskóla og skóla heilbrigðisstétta sérstaklega skal endurskoða með tilliti til þeirrar áherslu sem leggja skal á heilsugæslu og heilbrigðisfræðslu.
    Námsskrár skóla heilbrigðisstétta skulu samdar af aðilum sem tilnefndir eru bæði af menntamála- og heilbrigðisyfirvöldum. Sérstaklega skal kanna möguleika á sameiginlegri grunnmenntun þessara stétta þannig að fólk geti skipt um starf án mikillar viðbótarmenntunar.
    Með aðstoð fjölmiðla, einkum sjónvarps, skal koma á framfæri fræðslu um heilbrigða lífshætti, um hollt mataræði, um heilsurækt, geðvernd, lyf, skottulækningar og slysahættur.

Markmið 30.


    Fullnægjandi upplýsingakerfi til eftirlits og mats á heilbrigðisþjónustunni skal skipulagt fyrir árið 1994. Í slíku kerfi felist reglubundið mat á starfsemi heilsugæslustöðva, starfsemi sjúkrahúsa og störfum heilbrigðisstétta og einstakra starfsmanna.
    Heilbrigðisrannsóknir skulu efldar og í því skyni gerð sérstök rannsóknaáætlun fyrir árið 1992 til að styðja framkvæmd þessarar heilbrigðisáætlunar. Í því skyni skal tryggð nauðsynleg aðstaða og fjölgun fólks sem stundar heilbrigðisrannsóknir. Sérstaklega skal gefa gaum að rannsóknum á sambandi lífshátta og umhverfis á heilsufar, svo og rannsóknum á heilbrigðiskerfinu sjálfu, hvernig það reynist, hvernig það starfar og hver árangur þess er. Vinna skal að því að gera allar upplýsingar aðgengilegar almenningi til fræðslu og upplýsinga.

Markmið 31.


    Gera skal ráðstafanir til þess að fylgjast með nýjungum í læknisfræði og gera ráðstafanir til að nýta þær nýjungar hér á landi eða í samvinnu við önnur lönd í þágu forvarna, fyrirbyggjandi lækninga og meðferðar sjúkdóma.
    Efla þarf vísindarannsóknir til þess að auka þekkingu og skilning á sjúkdómum sem hafa í för með sér alvarleg langvarandi sjúkdómseinkenni. Slíkar rannsóknir verði fyrst og fremst efldar til þess að reyna að koma í veg fyrir sjúkdóma eða til að greina þá á frumstigi. Einkum þarf að einbeita sér að rannsóknum á sjúkdómum sem eru hlutfallslega algengir á Íslandi.
    Við aukningu á vísindastarfsemi verði aðstaða á rannsóknastofum nýtt vel til þess að mennta og þjálfa stúdenta, einkum þó þá, sem lokið hafa námi í læknisfræði, líffræði og öðrum starfsgreinum heilbrigðisþjónustunnar. Nota þarf rannsóknastofurnar og þá vísindamenn sem þar starfa til þess að vekja áhuga starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar á rannsóknum, gildi þeirra og gagnsemi.

Markmið 32.


    Gera skal áætlun um í hve miklum mæli og hvernig Ísland getur tekið þátt í alþjóðasamstarfi um heilbrigðismál.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á fundi ríkisstjórnarinnar 20. mars 1986 var samþykkt eftirfarandi tillaga frá þáverandi heilbrigðisráðherra, Ragnhildi Helgadóttur, um íslenska heilbrigðisáætlun:
    „Ríkisstjórnin samþykkir að vinna að landsáætlun í heilbrigðismálum með hliðsjón af stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem nefnd er „Heilbrigði allra árið 2000“, í þeim tilgangi að stórauka forvarnir gegn sjúkdómum og slysum ásamt örorku og ótímabærum dauðsföllum af þeirra völdum. Áætlunin skal m.a. taka mið af vörnum gegn langvinnum sjúkdómum og því að búa hinn vaxandi fjölda aldraðra undir gott heilsufar í ellinni. Forgangsverkefni í áætluninni skulu miðast við íslenskar aðstæður.
    Áhersla verður lögð á að kynna og efla heilbrigða lífshætti eftir því sem unnt er með stjórnvaldsaðgerðum og er óskað samstarfs við önnur ráðuneyti um framkvæmd verkefnisins. Heilbrigðisráðherra mun leggja drög að áætluninni fram í ríkisstjórninni innan tíðar.“
    Í framhaldi af þessari samþykkt skipaði heilbrigðisráðherra 10. apríl 1986 sérstakan starfshóp til að gera rammadrög að íslenskri heilbrigðisáætlun þar sem í fyrsta áfanga væru m.a. tillögur um þær aðgerðir sem væru aðkallandi og svo kostnaðarlitlar að unnt væri að hrinda þeim í framkvæmd mjög fljótlega. Enn fremur skyldi í áætluninni mörkuð stefna í aðgerðum til að koma í veg fyrir sjúkdóma og slys svo sem verða má. Starfshópinn skipuðu Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, sem jafnframt var formaður, Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir og Hrafn V. Friðriksson yfirlæknir sem annaðist fundaritun.
    Við gerð áætlunarinnar miðaði starfshópurinn við íslenskar aðstæður og stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar „Heilbrigði allra árið 2000“ frá árinu 1977. Einnig var tekið mið af heilbrigðisstefnu og heilbrigðismarkmiðum Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 1980 og 1984 og samsvarandi heilbrigðisáætlunum nágrannaþjóða okkar, einkum Finnlands.
    Tillögur hópsins voru lagðar fyrir Alþingi Íslendinga til kynningar í aprílmánuði 1987.
    Haustið 1987 ákvað heilbrigðisráðherra, Guðmundur Bjarnason, að heilbrigðisþing skv. 5. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, skyldi haldið 5. febrúar 1988 og þar skyldi fjallað um drög þau sem fyrir lágu að íslenskri heilbrigðisáætlun.
    Til undirbúnings var ákveðið að skipa eftirfarandi sjö vinnuhópa, sem fengu það verkefni að endurskoða íslenska heilbrigðisáætlun:

    Stefna í heilbrigðismálum.
    Skúli Johnsen borgarlæknir, formaður,
    Ásmundur Hilmarsson trésmiður,
    Björn Friðfinnsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra,
    Jóhann Pétur Sveinsson lögfræðingur,
    Sigríður Snæbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingur,
    Sigrún Magnúsdóttir borgarfulltrúi.
    
     Heilbrigðir lífshættir.
    
Bjarni Þjóðleifsson læknir, formaður,
    Alda Möller næringarfræðingur,
    Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fréttamaður,
    Jónas Ragnarsson ritstjóri,
    Magnús Einarsson læknir,
    Margrét Þorvaldsdóttir húsmóðir,
    Unnur Stefánsdóttir fóstra.
    
     Heilbrigðiseftirlit.
    Örn Bjarnason forstjóri, formaður,
    Hannes Hafstein, framkvæmdastjóri SVFÍ,
    Hermann Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra,
    Katrín Fjeldsted heilsugæslulæknir,
    Oddur Rúnar Hjartarson forstjóri,
    Ólöf Steingrímsdóttir sjúkraþjálfari.
    
     Heilsugæsla, tannheilsa, sérfræðiþjónusta, geðlækningar.
    Guðmundur Sigurðsson heilsugæslulæknir, formaður,
    Guðrún Marteinsdóttir dósent,
    Katrín Pálsdóttir hjúkrunarforstjóri,
    Kristján Guðmundsson bæjarstjóri,
    Sigfús Þór Elíasson prófessor,
    Tómas Zoëga geðlæknir.
    
     Öldrun, lyfjamál, tryggingamál.
    Almar Grímsson lyfsali, formaður,
    Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur,
    Gunnhildur Sigurðardóttir hjúkrunarforstjóri,
    Halldór E. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður,
    Helga Jónsdóttir, formaður tryggingaráðs,
    Jón Snædal læknir,
    Margrét Thoroddsen deildarstjóri.
    
     Fjármunir og mannafli.
    Davíð Á. Gunnarsson forstjóri, formaður,
    Edda Hermannsdóttir deildarstjóri,
    Inga Jóna Jónsdóttir viðskiptafræðingur,
    Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður,
    Lára Scheving Thorsteinsson hjúkrunarfræðingur,
    Sigurður Þórðarson aðstoðarríkisendurskoðandi,
    Sveinn Magnússon heilsugæslulæknir.
    
     Rannsóknir og kennsla.
    Sigmundur Guðbjarnason rektor, formaður,
    Guðrún Agnarsdóttir alþingismaður,
    Jóhann Ágúst Sigurðsson héraðslæknir,
    Jónas Hallgrímsson prófessor,
    Marga Thome dósent,
    Margrét Guðnadóttir prófessor,
    Rúnar Vilhjálmsson lektor.
    
    Hóparnir unnu starf sitt bæði fljótt og vel og skiluðu álitsgerðum sínum á heilbrigðisþinginu. Jafnframt var heilbrigðisáætlunin send til umsagnar fjölmargra aðila innan heilbrigðisþjónustunnar. Allar umsagnir sem bárust voru meðal þingskjala fyrir heilbrigðisþingið.
    Til heilbrigðisþings var boðið um 200 manns. Þar áttu fulltrúa allar löggiltar heilbrigðisstéttir, H2 heilsugæslustöðvar, stærri sjúkrahús, aðrar heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, helstu líknarfélög, þingflokkar, formenn heilbrigðis - og trygginganefnda Alþingis og fjölmiðlar. Auk þess sátu þingið þátttakendur í vinnuhópunum og starfsmenn heilbrigðisráðuneytis og embættis landlæknis.
    Á heilbrigðisþingi skiluðu vinnuhópar áliti auk þess sem almennar umræður urðu um áætlunina og þær breytingartillögur sem vinnuhópar báru fram. Sérstakur gestur þingsins var dr. Mahler sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf.
    Í framhaldi af þessu hefur íslensk heilbrigðisáætlun verið endurskoðuð af starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins og er sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir afrakstur þeirrar vinnu.
    Þingsályktunartillagan var lögð fram á 111. og 112. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga þar sem þingnefndin sem um hana fjallaði taldi á henni formgalla. Nú er áætlunin lögð fram með nýju formi með vísun til þessa.

    

SKÝRINGAR VIÐ ÍSLENSKA HEILBRIGÐISÁÆTLUN



1. INNGANGUR: markmið 1.
    Heilbrigði er meðal þeirra lífsgæða sem mest eru metin nú á dögum. Heilbrigði er hvort tveggja í senn dýrmætasta eign hvers einstaklings og um leið ein verðmætasta auðlind hverrar þjóðar. Í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna segir m.a. að það sé grundvallarréttur hvers manns að fá að njóta bestu heilsu sem völ er á, án tillits til kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, efnahagslegra eða félagslegra aðstæðna. Í lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1973, nú nr. 97/1990, segir að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita, til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Aðaláherslan er því ekki lögð á lækningar heldur á heilsuvernd. Á undanförnum áratugum hefur heilbrigði Íslendinga gjörbreyst og er nú með því besta sem gerist meðal þjóða. Þrátt fyrir batnandi heilsufar hafa kröfur almennings um aukna heilbrigðisþjónustu stöðugt aukist m.a. vegna nýrra og bættra meðferðarmöguleika og breyttra samfélagsaðstæðna, svo sem fjölgunar aldraðra.
    Heilbrigðishugtakið hefur jafnframt breyst þannig að fólk leitar nú hjálpar heilbrigðisþjónustunnar af öðru og minna tilefni en áður.
    Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að lífshættir einstaklinga og umhverfið ráða miklu um heilsufar og framvindu þess. Viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar eru því ekki eingöngu að lækna og hjúkra heldur ekki síður að koma í veg fyrir sjúkdóma. Þetta gerir heilbrigðisþjónustan í samvinnu við fjölda aðila, bæði einstaklingana sjálfa, félög og stofnanir. Heilsufar Íslendinga nú kallar á breyttar aðferðir við skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu en ekki síður á breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustunni sem aftur gerir aðrar kröfur til heilbrigðisstarfsmanna en verið hefur. Í samræmi við þessar breyttu aðstæður þarf að setja heilbrigðisþjónustunni ný markmið. Í þeim markmiðum verði tekið tillit til þess að:
*      Læknisþjónusta tekur við hinum sjúka og kostar kapps um að bjarga lífi, draga úr þjáningu og örkumlum.
*      Heilsuvernd beinist að þekktri áhættu í umhverfi eða hjá einstaklingnum sjálfum (mengun, reykingar, offita, of há blóðfita, háþrýstingur o.fl.) og kostar kapps um að útrýma eða draga úr þeirri áhættu eins og frekast er kostur.
*      Heilsurækt miðar að því að gera einstaklingnum kleift að auka hreysti og efla vitund hans og vilja til að viðhalda heilbrigði.
    Heilbrigðismarkmiðið er sett fram til að stuðla að og bæta heilbrigði einstaklingsins.      Þessu höfuðmarkmiði má skipta í þrjá þætti:
*      Að bæta árum við lífið.
    Þetta þýðir að ótímabærum dauðsföllum fækki og lífslíkur aukist.
*      Að bæta heilbrigði við lífið.
     Þetta þýðir að fólkið í framtíðinni eigi fleiri ár heilbrigði og starfsemi, fólk fái færri sjúkdóma og verði sjaldnar fyrir slysum en áður.
*      Að bæta lífi við árin.
     Þetta þýðir að heilbrigði aukist og að fleira fólki en nú finnist það vera hraust og stjórni starfsdegi sínum þannig að því finnist lífið ríkt af reynslu og breytilegum verkefnum.
    Heilbrigði er hluti af vellíðan einstaklingsins. Menning og fjárhagur getur haft mikil áhrif á heilsufar einstaklinganna. Sjúkdómar eru hluti af lífi hvers manns og fötlun er hluti af lífi margra en hinir sjúku og fötluðu geta einnig notið ánægju lífsins. Heilbrigði er að hluta til ákvörðunaratriði einstaklings og fjölskyldna og fullkomin heilbrigðisþjónusta næst aðeins með því móti að þjóðfélagsþegnarnir nýti hana og geri til hennar kröfur.
    Í heilbrigðisþjónustunni á fólkið ekki að líta á sig eingöngu sem neytendur. Hugmyndin er að maðurinn verði þátttakandi og honum sé ljóst hvað hann getur gert fyrir sig og hvað heilbrigðisþjónustan getur gert fyrir hann.
    Heilbrigðisþjónustan getur veitt mikla hjálp en án samvinnu við einstaklinginn er hún lítils virði og einstaklingurinn verður að gera sér ljóst að hann er samverkamaður og ekki aðeins neytandi.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett fram markmið um heilbrigði allra árið 2000.
    Þau þrjú markmið, sem eru hornsteinar í þessu sambandi, eru:
*      Að stuðla að heilbrigðu líferni.
*      Að draga úr hættum sem valda heilsutjóni.
*      Að reka heilbrigðiskerfi sem þjónar fólkinu.
    Til þess að ná þessum markmiðum þarf, auk heilbrigðisstjórnar, samspil margra þátta, svo sem löggjafar, fjármála, stjórnunar, menntamála, upplýsinga og rannsókna og árangurinn þarf að meta.
2. STEFNA Í HEILBRIGÐISMÁLUM: markmið 2.
    Á Íslandi hefur heilbrigðisþjónustan lengi verið á ábyrgð ríkisvalds og sveitarfélaga og svo er enn, enda þótt ríkissjóður greiði nú allan kostnað við þessa þjónustu. Verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga er nú þannig að heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð af ríki en meiri hluti stjórna stofnana, sem ríki og sveitarfélög eiga saman, er kosinn af sveitarfélögum.
    Yfirstjórn heilbrigðismála á Íslandi er í höndum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og það sér um framkvæmd laga um heilbrigðismál.
    Landlæknisembættið fylgist með heilsufari landsmanna og hefur eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsmanna.
    Heilbrigðismálaráð læknishéraða hafa með höndum stjórn heilbrigðismála, áætlanir um uppbyggingu í heilbrigðismálum og skipulagningu og starfi heilbrigðisstofnana undir stjórn héraðslæknis.
    Síðustu hundrað ár hefur verið reynt að fjölga læknismenntuðu fólki á öllum svæðum landsins og síðustu fimmtíu ár hafa einkennst af sérhæfðri uppbyggingu eftir því sem reynsla og menntun hefur gefið tilefni til.
    Síðustu þrjátíu ár hafa einkennst af uppbyggingu stofnana, einkum sjúkrahúsa.
    Lögin um heilsuverndarstöðvar, sem sett voru árið 1944, skiptu sköpum á sínum tíma með skipulagningu ungbarnaeftirlits og mæðraverndar.
    Á tímabili var skortur á læknum í landinu til starfa í strjálbýli og þess gætti mjög í þeim tillögum sem settar voru fram um 1970, en nú er svo komið að læknafjöldi á Íslandi er meiri en þarf til þess að sinna heilbrigðisþjónustu í landinu. Læknum er hins vegar misskipt og of margir starfa nú í Reykjavík.
    Lögin um heilbrigðisþjónustu 1973 skiptu verulegu máli í sambandi við að koma upp nútímalegri heilbrigðisþjónustu um land allt og má segja að þjónusta samkvæmt þeim lögum nái nú til alls landsins nema Reykjavíkur.
    Heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur, síðan lög um almannatryggingar komust á, verið greidd af opinberum aðilum að mestu leyti. Enginn Íslendingur þarf að greiða beint fyrir dvöl á sjúkrahúsi og lítilræði þarf að greiða fyrir aðra heilbrigðisþjónustu.

3. STEFNA Í HEILSUGÆSLU - OG SJÚKRAHÚSMÁLUM: markmið 3 4.
3.1 Heilsugæslustöðvar: markmið 3.
    Heilbrigðislöggjöfin frá árinu 1973 var stefnumarkandi um það að byggja upp heilsugæslu í landinu öllu. Uppbyggingin hefur náð til allra landshluta en þó verið minnst á Reykjavíkursvæðinu og er þar mörgum verkefnum ólokið á þessu sviði.
    Nauðsynlegt er að gera sérstakt átak til þess að ljúka því verkefni að byggja upp heilsugæslustöðvar sem þjóni öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, og stefna þarf að því að allir landsmenn hafi aðgang að heilsugæslustöð árið 1995.
    Helstu markmiðin með uppbyggingu heilsugæslustöðva hafa verið að auka heilsuvernd, heimilislækningar og heimahjúkrun. Sérstök áhersla hefur verið lögð á heilsuverndarstarf sem hafði staðnað í þeirri mynd sem það áður var. Í dreifbýli hefur þjónusta heilsugæslustöðvanna aukist og öryggið er orðið eins og aðstæður leyfa. Í þéttbýli eru heilsugæslustöðvarnar íbúum til mikils hagræðis. Þær veita þjónustu sem áður þurfti að sækja á margar stofnanir og oft langt frá heimili. Síðasti áratugur hefur einkennst af uppbyggingu heilsugæslustöðva og fjölgun heilbrigðisstarfsliðs um land allt. Erfitt er að meta árangur þessa starfs en ljóst er að íbúar í dreifbýli landsins una betur við hlutskipti sitt nú en fyrir 15 árum.
    Á síðustu árum hefur tölvuvæðing heilsugæslustöðvanna komist vel áleiðis. Vegna hennar mun brátt verða unnt að meta og sýna hvaða árangur hefur náðst fyrir unga og aldna og líklegt er að uppbygging heilsugæslunnar eigi eftir að skila miklum árangri í heilbrigðisþjónustu aldraðra í framtíðinni.
    
3.2 Sjúkrahús: markmið 4.
    Dýrasti þáttur heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi er sjúkrahúsaþjónustan og er fjöldi sjúkrarúma vegna bráðaþjónustu meiri hér en víðast hvar annars staðar.
    Ekki virðist þörf á fjölgun almennra sjúkrarúma á sjúkrahúsum á næstu árum en fjölga ber rúmum á hjúkrunarheimilum þannig að aldraðir sjúkir geti dvalist sem næst heimilum sínum. Til að tryggja besta nýtingu hjúkrunarrýmis fyrir aldraða þarf vistun á hjúkrunarheimilum til langframa að vera háð því mati sérfróðra aðila að vistun sé óhjákvæmileg.
    Auka þarf göngudeilda - og dagdeildaþjónustu í þeim tilgangi að stytta legutíma og fækka innlögnum.
    
4. HEILBRIGÐIR LÍFSHÆTTIR: markmið 5 9.
    Áróður fyrir heilbrigðum lífsháttum er nauðsyn í nútímaþjóðfélagi enda hefur verið sýnt fram á að venjur og lífshættir hafa veruleg og oft úrslitaáhrif á heilbrigði einstaklingsins.
    Of lítið hefur verið gert að því af heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi að taka jákvæða og hvetjandi afstöðu í þessum málum. Sérstök áhersla hefur þó verið lögð á þetta allra síðustu ár og þess vegna m.a. eru þessi heilbrigðismarkmið sett fram.
    Allt starf að heilbrigðisfræðslu geldur þess hve lítið fjármagn fæst til þess að gera fræðsluefni og hvað því fjármagni er dreift til margra aðila. Fjöldi laga og reglugerða, sem heyra undir mismunandi ráðuneyti, fjalla um heilbrigðisfræðslu í einhverri mynd, en lítið verður úr framkvæmdum. Að undirbúa fræðsluefni er vandasamt verk þar sem saman þarf að fara þekking á viðfangsefninu, tæknikunnátta til skýrrar framsetningar og kunnátta í dreifingu og samskiptum við fjölmiðla.
    Stofnanir og ráðuneyti sem með þessi mál fara nú hafa yfirleitt ekki yfir að ráða þeim mannafla sem þarf til heilbrigðisfræðslu, frá hugmynd til framkvæmdar. Starfið verður því oft handahófskennt og árangur minni en ella.
    
4.1 Manneldismarkmið og matvælaframleiðsla: markmið 6.
    Fram á þessa öld veltu menn ekki fyrir sér manneldi á Íslandi að öðru leyti en því hvort allir hefðu mat til næsta máls. Nú er þessu öðru vísi háttað. Allir hafa til hnífs og skeiðar og það er ástæða til að gefa ráð um hvaða fæða er holl og hvaða fæða er óholl.
    Almenningur neytir yfirleitt of mikillar fæðu og þess vegna er offita verulegt vandamál á Íslandi. Fæðan á að innihalda nauðsynleg efni til vaxtar, viðhalds, endurnýjunar og brennslu. Hún þarf einnig að vera hættulaus og eftirlit með aukefnum í fæðu er mikilvægt. Talið er að leiðbeina þurfi fólki um fæðuval, einkum af þeim ástæðum að minnka þurfi fitu, sykur og matarsalt í fæðunni. Til viðbótar við fræðslu um þessi efni má með verðstýringu hafa áhrif á neysluvenjur.
    Samþykkt hefur verið þingsályktun um manneldismarkmið sem eiga að vera leiðbeinandi á þessu sviði.

4.2 Skaðsemi tóbaksnotkunar: markmið 7.
    Á Íslandi er áætlað að 200 300 manns deyi á hverju ári af tóbaksreykingum, beinum og óbeinum. Þess vegna er talið eðlilegt að stuðla markvisst að útrýmingu tóbaksneyslu. Með verðstýringu má hafa áhrif á neyslu tóbaks en óeðlilegt er að hækkun tóbaksverðs hafi áhrif á framfærsluvísitölu.
    
4.3 Skaðleg áhrif áfengis: markmið 8.
    Enda þótt heildarnotkun áfengis á Íslandi sé minni en í flestum löndum er það staðreynd að óæskileg áhrif áfengisneyslu á heilsu fólks eru mikil á Íslandi.
    Þess vegna verður að vinna að því að minnka heildaráfengisneyslu og útrýma ofneyslu. Liður í því er verðlagning áfengis. Koma þarf í veg fyrir að hækkanir á verði áfengis hafi áhrif á framfærsluvísitölu.
    
4.4 Líkamsrækt og þjálfun: markmið 9.
    Menn eru sammála um að líkamsrækt og líkamleg þjálfun stuðli að heilbrigði. Líkamleg þjálfun er nauðsynleg fyrir alla aldurshópa. Breyttar þjóðfélagsaðstæður, atvinnuhættir og færri tækifæri til áreynslu gera meiri kröfur um líkamsrækt og þjálfun fyrir alla aldurshópa en áður.
    
5. HEILBRIGÐISEFTIRLIT OG UMHVERFISVERND: markmið 10 16.
    Tilvist mannkyns er háð því að eðlilegt jafnvægi haldist í sambýli manns og náttúru. Ómenguð náttúra er ein forsenda andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar vellíðunar mannsins.
    Heilbrigði manna er að hluta til háð þeirri fæðu, sem hann neytir og því umhverfi sem hann lifir og starfar í. Sífellt þarf að meta hvort heilbrigði manna er hætta búin af nánasta umhverfi, svo og neyslu og nauðsynjavörum.
    Heilbrigðis - og umhverfiseftirlit á að stuðla að heilsusamlegu umhverfi innan húss og utan, ómenguðu lofti, láði og legi, heilnæmu neysluvatni, matvælum og öðrum neysluvörum, svo og óskaðlegum nauðsynjavörum.
    Hlutverk umhverfis - og heilbrigðiseftirlits er fyrst og fremst fræðsla og upplýsingar um þessi mál og að sjá um að farið sé að lögum og reglum er varða almenna hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og aðbúnað og öryggi á vinnustöðum og að vinna að betri heilsuvernd og mengunarvörnum.
    Stýring þessara mála með lögum og reglugerðum er nauðsynleg og fræðsla og samvinna eru mikilvægir þættir.
    
5.1 Neyslu - og nauðsynjavörur: markmið 10 12.
    Með hinum öru þjóðfélagsbreytingum síðustu ára hefur framleiðsla og innflutningur tilbúinna matvæla og annarra tilbúinna neysluvara stóraukist og neysluvenjur fólks breyst verulega. Fjölbreytni neyslu - og nauðsynjavara er mun meiri en áður og hefur áhættuþáttum í sambandi við notkun þeirra fjölgað.
    Þessir þættir varða fyrst og fremst skaðlegar örverur, aukefni, lyfjaleifar í neysluvörum, svo og eiturefni og hættuleg efni í nauðsynjavörum. Stjórnvöld þurfa að meta þessa áhættuþætti, gera viðeigandi ráðstafanir og sjá til þess að almenningur fái sem bestar upplýsingar.

5.2 Hávaða - og geislavarnir: markmið 13.
    Hávaði frá umferð og atvinnurekstri, jónandi geislun frá lækningatækjum og notkun kjarnorku og ekki jónandi geislun getur valdið heilsutjóni sem brýnt er að koma í veg fyrir.

5.3 Mengunarvarnir: markmið 14 .
    Vandamál vegna mengunar hér á landi eru enn ekki eins mikil og í ýmsum öðrum tæknivæddum ríkjum, en nú þegar má sjá blikur á lofti.
    Tugir þúsunda efna og efnasambanda eru í notkun eða myndast við ýmiss konar starfsemi. Mengun af völdum margra þessara efna getur skapað heilbrigðishættu og leitt til röskunar lífríkis. Stöðugt bætist við ný vitneskja um heilbrigðisáhættu af völdum þessara efna og um áhrif þeirra á vistkerfi vatna, sjávar, lands og lofts. Með aukinni fólksfjölgun, þéttbýli, velmegun og tæknivæðingu eykst efnamengun umhverfisins bæði að magni og fjölbreytni.
    Stjórnvöld þurfa ávallt að vera á verði til þess að geta metið hugsanleg áhrif mengunarinnar og gera viðeigandi ráðstafanir.
    
5.4 Vinnuvernd: markmið 15.
    Breytingar í þjóðfélags - og framleiðsluháttum hafa gert það að verkum að atvinnuhættir hafa breyst verulega. Þessi þróun hefur verið svo hröð að ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til einstaklingsins á vinnustað. Það endurspeglast m.a. í streitu, óheppilegu líkamsálagi, hávaðamengun, aukinni slysahættu og hættu á skaðlegum áhrifum efna.
    
5.5 Slysavarnir: markmið 16.
    Slys eru vaxandi heilbrigðisvandamál á Íslandi og hafa veruleg áhrif á kostnað þjóðfélagsins og afkomu einstaklinganna. Slys á börnum og unglingum eru allt of tíð hér á landi.
    Unnt er að koma í veg fyrir slys með fræðslu og ráðgjöf, enn fremur með löggjöf, svo sem vinnulöggjöf og umferðarlögum.
    
6. ÞRÓUN HEILBRIGÐISKERFISINS: markmið 17 26.
    Heilbrigðisþjónustu þarf að byggja þannig upp að hún hvetji alla þegna þjóðfélagsins til heilsuverndar og heilsuræktar. Hún þarf enn fremur að veita þeim jafnan aðgang að forvörnum sjúkdóma, greiningu sjúkdóma á byrjunarstigi, markvissri meðferð og endurhæfingu vegna langvinnra sjúkdóma og fötlunar, jafnframt sem mestu frjálsræði til þess að velja sínar eigin leiðir til heilbrigðs lífs. Þjónustuna ber að skipuleggja á grundvelli ábyrgðar fólks á eigin heilbrigði en einnig á grundvelli jafnréttis og samábyrgðar.
    Góð heilbrigðisþjónusta:
*      er sveigjanleg til að mæta breytilegum þörfum fólks,
*      eflir ábyrgð fólks á eigin heilbrigði,
*      nýtir vel fjármuni og er ekki ofviða efnahag,
*      þjónar öllum jafnt óháð aldri, kyni, tekjum, stöðu eða búsetu,
*      er samfelld og slítur ekki einstaklinginn úr samhengi við fjölskyldu sína og umhverfi,
*      byggir á bestu þekkingu á eðli heilbrigðis og sjúkdóma.
    Þegar rætt er um heilbrigðiskerfið má greina mismunandi stig þess eftir sérhæfingu:
*      Stig sjálfshjálpar og hjálpar sem veitt er af vandamönnum og vinum.
*      Stig almennrar heilbrigðisþjónustu veittrar af þeim sem hafa hlotið til þess menntun og hafa af því atvinnu.
*      Stig sérhæfðrar þjónustu sem oft er veitt samkvæmt tilvísun frá fyrri stigum.
*      Stig mjög sérhæfðrar þjónustu sem einungis er unnt að veita á landsvísu og í sumum tilvikum þarf að sækja til annarra landa.
    Í þróun og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi hefur sérstök áhersla verið lögð á heilsugæslukerfið annars vegar og uppbyggingu sérhæfðrar sérfræðiþjónustu hins vegar. Þátt í þessu taka ríkisvald, sveitarstjórnir, félagasamtök (sjálfseignarstofnanir) og einstaklingar.
    Heilsugæslukerfið hefur verið byggt upp um landið allt og er lengra komið á strjálbýlissvæðum. Hins vegar er sérfræðiþjónustan mun meiri á þéttbýlissvæðunum. Stefnt hefur verið að uppbyggingu sérfræðiþjónustu á Akureyri, auk Reykjavíkur. Sérfræðiþjónusta tannlækna, sérfræðinga sem vinna utan sjúkrahúsa, atvinnusjúkdómavarna, sjúkraþjálfunar og endurhæfingar eru mikilvægir þættir heilsugæsluþjónustunnar.
    
6.1 Mönnun og starfsemi heilsugæslustöðva: Markmið 19 21.
    Aukin áhersla á forvarnir og heilbrigðisfræðslu og meiri hjúkrunarþjónusta hefur í för með sér þörf fyrir aukinn fjölda starfsmanna í heilsugæslu. Þörf er á auknum upplýsingum um heilsurækt, heilbrigðisviðhorf og lífshætti íbúa heilsugæsluumdæmanna.
    
6.2 Tannheilsa: markmið 22.
    Á síðustu árum hefur orðið veruleg fjölgun tannlækna og er fjöldi þeirra nú svipaður hér á landi miðað við fjölda íbúa og annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt hefur þáttur hins opinbera í kostnaði við tannviðgerðir barna og unglinga aukist. Þrátt fyrir þetta er ljóst að árangur í baráttunni gegn tannskemmdum er mun lakari hér á landi en í nágrannalöndum. Hluti af skýringunni er að ekki hefur verið lögð næg áhersla á varnir gegn tannskemmdum samhliða aukinni og bættri viðgerðarþjónustu. Í lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1973 var gert ráð fyrir tannheilsugæslu, forvörnum og tannviðgerðum á heilsugæslustöðvum. Af því hefur ekki orðið. Síðustu árin hafa veruleg skref verið stigin til aukinnar tannverndar á vegum heilbrigðisráðuneytisins og framlög Tannverndarsjóðs í þessu skyni aukin.

6.3 Sérfræðiþjónusta sjúkrahúsa: markmið 23.
    Markmið sérfræðiþjónustu sjúkrahúsa er að sjá fyrir þeirri sérhæfðu þjónustu sem er nauðsynleg til þess að taka við þeim einstaklingum sem heilsugæslan getur ekki sinnt.
    Geðlæknisþjónustan hefur á seinni árum tekið verulegum breytingum. Geðdeildir eru nú við þrjú af stærstu sjúkrahúsum landsins, Landspítala, Borgarspítala og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Barna - og unglingageðdeild starfar í Reykjavík. Aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks hefur víðast hvar tekið stakkaskiptum. Aukið framboð er á sérhæfðri geðlæknisþjónustu utan stofnana. Mikil fjölgun hefur orðið á meðferðarrýmum á stofnunum fyrir áfengis - og vímuefnasjúklinga.

6.4 Öldrunarlækningar: markmið 24.
    Ljóst er að á næstu árum fjölgar öldruðum hér á landi bæði hlutfallslega og tölulega. Heilbrigðisþjónustan verður að vera í stakk búin til þess að mæta þjónustukröfum vegna þessa aldurshóps þegar á þessum áratug og í vaxandi mæli eftir það. Það eru hinir elstu, sem mest þurfa á öldrunarþjónustu að halda, bæði sökum þess að heilsubrestur er þar algengur og félagsleg staða þeirra hefur gjarnan raskast. Þjónustuþörf þessa aldurshóps vex samfara fjölgun og heilbrigðisþjónustan verður að vera við því búin að mæta henni.

6.5 Lyfjamál: markmið 25.
    Fyrirkomulag lyfsölu er þannig hér á landi að lyfjaheildsala er öllum frjáls sem hafa í þjónustu sinni lyfjafræðinga. Smásalan er hins vegar með þremur undantekningum bundin við að lyfjafræðingur fái leyfi forseta Íslands til að reka lyfjabúð í tilteknu umdæmi. Breyting á þessu til frjálsræðis og hagræðingar í lyfjasmásölu er sjálfsögð og er hægt að gera það án þess að slaka á kröfum um sérþekkingu.
    Eftirliti með lyfjasölu er lagalega vel fyrir komið en upplýsingum um lyf og lyfjanotkun er í mörgu ábótavant. Samvinna lækna og lyfjafræðinga í þessum efnum þarf að bæta og efla þarf upplýsingar til almennings um notkun lyfja og verð þeirra.
    Forvarnastarf er mjög óverulegt í apótekum þrátt fyrir góða aðstöðu þeirra til þess að ná til fólks með fræðslu og upplýsingum. Ástæða er því til að efla þennan þátt í starfsemi apóteka.

6.6 Skaðabætur til sjúklinga: markmið 26.
    Reynslan sýnir að af og til verða við lækningar óvænt óhöpp sem engum verður um kennt. Sanngjarnt er að þeir sem fyrir slíkum óhöppum verða fái hæfilegar bætur án þess að stofna þurfi til málaferla.
    
7. FRAMLÖG TIL HEILBRIGÐISMÁLA OG MANNAFLI: markmið 27 28.
7.1 Fjármunir: markmið 27.
    Síðustu 25 ár hafa fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu aukist mjög verulega og er nú þannig komið að Ísland eyðir hlutfallslega af þjóðarframleiðslu jafnmiklu og aðrar Norðurlandaþjóðir, eða um 8%.
    
7.2 Mannafli: markmið 28.
    Starfsliði í heilbrigðisþjónustu hefur fjölgað mjög síðustu tvo áratugi án þess að áætlun hafi verið gerð um samræmingu menntunartilboða og starfa. Því er svo komið nú að offjölgun er í sumum starfsstéttum en skortur í öðrum. Til að leiðrétta þetta þarf samræmingu og skipulag, og launamálastefnu sem hvetur til þeirra starfa þar sem nú skortir mannafla.
    
8. RANNSÓKNIR OG KENNSLA: markmið 29 31.
8.1 Kennsla: markmið 29.
    Eigi einstaklingurinn að vera virkur þátttakandi í heilbrigðisþjónustunni verður hann að hafa nauðsynlega þekkingu á undirstöðuatriðum líkams - og heilsufræði. Slíka þekkingu þarf að byggja upp í áföngum í skólakerfinu og viðhalda með almenningsfræðslu eða símenntun.
    Forvarnastarf ber því aðeins árangur að einstaklingurinn viti og skilji hvað ber að forðast og hvers vegna. Til þess að forvarnastarf í heilbrigðimálum nái fullum tilgangi þarf fræðsla um mannslíkamann og heilbrigða lífshætti að verða ein af undirstöðugreinum námsins. Einstaklingurinn þarf að öðlast þessa þekkingu í áföngum eftir því sem hann hefur þroska til og þörf fyrir. Fræðslan má ekki vera takmörkuð við skólakerfið. Hún þarf að ná til fólks á öllum aldri. Börn og unglingar hafa aðrar þarfir í þessu efnum en ungt fólk sem hefur stofnað heimili og eignast barn. Þarfir aldraðra eru enn aðrar þannig að einstaklingurinn hefur stöðugt þörf fyrir nýja vitneskju og fræðslu á hinum ýmsu skeiðum ævinnar.
    Tryggja þarf símenntun allra starfandi heilbrigðisstétta því framfarir í heilbrigðisvísindum eru mjög örar og auknar líkur á betri þjónustu. Einnig er nauðsynlegt að veita heilbrigðisstarfsfólki þjálfun í miðlun upplýsinga. Hollt fæði og hófsemi eru meðal hornsteina heilbrigðis og er mikilvægt að kennarar, læknar og hjúkrunarfræðingar hljóti markvissari menntun í næringarfræði ef þeir eiga að geta veitt æskilegar leiðbeiningar.

8.2 Rannsóknir vegna heilbrigðisstefnunnar: markmið 30.
    Heilbrigðisþjónustan þarf að búa við virkt og öflugt upplýsingakerfi til eftirlits og mats á árangri og til ákvörðunartöku. Forsendur heilbrigðisáætlunarinnar eru þekking á heilsufari, dánarorsökum og þeim þáttum, sem áhrif hafa til góðs eða ills í því sambandi, eins og lífsmáti fólks, umhverfi þess, notkun og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar ásamt möguleikum á virkri ákvörðunartöku og stefnumörkun um heilbrigðismálefni. Núverandi upplýsingakerfi er ófullkomið og þungt í vöfum. Það byggir aðallega á dánarmeinaskrá en tölvuvæðing á útskriftaskrám sjúkrahúsa og samskiptaskrám heilsugæslustöðva er í örri þróun.

8.3 Lækninga - og vísindarannsóknir: markmið 31.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir á sviði þjónusturannsókna til þess að aðstoða við greiningu sjúkdóma og fylgjast með árangri sjúkdómsmeðferðar. Sérstaka áherslu þarf að leggja á eflingu þessarar starfsemi til þess að ná arangri við að greina sjúkdóma á frumstigi þeirra. Rannsóknastörf á aðalsjúkrahúsum landsins þarf að efla til þess að ná góðum árangri við að greina sjúkdóma á byrjunarstigi. Brýnt er að fylgjast með tækniþróun á sviði lækningarannsókna til þess að nýta til fulls þær framfarir sem orðið hafa nú þegar. Einnig þarf að fylgjast grannt með nýrri tækni sem stöðugt þróast á þessu sviði.
    Síðustu tvo áratugi hefur þekking á heilbrigðu og sjúku líkamsástandi aukist gífurlega vegna nýrra rannsóknaraðferða, sem hafa verið notaðar til þess að auka skilning á sviði veirusjúkdóma, ónæmisfræði, lífefnafræði og erfðafræði. Þessar framfarir hafa gert læknum kleift að fyrirbyggja alvarlega sjúkdóma sem þeir áður stóðu ráðþrota gagnvart. Margir sjúkdómar, sem ekki eru sérlega algengir (t.d. erfðasjúkdómar), geta verið mjög kostnaðarsamir fyrir þjóðfélagið vegna þess að sjúkrahúsvist er jafnan löng og veita þarf þessum sjúklingum mikinn stuðning utan sjúkrahúsa. Til þess að lina þjáningar slíkra sjúklinga og spara kostnað við rekstur heilbrigðisþjónustunnar er mikilvægt að finna orsakir þessara sjúkdóma til að koma í veg fyrir þá.

9. ALÞJÓÐASAMSTARF: markmið 32.
    Skipti á upplýsingum og reynslu um heilbrigðismál, einkum við önnur Norðurlönd og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina eru sérstaklega mikilvægar fyrir lítið land eins og Ísland. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessu samstarfi og verið bæði þiggjandi og veitandi. Nauðsynlegt er að viðhalda og efla þetta samstarf einkum með hliðsjón af þeim möguleikum sem Ísland hefur að miðla af eigin reynslu og góðum árangri í heilbrigðismálum.


Fylgiskjal I.


Verkefni sem þarf að framkvæma til þess að


markmið heilbrigðisáætlunar náist.


    


Markmið 1.
*      Afla gagnagrunns um heilsufarslega, faraldsfræðilega og lýðfræðilega stöðu landsbúa.

Markmið 3.
*      Tryggja að framkvæmd heilsugæslu sé sambærileg um allt land og að sköpuð séu tengsl við aðra þætti starfs og við stofnanir í og utan heilbrigðiskerfisins.

Markmið 4.
*      Setja reglugerð um starfsemi sjúkrahúsa, flokkun þeirra, verksvið, starfssvæði og mönnun.

Markmið 5.
*      Setja lög um heilbrigðisfræðslu og forvarnir.
*      Auka menntun heilbrigðisstétta varðandi heilbrigðisfræðslu.

Markmið 6.
*      Kynna skipulega manneldismarkmið sem samþykkt hafa verið.
*      Stefna að reglum um verðstýringu í samræmi við manneldismarkmið.

Markmið 7.
*      Gera áætlun um útrýmingu tóbaksnotkunar fyrir aldamót.

Markmið 8.
*      Gera markvissa áætlun um minni notkun áfengis.
*      Ríkið hætti að vera háð tekjum af áfengissölu og meiri hagnaður af áfengissölu renni til áfengisvarna.

Markmið 9.
*      Skapa betri skilyrði til útivistar en nú er í þéttbýli og gera átak í skipulagsmálum til þess að koma upp sérstökum hlaupa - , göngu - og hjólreiðabrautum.
*      Almennum íþróttahúsum fjölgi.
*      Endurskoða reglur um ferlimál fatlaðra.

Markmið 10.
*      Undirbúningur verði hafinn að því að koma á framhalds - og viðhaldsmenntun í heilbrigðis - og umhverfiseftirliti við Háskóla Íslands eða Tækniskóla Íslands. Námsefni skal miðast við þau verkefni sem heilbrigðisfulltrúum og vinnueftirlitsmönnum er ætlað að leysa af hendi.
*      Vinna þarf landsáætlanir um þróun heilbrigðis - og umhverfiseftirlits.
    
Markmið 11.
*      Skipulag ónæmisaðgerða skal vera með þeim hætti að það tryggi að minnska kosti 95% aðild og stöðugt eftirlit.
*      Endurskoða skal lagaákvæði um sóttvarnir og í nýrri löggjöf skal m.a. ákveða fyrirkomulag meðferðar og einangrunar smitbera.
*      Matvælalöggjöfin verði endurskoðuð sem fyrst. Settar verði m.a. reglur um samsetningu unninna kjötvara.
*      Efla skal starfsemi rannsóknastofu Hollustuverndar ríkisins þannig að hún geti þjónað heilbrigðiseftirlitinu í landinu að því er varðar gerla - , efna - , og eðlisfræðirannsóknir á neyslu - og nauðsynjavörum.
*      Efldar verði grunnrannsóknir á matvælum og öðrum neysluvörum til að auðvelda eftirlit með þeim.

Markmið 12.
*      Komið verði á virku innflutningseftirliti og virkara framleiðslueftirliti með nauðsynjavörum og meðferð eiturefna og hættulegra efna.

Markmið 13.
*      Teknar verði upp reglulegar mælingar á geislavirkum efnum sem kynnu að berast að landinu með vindum og hafstraumum.
*      Útvegaður verði nauðsynlegur tækjabúnaður og tryggður verði mannafli til að hægt verði að hafa nauðsynlegt eftirlit með geislavirkni í neysluvörum og umhverfi.
*      Settar verði sérstakar reglur um hávaða þar sem fram koma viðmiðunarmörk.
*      Gerðar verði nauðsynlegar breytingar á skipulagslöggjöfinni þannig að sýnt verði fram á að hávaði verði alls staðar undir viðmiðunarmörkum áður en skipulagsuppdrættir eru samþykktir.

Markmið 14.
*      Sett verði rammalöggjöf um umhverfismál.
*      Settir verði hámarksstaðlar um loft - , sjávar- og vatnsmengun og þeir endurskoðaðir reglulega.
*      Settar verði reglur um lágmarkskröfur er gerðar verða til þeirrar starfsemi sem valdið getur mengun ytra umhverfis og háð er eftirliti og starfsleyfi heilbrigðisnefnda.
*      Komið verði á fót, svo fljótt sem kostur er, móttökustöðvum fyrir eiturefni og annan hættulegan úrgang. Jafnframt verði kannað hver grundvöllur er fyrir flokkun og endurnýtingu úrgangs hér á landi og hvaða efnum þarf að eyða erlendis.
*      Gerðar verði nauðsynlegar breytingar á skipulagslöggjöfinni þannig að frárennslismál frá iðnaði og íbúðarbyggð verði leyst á viðunandi hátt áður en skipulagsuppdrættir hljóta staðfestingu.
*      Könnuð verði útbreiðsla, notkun og afdrif ýmissa eiturefna um allt land, t.d fjölklórstvífenýls (PCB).
*      Settar verði reglur um efni sem nota má í innréttingar og húsgögn.
*      Komið verði á þjónusturannsóknum á sviði umhverfismengunar til að bæta eftirlit með henni og mengunarvörnum fyrirtækja.
*      Settar verði reglur um eldsneyti og útblástur bifreiða og kannað verði rækilega hvort setja eigi reglur um hreinsitæki á bensíndrifna bíla.
*      Gerð verði áætlun sem miði að því að draga úr notkun efna og efnasambanda sem eyða ósonlaginu í háloftunum. Áætlunin geri m.a. ráð fyrir að notkun klórflúor - og klórbrómkolefnissambanda hérlendis verði sem næst úr sögunni árið 2000.

Markmið 16.
*      Slysavarnir verði samræmdar og stofnað verði slysavarnaráð sem hafi m.a. það verkefni að gera landsáætlun um slysavarnir.
*      Sett verði í lög að umferðarslys og meiri háttar slys á heimilum verði rannsökuð á sama hátt og flug - , sjó - og vinnuslys.
*      Stuðlað verði að frekari aðgerðum til þess að draga úr umferðarhraða í íbúðarhverfum og í nánd við skóla.

Markmið 23.
*      Í reglugerð um sjúkrahús, sbr. markmið 4, verði hlutverk svæðissjúkrahúsanna í Reykjavík og á Akureyri skilgreint sérstaklega.
*      Sérfræðingar og göngudeildir sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Akureyri verði tengd ákveðnum heilsugæsluumdæmum og komið verði upp kerfi farandsérfræðinga í þeim sérgreinum þar sem það er álitlegt.
*      Sérstakir læknar verði ráðnir á göngudeildir sjúkrahúsa til sérfræðistarfa og verksvið göngudeilda skýrt ákveðin.
*      Geðlæknisþjónustan verði endurskipulögð með tilliti til þess að heilsugæslustöðvar taki að sér ákveðin verkefni á því sviði.
*      Áfengis - og fíkniefnameðferð verði endurskoðuð sérstaklega með tilliti til samræmingar stofnanaþjónustu og göngudeildarþjónustan verði í svo miklum mæli sem unnt er flutt á heilsugæslustöðvarnar.
*      Áfengis - og fíkniefnamál unglinga verði athuguð sérstaklega.

Markmið 24.
*      Heimaþjónusta vegna aldraðra og langvarandi veikra verði skipulögð fyrir landið í heild með tilliti til þess að nýta sem best allt hjúkrunarrými og kappkostað sé að leysa allan hjúkrunarvanda aldraðra svæðisbundið.

Markmið 25.
*      Lög um lyfjamál og lyfjadreifingu verði endurskoðuð með tilliti til þess annars vegar að færa lyfjaafgreiðslur til heilsugæslunnar þar sem það á við og hins vegar til aukins frjálsræðis án þess að slaka á kröfum um sérþekkingu.

Markmið 26.
*      Löggjöf verði sett eða samningar gerðir við tryggingafélög um að koma á sérstökum tryggingum vegna sjúklinga sem hljóta örorku eða miska vegna óhappatilviljunar við læknismeðferð.

Markmið 27.
*      Gerð verði rammaáætlun vegna bygginga heilbrigðisstofnana til næstu tíu ára og ítarleg áætlun til næstu fimm ára.

Markmið 28.
*      Gerð verði áætlun um mannaflaþörf í heilbrigðisþjónustunni á öllu sérhæfðu starfsliði næstu tíu ár miðað við breytingar í þjóðfélagi og aldursskiptingu.

Markmið 29.
*      Endurskoða námsefni í skólum landsins með tilliti til markmiða þessarar heilbrigðisáætlunar.
*      Endurskoða námsskrár skóla heilbrigðisstétta með tilliti til þeirrar áherslu sem leggja þarf á heilbrigðisfræðslu og heilsuvernd.

Markmið 30.
*      Koma á fullnægjandi upplýsingakerfi til eftirlits og mats á heilbrigðisþjónustunni.
*      Gera sérstaka rannsóknaáætlun vegna framkvæmdar þessarar heilbrigðisáætlunar og jafnframt tekið tillit til áætlana Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar vegna HFA 2000.

Markmið 31.
*      Setja á laggirnar nefnd sérfræðinga sem fái það verkefni að fylgjast með nýjungum í læknisfræði, m.a. hátækni, og gera tillögur til heilbrigðisyfirvalda um nýtingu þeirra.

Markmið 32.
*      Gera sérstaka athugun á alþjóðasamstarfi Íslands í heilbrigðismálum og semja áætlun um framtíð þess starfs.