Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 278 . mál.


Sþ.

557. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um jöfnunargjald.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur utanríkisráðherra það samræmast fríverslunarsamningum Íslands við aðrar þjóðir að halda áfram álagningu og innheimtu jöfnunargjalds eftir að virðisaukaskattur var tekinn upp fyrir rúmu ári? Sé svo, hve lengi?
    Hvaða bréfaskipti hafa farið á milli utanríkisráðuneytisins og samningsríkja okkar um þetta atriði? Hvaða viðhorf koma fram í þeim til jöfnunargjaldsins?


    Lög um jöfnunargjald voru fyrst sett á Alþingi árið 1978. Samkvæmt þeim var lagt 3% jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur sem voru í samkeppni við innlendar iðnaðarvörur. Voru lög þessi sett til að jafna samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart iðnaði landa EFTA og EB vegna ólíkra söluskattskerfa. Samkvæmt útreikningum, sem þá voru gerðir, voru uppsöfnunaráhrif söluskatts hér á landi talin 3% sem innfluttar iðnaðarvörur sluppu við vegna þess að þær bjuggu við virðisaukaskattskerfi. Í tengslum við kjarasamninga 1989 var svo samið um það við ríkisstjórnina að hækka jöfnunargjaldið úr 3% í 5% tímabundið. Gjald þetta var á sínum tíma tilkynnt til EFTA og EB sem tímabundið gjald, en á þessum árum var í bígerð að breyta söluskattskerfinu í virðisaukaskattskerfi. Þá fóru fram sérfræðingaviðræður milli Íslands og EFTA - ríkjanna og Íslands og EB um jöfnunargjaldið þar sem farið var yfir útreikninga á því og aðra tæknilega þætti þess. Eins og allir vita varð dráttur á því að virðisaukaskattur yrði tekinn upp hér á landi og héldust því uppsöfnunaráhrif söluskattskerfisins til óhagræðis fyrir íslenskar iðnaðarvörur allt þar til virðisaukaskattur var tekinn upp 1. janúar 1990. Ávallt hefur verið gert ráð fyrir því að jöfnunargjald félli niður þegar virðisaukaskatti yrði komið á.
    Hins vegar gætir enn uppsöfnunaráhrifa söluskatts í rekstrarkostnaði iðnaðar af þremur ástæðum, í fyrsta lagi vegna fasteigna sem komu til fyrir upptöku virðisaukaskatts, í öðru lagi vegna viðhalds og endurbóta véla og í þriðja lagi vegna flutningatækja. Þjóðhagsstofnun og fjármálaráðuneyti hafa lagt mat á hversu mikil þessi áhrif eru. Samkvæmt því mati er áætlað að uppsafnaður söluskattur hafi numið 5,6% á framreiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna í iðnaði í árslok 1989. Þá má geta þess að aðstöðugjald skekkir einnig samkeppnisstöðu iðnaðar þar sem m.a. er um að ræða gjald á rekstrarkostnað, en slíkt þekkist ekki í samkeppnislöndunum.
    Niðurfelling 5% jöfnunargjalds mun hafa töluverð áhrif á samkeppnisstöðu iðnaðar og var því talið eðlilegt að iðnaðurinn fengi nokkurn aðlögunartíma þannig að gjaldið félli niður í áföngum. Með lögum er ákveðið að gjaldið verði 4% frá 1. janúar 1991 og 3% frá 1. september 1991 og falli síðan niður í árslok 1991. Þá er þess að geta að gert er ráð fyrir að endurgreiddar verði 150 millj. kr. til iðnaðarins samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi árið 1990.
    Nú hefur verið ákveðið með lögum að afnema gjaldið í áföngum á árinu 1991 og mun iðnaðurinn því fá eðlilega aðlögun að breyttum aðstæðum og skuldbindingum okkar gagnvart EFTA - ríkjum og EB verða fullnægt.
    Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins skrifaði sendiráði Íslands í Brussel 25. apríl 1990. Þá höfðu hagsmunaaðilar innan EB vakið athygli hennar á sérstakri 5% gjaldtöku af reipainnflutningi. Í bréfinu er beðið um nánari upplýsingar varðandi þetta gjald og spurt hvort íslensk stjórnvöld teldu það samræmast skuldbindingum fríverslunarsamninganna. Utanríkisráðuneyti var sent erindið til umsagnar.
    Um miðjan júní var framkvæmdastjórn EB tekin að athuga mögulegar mótaðgerðir gegn íslenskum útflutningsafurðum. Fékk sendiráðið í Brussel þá fyrirmæli um að skýra út á hverju innheimta jöfnunargjalds hefði byggst, svo og að fyrirhugað væri að afnema það um næstu áramót. Var það gert með bréfi dags. 19. júní 1990. Í kjölfar breytingar þeirrar, sem gerð var 4. júlí 1990 á reglugerð fjármálaráðuneytisins nr. 344/10. júlí 1989, var framkvæmdastjórn síðan skrifað 6. júlí og henni tilkynnt að jöfnunargjald á reipum hefði verið fellt niður.
    Fyrir síðustu áramót var framkvæmdastjórn EB tilkynnt óformlega að í bígerð væri að framlengja lögin. Þá var framkvæmdastjórninni nýlega skrifað bréf þar sem skýrt er frá því að nauðsynlegt hafi verið, með vísan til viðvarandi uppsöfnunaráhrifa fastra fjármuna, að framlengja gildistíma laganna um eitt ár, sbr. greinargerð og útreikninga Þjóðhagsstofnunar. Jafnframt voru nýsamþykkt lög kynnt og sú skuldbinding, sem í þeim felst, að afnema jöfnunargjaldið við lok þessa árs. Engin viðbrögð hafa enn borist frá framkvæmdastjórn EB.