Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 321 . mál.


Nd.

566. Frumvarp til laga



um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     Lög um rétt til fiskveiða í landhelgi, nr. 33 19. júní 1922 .
     1. gr. laganna orðist svo:
                   Fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands mega einir stunda íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara.
     2. gr. laganna orðist svo:
                   Til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands má aðeins hafa íslenska báta eða skip, en íslenskir nefnast í lögum þessum þeir bátar eða skip sem skráð eru hér á landi.
     8. gr. og 11. gr. laganna falla niður.

2. gr.


     Lög um leiðsögu skipa, nr. 48 19. júní 1933 .
     Við 1. tölul. 3. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í að minnsta kosti eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

3. gr.


     Lög um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74 11. júní 1938 .
     Við 1. tölul. 2. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

4. gr.


     Lög um málflytjendur, nr. 61 4. júlí 1942.
     Við 4. tölul. 9. gr. og 4. tölul. 14. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í að minnsta kosti eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

5. gr.


     Lög um hvalveiðar, nr. 26 3. maí 1949 .
     2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna orðist svo: Slík leyfi má aðeins veita aðilum er fullnægja skilyrðum til að mega stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
     2. mgr. 1. gr. laganna falli niður.

6. gr.


     Lög um prentrétt, nr. 57 10. apríl 1956.
     1. mgr. 10. gr. laganna orðist svo:
     Útgefandi blaðs eða tímarits, sem gefið er út hér á landi, skal vera íslenskur ríkisborgari, fjárráða og með forræði á búi sínu og með lögheimili hér á landi, félag eða annar lögaðili sem á heimili hér á landi. Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

7. gr.


     Lög um loftferðir, nr. 34 21. maí 1964 .
     1. mgr. 7. gr. laganna orðist svo:
     Rétt er að skrásetja loftfar hér á landi í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskra lögaðila sem eiga heimili hér á landi. Réttur til skrásetningar loftfars er þó háður því að fullnægt sé skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

8. gr.


     Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19. 6. apríl 1966.
     1. gr. laganna orðist svo:
     Enginn má öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á landi hér, þar á meðal veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, hvort sem er fyrir frjálsa afhendingu eða nauðungarráðstöfun, hjúskap, erfðir eða afsal, nema þeim skilyrðum sé fullnægt sem nú skal greina:
     Ef einstakur maður er þá skal hann vera íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
     Ef fleiri menn eru með í félagi og ber hver fulla ábyrgð á skuldum félagsins þá skulu þeir allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
     Ef félag er og bera sumir fulla en sumir takmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins þá skulu þeir er fulla ábyrgð bera allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. kosti fimm ár.
     Ef félag er, þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins, eða stofnun þá skal félagið eða stofnunin eiga hér heimilisfang og varnarþing og stjórnendur allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár. Í hlutafélögum skulu 4 / 5 hlutar hlutafjár vera eign íslenskra ríkisborgara og íslenskir ríkisborgarar fara með meiri hluta atkvæða á hluthafafundum.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. 4. tölul. 1. mgr. er ráðherra heimilt að veita leyfi ef lögð eru fram gögn er sýna:
     Að um er að ræða leigu á fasteign eða réttindi yfir henni og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri eða uppsögn áskilin með eigi lengri en árs fyrirvara.
     Að um er að ræða aðila sem ekki fullnægir skilyrðum 1. 4. tölul. 1. mgr. en hefur rétt til þess að stunda atvinnurekstur hér á landi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til eigin nota og/eða til notkunar í atvinnustarfsemi sinni, enda fylgi henni einungis venjuleg lóðarréttindi, en ekki önnur réttindi, svo sem veiðiréttur eða vatnsréttindi.
     Leggja skal fyrir dómsmálaráðuneytið samninga, afsöl eða önnur heimildarskjöl vegna eignar - og afnotaréttinda erlendra aðila hér á landi og öðlast gerningurinn ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest hann með áritun sinni.


9. gr.


     Lög um verslunaratvinnu, nr. 41 2. maí 1968.
     Við 1. tölul. 4. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.
     5. gr. laganna orðist svo:
                   Félag eða annar lögaðili á rétt á verslunarleyfi eða endurnýjun verslunarleyfis, enda uppfylli framkvæmdastjórar og stjórnarmenn lögaðila og, sé um að ræða félag þar sem allir eða sumir félagsmanna bera fulla ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þeir félagsmanna, sem fulla ábyrgð bera á skuldbindingum félagsins, skilyrði 2. og 4. tölul. 4. gr. Þá skal einn stjórnarmanna og framkvæmdastjóri jafnframt fullnægja skilyrðum 3. tölul. 4. gr. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í skal enn fremur fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
                   Heimilt er ráðherra að veita undanþágu frá ríkisfangsskilyrði 1. tölul. 4. gr.

10. gr.


     Námulög, nr. 24 17. apríl 1973.
     10. gr. laganna orðist svo:
     Rétt er ráðherra að veita sérleyfi til leitar og vinnslu jarðefna hér á landi, enda sé fullnægt ákvæðum 7., 8. og 9. gr. laga þessara ef um einkaeign er að ræða. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í skal enn fremur fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

11. gr.


     Lög um sjúkraþjálfun, nr. 58 31. maí 1976 .
     Við 2. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

12. gr.


     Lög um iðjuþjálfun, nr. 75 31. desember 1977 .
     Við 2. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.


13. gr.


     Lög um hlutafélög, nr. 32 12. maí 1978.
    
2. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:
     Stofnendur hlutafélags skulu vera tveir hið fæsta. Meiri hluti stofnenda skal hafa haft heimilisfesti hér á landi í minnst eitt ár.

14. gr.


     Lög um lyfjafræðinga, nr. 35 11. maí 1978.
     Við 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

15. gr.


     Iðnaðarlög, nr. 42 18. maí 1978 .
     Við 1. tölul. 3. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.
     Síðari málsliður 6. tölul. 3. gr. laganna orðist þannig: Iðnaðarráðherra getur veitt undanþágur frá ríkisfangsskilyrði 1. tölul. og ákvæðum 4. og 5. tölul.
     4. gr. laganna orðist svo:
                   Nú vill félag eða annar lögaðili reka iðnað og getur þá slíkur lögaðili fengið til þess leyfi, enda uppfylli framkvæmdastjórar og stjórnarmenn lögaðila og, sé um að ræða félag þar sem allir eða sumir félagsmanna bera fulla ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þeir félagsmanna, sem fulla ábyrgð bera á skuldbindingum félagsins, skilyrði 2. 6. tölul. 3. gr. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila, sem erlendur aðili á hlut í, skal enn fremur fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

16. gr.


     Lög um vátryggingarstarfsemi, nr. 50 16. maí 1978.
     Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist: Enn fremur skal fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
     Við 2. mgr. 34. gr. laganna bætist: Sé um að ræða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í er leyfisveiting háð því að fullnægt sé þeim skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

17. gr.


     Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26 14. apríl 1982 .
     Upphaf 1. mgr. 9. gr. laganna orðist svo:
                   Útlendingi, sem átt hefur lögheimili hér á landi skemur en eitt ár, er óheimilt o.s.frv.
     1. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna orðist svo: Umsækjandi eigi lögheimili á Íslandi.

18. gr.


     Lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17 24. apríl 1984 .
     Aftan við 1. málsl. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður er verði 2. málsl. 2. gr., svohljóðandi: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.


19. gr.


     Lög um veitinga - og gististaði, nr. 67 28. júní 1985.
     1. og 2. mgr. 2. gr. laganna orðist svo:
     Til þess að öðlast leyfi samkvæmt lögum þessum þarf umsækjandi að:
     Eiga lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár.
     Vera fjárráða og hafa forræði á búi sínu.
     Leyfi samkvæmt lögum þessum má veita félagi eða öðrum lögaðila sem á heimili hér á landi, enda sé framkvæmdastjóri slíks lögaðila fjárráða og hafi forræði á búi sínu. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í er leyfisveiting þó háð því að fullnægt sé þeim skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

20. gr.


     Útvarpslög, nr. 68 27. júní 1985.
     2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna orðist svo: Um heimildir erlends aðila eða íslensks lögaðila, sem erlendur aðili á hlut í til að reka útvarpsstöð, fer samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

21. gr.


     Lög um skipulag ferðamála, nr. 79 2. júlí 1985, sbr. lög nr. 59/1988.
     1. mgr. 15. gr. laganna orðist svo:
                   Skilyrði til að geta öðlast leyfi til reksturs ferðaskrifstofu er að leyfishafi uppfylli eftirtalin skilyrði:
              a.      Eigi lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár.
              b.      Sé fjárráða og hafi forræði á búi sínu.
     3. mgr. 15. gr. laganna orðist svo:
                   Leyfi má veita félagi eða öðrum lögaðila sem á heimili hér á landi, enda sé framkvæmdastjóri slíks lögaðila fjárráða og hafi forræði á búi sínu. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í er leyfisveiting þó háð því að fullnægt sé skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

22. gr.


     Lög um viðskiptabanka, nr. 86 4. júlí 1985.
     Í stað 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna komi tveir málsliðir, svohljóðandi:
     Hlutafé í hlutafélagsbanka skal skiptast í a.m.k. 50 hluti og nema minnst 100.000.000 kr. Um heimildir erlends aðila til að eiga hlut í hlutafélagsbanka fer samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

23. gr.


     Lög um sparisjóði, nr. 87 4. júlí 1985.
     Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

24. gr.


     Lög um skráningu skipa, nr. 115 31. desember 1985 .
     1. gr. laganna orðist svo:
     Skráningarskylt eftir lögum þessum er sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra, mælt milli stafna. Rétt er að skrá skip hér á landi þegar íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi, eiga það. Til fiskveiða hér á landi má aðeins skrá skip og báta sem eru í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi.

25. gr.


     Lög um fasteigna - og skipasölu, nr. 34 5. maí 1986 .
     Við 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

26. gr.


     Lög um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, nr. 20 4. apríl 1989 .
     Við 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: Ríkisborgari frá ríki utan Norðurlanda, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um norrænt ríkisfang.

27. gr.


     Lög um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, nr. 123 28. desember 1989 .
     2. gr. laganna orðist svo:
     Leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar má einungis veita aðilum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
     hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga lögheimili hér á landi; erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang,
     eru fjárráða,
     hafa forræði á búi sínu.
     Enn fremur má veita hlutafélögum eða öðrum lögaðilum, sem eiga heimili hér á landi, leyfi til reksturs, enda uppfylli stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lögaðila skilyrði b - og c - liða 1. mgr. hér að framan. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í skal auk þess fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

28. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
     Breytingar þessa frumvarps miða allar að því að rýmka ákvæði gildandi laga hvað snertir fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri í samræmi við meginreglur í fyrrnefndu frumvarpi. Er í mörgum tilvikum vísað til aðalfrumvarpsins. Þá taka sumar breytingar til rýmkunar á starfsréttindum erlendra aðila hér á landi.
     Breytingum á einstökum lagaákvæðum er í frumvarpi þessu raðað upp í aldursröð laga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Vísað er til athugasemda við 1. og 2. tölul. 4. gr. frumvarps til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Um 2. 4. gr.


     Erlendur ríkisborgari, sem er búsettur hér á landi, er ekki erlendur aðili í skilningi frumvarpsins um erlenda fjárfestingu. Því má segja að það falli í raun utan viðfangsefnisins að huga yfirleitt að því hvaða reglur gildi um heimildir erlendra ríkisborgara, sem hér eru búsettir, til þess að stunda atvinnustarfsemi hér á landi. Á móti kemur að þar sem búseta, en ekki ríkisfang, er samkvæmt frumvarpinu lögð til grundvallar varðandi skilgreiningu á því hvort einstaklingur telst erlendur aðili eða ekki væri rökrétt að einstaklingar, sem búsettir eru hér á landi, sætu að því er varðar rétt til að stunda atvinnustarfsemi hér á landi við sama borð óháð ríkisfangi. Þessu er þó í reynd mjög misjafnlega háttað. Stundum er íslenskur ríkisborgararéttur einstaklings óundanþægt skilyrði fyrir því að hann megi stunda tiltekna atvinnustarfsemi þótt hún sé ekki háð leyfi eða skilyrði fyrir því að hann geti fengið löggildingu eða leyfi til að stunda viðkomandi starfsemi. Í öðrum tilvikum er krafist íslensks ríkisfangs, en það skilyrði samt undanþægt, sbr. t.d. skilyrði fyrir iðnaðarleyfi og verslunarleyfi. Loks er um að ræða ýmis svið þar sem það er ekki skilyrði fyrir rétti til sjálfstæðra starfa eða starfrækslu að viðkomandi einstaklingur eða leyfishafi sé íslenskur ríkisborgari. Nefna má leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, leyfi til reksturs veitinga - eða gististaðar og skilyrði til að starfa sem læknir, tannlæknir, verkfræðingur, tæknifræðingur, löggiltur endurskoðandi og sálfræðingur.
     Í þessu frumvarpi er hvorki lagt til að ríkisfangsskilyrði verði afnumin í þeim fjölmörgu lögum þar sem þau er nú að finna né lagt til að þau verði tekin upp þar sem þau eru ekki gerð, enda má vera að misræmi það sem nú ríkir styðjist stundum við gild sjónarmið. En í 2. 4., 6., 9., 11., 12., 13., 14., 15., 17., 18., 19., 21., 23., 25., 26. og 27. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að við þau lög, sem þar eru greind, bætist ákvæði þess efnis að erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi samkvæmt skilgreiningu laga um lögheimili, nr. 21 5. maí 1990, og hefur átt það í a.m.k. eitt ár, skuli vera undanþeginn skilyrði því um íslenskt ríkisfang sem viðkomandi lög geyma ákvæði um. Þótt erlendur ríkisborgari, sem hér er búsettur, verði þannig í sumum tilvikum undanþeginn ríkisfangsskilyrði þarf hann að sjálfsögðu eftir sem áður að fullnægja öðrum lagaskilyrðum.

Um 5. gr.


     Hér er lagt til að samræmi verði komið á varðandi það hverjir stunda mega fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands annars vegar og hverjum veita megi leyfi samkvæmt lögum um hvalveiðar hins vegar.


Um 6. gr.


     Sú breyting, sem hér er lagt til að gerð verði á lögum um prentrétt, lýtur að því að undanþiggja erlendan ríkisborgara, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það í a.m.k. eitt ár, skilyrði fyrir íslensku ríkisfangi til að mega gefa út blað eða tímarit.

Um 7. gr.


     Lögð er til sú breyting að rétt til að skrásetja eigið loftfar hér á landi, sem íslenskt loftfar, hafa íslenskir ríkisborgarar með lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar sem eiga heimili hér á landi. Með heimili lögaðila er hér átt við að fyrirtæki sé skráð hérlendis og eigi hér varnarþing. Íslenskur lögaðili getur hins vegar verið í eigu erlendra aðila.
     Tekið er fram að réttur til skrásetningar loftfars hér á landi sé þó háður ákvörðun í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. aðalfrumvarpsins er eignaraðild erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stunda flugrekstur hér á landi bundin við 49% að hámarki. Loftfar í eigu erlends aðila, sem ætti meira en 49%, fengist því ekki skráð hérlendis.

Um 8. gr.


     Samkvæmt lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þarf sérstakt leyfi dómsmálaráðherra til þess að erlendir aðilar eða íslenskir lögaðilar með erlendri félagsaðild eða eignaraðild umfram tiltekið eignarhlutfall geti eignast eða fengið afnotarétt að fasteign. Þetta er afar óþjál og að mörgu leyti óeðlileg skipan þegar í hlut eiga aðilar sem rétt hafa til að stunda atvinnustarfsemi hér á landi og um er að ræða eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í viðkomandi atvinnustarfsemi.
     Hér er því lögð til sú breyting í fyrsta lagi að lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár nægi til þess að geta öðlast eignarrétt eða afnotarétt á fasteignum hér á landi. Er lögheimili hér á landi í samfelld fimm ár lagt að jöfnu við ríkisborgararétt í þessu efni. Í öðru lagi þarf ekki leyfi ráðherra þótt um sé að ræða aðila sem ekki fullnægir almennum skilyrðum 1. mgr. 1. gr. ef viðkomandi aðili hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á landi og um er að ræða eignarrétt eða afnotarétt á fasteign til eigin nota og eða til notkunar í atvinnustarfsemi sinni, enda fylgi fasteigninni einungis venjuleg lóðarréttindi. Eftir sem áður þarf leyfi dómsmálaráðherra til þess að framangreindur aðili geti eignast eða nýtt önnur fasteignaréttindi, svo sem vatns - og veiðiréttindi. Með venjulegum lóðarréttindum er átt við leigu - eða eignarlóðir sem opinberir aðilar (sveitarfélög) eða einkaaðilar láta af hendi undir húseignir til einkanota eða atvinnurekstrar.
     Þar sem rísa kunna álitamál um það hvenær fasteignaréttindi eru undanþegin leyfi á grundvelli þessa ákvæðis er kveðið svo á um að öll heimildarskjöl vegna eignar - og afnotaréttinda erlendra aðila hér á landi skuli lögð fyrir dómsmálaráðuneytið. Öðlast gerningur ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest hann með áritun sinni. Er þessi aðferð jafnframt nauðsynleg til þess að halda gott yfirlit um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi hvað fasteignir og réttindi þeim tengd varðar.
     Vísað er jafnframt til athugasemda við 9. tölul. 4. gr. aðalfrumvarpsins.

Um 9. gr.


     Hér er lagt til að á lögum um verslunaratvinnu verði gerðar breytingar sama efnis og lagt er til í 14. gr. að gerðar verði á iðnaðarlögum. Vísast til athugasemda við þá grein.

Um 10. gr.


     Hér er lagt til að heimild ráðherra til að veita erlendum aðila eða íslenskum lögaðila, sem erlendur aðili á hlut í, sérleyfi til leitar eða vinnslu jarðefna takmarkist einungis af ákvæðum laga um fjárfestingu erlendra aðila.

Um 11. 12. gr.


    Vísað er til athugasemda með 2. 4. gr.

Um 13. gr.


     Ákvæðið er samhljóða gildandi ákvæði að öðru leyti en því að eitt ár kemur í stað tveggja. Stytting lágmarkstíma er til samræmis við meginstefnu frumvarps þessa.

Um 14. gr.


     Vísað er til athugasemda með 2. 4. gr.

Um 15. gr.


     Lagt er til að á 3. gr. iðnaðarlaga verði annars vegar sú breyting að erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það í a.m.k. eitt ár, skuli undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang sem einstaklingur þarf að fullnægja til að geta fengið iðnaðarleyfi. Hins vegar að iðnaðarráðherra geti ekki lengur veitt einstaklingi, sem sækir um iðnaðarleyfi, undanþágu frá búsetuskilyrði. Síðari breytingin byggist á þeirri almennu stefnu frumvarpsins að erlendur einstaklingur, sem hér vill reka sjálfstæða einstaklingsatvinnustarfsemi, þurfi að eiga lögheimili hér á landi.
     Þá er lagt til að niður falli úr iðnaðarlögum ákvæði sem takmarka heimildir erlendra aðila eða íslenskra lögaðila með erlendri eignaraðild til fjárfestinga í iðnaði, en þess í stað verði í iðnaðarlögum vísað til ákvæða laga um fjárfestingu erlendra aðila. Af því leiðir að ekki verða settar neinar takmarkanir fyrir fram við erlendri fjárfestingu í iðnaði þótt slík fjárfesting kunni að sæta takmörkunum skv. 4. gr. aðalfrumvarpsins.

Um 16. gr.


     Hér er lagt til að í lög um vátryggingarstarfsemi bætist vísan til þeirra skilyrða í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Um 17. gr.


     Samkvæmt 9. gr. laga nr. 26/1982, um atvinnuréttindi útlendinga, er útlendingi óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja atvinnufyrirtæki án leyfis félagsmálaráðherra (atvinnurekstrarleyfi), nema þar sem starfinn er framkvæmdur samkvæmt sérstakri löggildingu eða leyfi annarra stjórnvalda lögum samkvæmt. Í a - lið 8. tölul. 4. gr. meginfrumvarpsins segir að leyfi viðskiptaráðherra þurfi til þess að einstaklingur, sem búsettur er erlendis, megi vinna hér sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki. Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að áskilnaður 9. gr. laga nr. 26/1982 um leyfi frá félagsmálaráðherra takmarkist við þá útlendinga, þ.e. erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili hér á landi í minna en eitt ár. Viðskiptaráðherra fer þá með slík mál einstaklinga sem búsettir eru erlendis, nema veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði sé falin öðrum, enda eiga þau mál fremur skylt við erlenda fjárfestingu.

Um 18. gr.


     Vísað er til athugasemda með 2. 4. gr.

Um 19. gr.


     Hér er lagt til að á lögum nr. 67/1985, um veitinga - og gististaði, verði gerðar sams konar breytingar og á lögum um skipulag ferðamála, sbr. 21. gr. Vísast til athugasemda með þeirri grein.

Um 20. gr.


     Hér er lagt til að niður falli úr útvarpslögum efnisregla varðandi það að heimila erlenda fjárfestingu í útvarpsrekstri hér á landi, en þess í stað sé í útvarpslögum vísað til ákvæða laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi.

Um 21. gr.


     Samkvæmt lögum nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, má veita íslensku félagi eða fyrirtæki leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, enda sé stjórnin innlend. Ekkert virðist því til fyrirstöðu að veita megi íslensku atvinnufyrirtæki leyfi þótt erlendir aðilar eigi þar meiri hluta. Hins vegar leyfa lögin ekki að erlendum aðila sé veitt leyfi til reksturs ferðaskrifstofu í eigin nafni.
     Í 21. gr. frumvarpsins er lagt til að 15. gr. laga nr. 79/1985, sbr. 4. gr. laga nr. 59/1988, um skipulag ferðamála, breytist á þá lund að heimilt verði að veita hvort heldur erlendum aðila eða íslenskum lögaðila með erlendri eignaraðild leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, sé auk almennra skilyrða laganna um skipulag ferðamála fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila.
     Samkvæmt lögum nr. 79/1985 er það ekki skilyrði fyrir því að veita megi einstaklingi leyfi til reksturs ferðaskrifstofu að hann sé íslenskur ríkisborgari og er ekki gerð tillaga um breytingu þar á.

Um 22. gr.


     Hér er lagt til að úr viðskiptabankalögum falli ákvæði til takmörkunar á erlendri eignaraðild en þess í stað verði í lögunum vísað til ákvæða laga um fjárfestingu erlendra aðila. Vísast í því sambandi sérstaklega til athugasemda við 5. tölul. 4.gr. aðalfrumvarpsins.

Um 23. gr.


     Vísað er til athugasemda með 2. 4.gr.

Um 24. gr.


     Sama breyting er hér lögð til í 1. mgr. hvað varðar skráningu skipa og fram kemur í 7. gr. um skráingu loftfara.
     Tekið er skýrt fram í 2.mgr. að óheimilt er þó að skrá fiskiskip hér á landi, nema þau séu í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Eru þessi sjónarmið í samræmi við þær meginhugmyndir sem fram koma í 1. tölul. 4. gr. aðalfrumvarps og 1. gr. þessa frumvarps.

Um 25. 26. gr.


     Vísað er til athugasemda með 2. 4. gr.



Um 27. gr.


     Hér er lagt til að á 2. gr. laga nr. 123/1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, verði nokkrar breytingar. Til þess að geta fengið leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar nægi að íslenskur ríkisborgari eigi lögheimili hér á landi. Í öðru lagi verður erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það í a.m.k. eitt ár, undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang og í þriðja og síðasta lagi má veita erlendum aðila eða íslenskum lögaðila með erlendri eignaraðild, en heimili hér á landi, leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar sé fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila.

Um 28. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.