Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 332 . mál.


Ed.

584. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Valgerður Sverrisdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðmundur Ágústsson,


Eiður Guðnason, Margrét Frímannsdóttir, Salome Þorkelsdóttir.



1. gr.


     Við 2. mgr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna bætist: Leigi skattaðili eigið íbúðarhúsnæði út og taki á leigu íbúðarhúsnæði í öðru byggðarlagi til eigin nota telst aðeins mismunur leigutekna og leigugjalda til tekna. Óheimilt er að flytja tap, sem þannig myndast, milli ára.

2. gr.


     Við 1. mgr. 106. gr. bætist: Komi í ljós við framtalsskil að skattaðili hefur greitt staðgreiðslu af tekjum sínum er skattstjóra þó óheimilt að beita álagi á þann hluta tekjuskattsstofns sem greitt hefur verið af.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Frumvarp þetta fjallar um tvö óskyld atriði tekjuskattslaga. Hið fyrra er flutt til að auðvelda fólki, sem áhuga hefur á, að flytjast í annan landshluta um óákveðinn tíma án þess að hafa tekið ákvörðun um að flytja aðsetur sitt endanlega og selja íbúðarhúsnæði sitt. Samkvæmt lögunum eru leigutekjur skattskyldar án tillits til þess hvort viðkomandi greiðir leigugjöld. Ótal dæmi eru um að ungt fólk af Reykjavíkursvæðinu, sem hefur viljað reyna fyrir sér á landsbyggðinni, hefur hætt við þegar það hefur áttað sig á þessum einkennilegu reglum skattalaga.
    Þá er í 2. gr. lagt til að breyta ákvæðum 1. mgr. 106. gr. vegna þess óréttlætis sem viðgengst samkvæmt núgildandi skattalögum í þeim tilfellum þegar hjón telja fram sameiginlega og annar aðilinn er með einhvers konar rekstur á sínum vegum en makinn starfar hjá opinberum aðilum. Telji hjónin ekki fram til skatts innan tilskilins frests má skattstjóri bæta 25% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar þrátt fyrir það að annar aðilinn sé í skilum samkvæmt staðgreiðsluskatti. Eðlilegt hlýtur að vera að álagi í slíkum tilfellum sé einungis beitt gagnvart þeim aðila sem ekki er í skilum.