Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 360 . mál.


Sþ.

630. Beiðni um

skýrslu


frá utanríkisráðherra varðandi stöðu samningaviðræðna Fríverslunarsamtakanna (EFTA) og Evrópubandalagsins (EB) og væntanlega aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá Þorsteini Pálssyni, Ólafi G. Einarssyni, Halldóri Blöndal,


Eyjólfi Konráð Jónssyni, Geir H. Haarde, Kristni Péturssyni,


Pálma Jónssyni, Eggert Haukdal, Inga Birni Albertssyni,


Ragnhildi Helgadóttur og Matthíasi Á. Mathiesen.



    Með tilvísun til 30. gr. þingskapa óskum við undirritaðir alþingismenn eftir því að utanríkisráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu samningaviðræðna EFTA og EB og væntanlega aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og löggjöfinni um innri markað EB.
    Þess er óskað að skýrslan skýri stöðu samninganna í heild, mikilvægustu efnisatriði og breytingar er þau hafa í för með sér.
    Sérstaklega er farið fram á að í skýrslunni verði gerð grein fyrir eftirfarandi atriðum:
     Verkefnum og valdsviði sjálfstæðrar EFTA - stofnunar, til að beita samkeppnisreglum, sem á að hafa samsvarandi umboð og hlutverk og framvæmdastjórn EB.
     Úrskurðaraðilum og dómsvaldi að því er varðar ágreiningsefni.
     Hvernig atriði í 1. og 2. lið samrýmast yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að hafna alfarið hvers kyns yfirþjóðlegu valdi, sbr. yfirlýsingu forsætisráðherra á leiðtogafundi EFTA 14. og 15. mars 1989 og bókun Alþýðubandalagsins, dags. 29. nóvember 1989.
     Hvernig ákvarðanir um nýjar lagareglur er gilda eiga fyrir Evrópska efnahagssvæðið verða teknar og hver verði atbeini Alþingis þar að lútandi.
     Stöðu mála að því er varðar hindrunarlausan útflutning á íslenskum sjávarafurðum til EB - landa.
     Reglum um fjárfestingu í sjávarútvegi og fasteignum, svo sem landareignum, þar með talin yfirráð yfir fersku vatni.
     Reglum um rétt útlendinga til að stofna og reka banka á Íslandi.
     Áformum um samningslok og með hvaða hætti málið í heild eða einstakir þættir þess verða lagðir fyrir Alþingi.
    Að því er varðar 6. og 7. lið er óskað eftir að afstaða einstakra ríkisstjórnarflokka komi fram.
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi svo fljótt sem verða má.

Alþingi, 12. febr. 1991.



Þorsteinn Pálsson.

Ólafur G. Einarsson.

Halldór Blöndal.


Ey. Kon. Jónsson.

Geir H. Haarde.

Kristinn Pétursson.


Pálmi Jónsson.

Eggert Haukdal.

Ingi Björn Albertsson.


Ragnhildur Helgadóttir.

Matthías Á. Mathiesen.




    Til forseta sameinaðs Alþingis, Alþingi.