Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 372 . mál.


Sþ.

652. Tillaga til þingsályktunar



um viðbrögð Íslendinga gegn styrjöldinni við Persaflóa.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir, Sigrún Helgadóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að samið verði um vopnahlé í styrjöldinni við Persaflóa og efnt til ráðstefnu um málefni þjóðanna í Miðausturlöndum hið bráðasta.

Greinargerð.


    Í 1. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna segir:
    „Markmið hinna Sameinuðu þjóða er:
    1. að varðveita heimsfrið og öryggi og gera í því skyni virkar, sameiginlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir og eyða hættu á friðrofi og til að bæla niður árásaraðgerðir eða friðrof og til að á friðsamlegan hátt og í samræmi við grundvallarreglur réttvísi og þjóðarréttar koma á sættum eða lausn milliríkjadeilumála eða ástands sem leiða kann til friðrofs.“
    Sífellt fleirum verður það ljóst að vandinn í Miðausturlöndum verður ekki leystur með vopnavaldi heldur með því að setjast að samningaborði. Styrjöldin hefur þegar leitt dauða og hörmungar yfir fjölda óbreyttra borgara, saklaust fólk sem á enga sök á styrjöldinni og vill lifa í friði.
    Krafan um frið í Miðausturlöndum hefur fundið vaxandi hljómgrunn meðal Íslendinga eins og annarra þjóða. Það yrði öllum til heilla að látið yrði af styrjaldarrekstri og sest við samningaborðið til að leysa hin viðkvæmu deilumál í Miðausturlöndum. Í hópi beggja styrjaldaraðila má heyra kröfur um að nauðsynlegt sé að setjast að samningaborðinu í stað þess að halda áfram stríði sem kostar miklar fórnir og ekki sér fyrir endann á.
    Hlutverk smáþjóða á alþjóðavettvangi er ekki síst að eiga frumkvæði að og fylgja eftir hugmyndum sem horfa til friðar, réttlætis og samkomulags. Íslendingar hafa talið sig eiga skyldum að gegna í þessum efnum og tekið skýrt frumkvæði á alþjóðavettvangi í málefnum Litáens.
    Öryggi og friði í heiminum verður best borgið með því að hætta stríðsrekstri við Persaflóa nú þegar og hefja raunhæfar samningaviðræður milli hinna stríðandi þjóða. Íslendingum ber að vinna að því að svo verði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og því hlutverki verða stjórnvöld að sinna tafarlaust.