Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 392 . mál.


Sþ.

705. Tillaga til þingsályktunar



um gerð staðfræðikorta, gróðurkorta og um landfræðilegt upplýsingakerfi.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



     Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir samstarfi stofnana og fyrirtækja, sem annast landmælingar og kortagerð, um að gerð verði stafræn staðfræðikort í mælikvarða 1:25 000 af öllu landinu á næstu 10 árum og hlutast til um að gróðurkortagerð af landinu verði lokið á þeim tíma.
     Jafnframt verði komið á fót samræmdu landfræðilegu upplýsingakerfi sem byggt verði á staðfræðikortum af landinu og gagnasöfnun þeirra stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja sem nota staðbundin gögn.
     Áður en ráðist verður í þetta verk verði unnið að tilraunaverkefni í því skyni að ljúka forvinnu og komið á nauðsynlegri samvinnu aðila og samið um skiptingu kostnaðar milli þeirra.
     Miða skal við að tilraunaverkefninu verði lokið fyrir árslok 1992.


Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Í lögum nr. 47/1990, um verkefni umhverfisráðuneytis, og reglugerð nr. 96 frá 7. júní 1990, er gert ráð fyrir að ráðuneytið fari m.a. með mál er varða gróðurvernd, gerð landnýtingaráætlana, landmælingar og skipulagsmál. Í september 1990 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að undirbúa áætlun um að ljúka gerð staðfræðikorta og gróðurkorta fyrir allt landið og semja tillögu til þingsályktunar um sama efni. Í nefndina voru skipaðir Jón Gunnar Ottóson, umhverfisráðuneyti, formaður nefndarinnar, Ágúst Guðmundsson, Landmælingum Íslands, Gylfi Már Guðbergsson, Háskóla Íslands, Ingvi Þorsteinsson, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, og Stefán Thors, Skipulagi ríkisins. Ragnar Jón Gunnarsson frá Skipulagi ríkisins tók fljótlega sæti Stefáns Thors að ósk Stefáns. Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands var starfsmaður nefndarinnar og ritari á fundum hennar. Guðmundur Guðjónsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sat marga fundi nefndarinnar og tók þátt í störfum hennar.
     Sérstaklega var óskað eftir því að nefndin fjallaði um eftirfarandi atriði:
     1. Möguleika á að ljúka gerð gróðurkorta fyrir allt landið á fáum árum, þannig að þau verði á tölvutæku, stafrænu formi og falli að samræmdu kerfi Landmælinga Íslands.
     2. Hvernig megi ljúka gerð staðlaðra grunnkorta (staðfræðikorta) á tölvutæku, stafrænu formi fyrir landið allt. Miðað skal við að grunnkortin nýtist sem landfræðilegur grunnur fyrir samræmda kortagerð á vegum ríkisins.
     3. Tillögu um heildarstefnu varðandi skipulag kortagerðar á vegum stofnana ríkisins, miðað við kortagrunn á stöðluðu formi í mælikvarða 1:25 000.

     Nefndinni var ekki afmarkaður starfstími, en óskað var eftir að hún hraðaði störfum svo að málið gæti fengið þinglega meðferð á haustþingi. Snemma kom þó í ljós að verkefni nefndarinnar var mun umfangsmeira en ráð var fyrir gert og var þá í samráði við ráðuneytið ákveðið að nefndin lyki störfum í lok janúar 1991.
     Nefndin fjallaði um alla þrjá þættina, sem tilgreindir voru í skipunarbréfi, og um nauðsyn þess að koma á fót landfræðilegu upplýsingakerfi í tengslum við kortagerðina. Farið var yfir stöðu kortamála hér á landi og vitneskju aflað um fyrri tilraunir til að greiða úr þessum málum. Áhersla var lögð á að gera áætlun um kortagerð og gagnavinnslu sem tæki mið af þróun undanfarinna ára í tölvumálum og kortagerð. Nefndin hafði samband við flestar opinberar stofnanir sem stunda kortagerð eða landmælingar. Guðmundur Björnsson hjá verkfræðistofunni Hnit, Örn Arnar Ingólfsson hjá Ísgraf og Kolbeinn Árnason hjá upplýsinga - og merkjafræðistofu Háskóla Íslands voru kvaddir á fund nefndarinnar og veittu þeir margvíslegar upplýsingar.

Helstu atriði tillögunnar.


    
Nefndin skilaði tillögu um gerð staðfræðikorta, gróðurkorta og um landfræðilegt upplýsingakerfi til umhverfisráðherra 4. febrúar 1991 ásamt ítarlegri greinargerð sem hér er birt í heild sem fylgiskjal. Í greinargerðinni er farið yfir stöðu þessara mála hér á landi og tillaga gerð um stefnumörkun til næstu ára. Full samstaða tókst um álit nefndarinnar.
     Til að ná þeim markmiðum, sem sett eru fram í tillögunni sem hér er flutt, leggur nefndin til að eftirfarandi aðgerðum verði beitt:

1.      Unnið verði tilraunaverkefni í því skyni að ljúka forvinnu og koma á nauðsynlegri samvinnu stofnana og skal því lokið fyrir árslok 1992.
     Verkefnið felst í því að gerð verða nokkur stafræn staðfræðikort og gróður - og jarðakort með þeirri tækni sem notuð verður við kortagerð og gagnasöfn á næstu árum, og að undirbúa uppbyggingu landfræðilegs gagnasafns. Áhersla verði lögð á eftirfarandi atriði:

Staðfræðikort.
     Að kanna kröfur og þarfir stofnana og annarra notenda.
     Að ljúka við gerð kortastaðals.
     Að hanna gagnagrunn kortanna.
     Að safna og meta eldri mæligögn af svæðinu.
     Að þróa vinnuaðferðir við gerð stafrænna korta.

Gróður - og jarðakort.
     Að nota staðfræðikortin sem grunn fyrir kortagerðina.
     Að kanna þarfir notenda.
     Að laga kortastaðal að stafrænni vinnslu gagna.
     Að samræma gróður - og landgreiningu þannig að hún nýtist við gerð staðfræðikortanna.
     Að hanna stafrænan gagnagrunn kortanna.
     Að endurskoða eldri kort og vinna að því að koma þeim á stafrænt form.

Landfræðilegt upplýsingakerfi.
     Að koma á samstarfi stofnana og fyrirtækja sem vinna með staðbundin gögn.
     Að kanna stöðu í uppbyggingu gagnasafna hér á landi.
     Að kanna þarfir notenda.
     Að staðla frumskráningu og notkun greinitalna.
     Að þróa vinnuaðferðir.

2.      Unnið verði að endurskoðun og endurbótum á þríhyrninga - og hæðarkerfi, þannig að tryggt verði að það uppfylli kröfur um nákvæmni fyrir kortagerð í mælikvarða 1:5 000 og fyrir mælingar vegna verklegra framkvæmda.
     Áhersla verði lögð á eftirfarandi atriði:

     Að byggja upp mælistöðvar.
     Að mæla fyrir hæðar - og staðsetningarneti.
     Að ganga frá merkjum fyrir loftmyndaflug.

3.      Gerð verði nákvæm verk - og kostnaðaráætlun fyrir kortagerðina samhliða endurskoðun á hæðar - og staðsetningarkerfi og vinnu við tilraunaverkefni. Miða skal við verklok árið 2000.

Staðfræðikort.


     Þörf er á staðfræðikortum af landinu í mælikvarða 1:25 000 er knýjandi. Þeir fjölmörgu aðilar, sem vinna við og nota kort af Íslandi, eru á einu máli um nauðsyn þess að samræma kortagerðina og byggja hana upp á stafrænum grunni. Þetta kom m.a. í ljós í svörum þeirra fjölmörgu stofnana sem nefndin hafði samband við. Fram að þessu hefur orðið að treysta á framtak erlendra aðila við gerð staðfræðikorta af landinu, en kort þeirra fullnægja alls ekki þeim nákvæmniskröfum sem nú eru gerðar til grunngagna fyrir áætlanagerð og skipulagsvinnu. Íslendingar hafa ekki nema að litlu leyti borið kostnað af gerð þessara staðfræðikorta og þar af leiðandi ekki haft nægjanleg mótandi áhrif á gerð þeirra.
     Staðfræðikort, sem unnin yrðu eftir samræmdum reglum og uppfylltu kröfur um nákvæmni, hefðu verulegan sparnað í för með sér fyrir þjóðfélagið í heild. Eins og nú er ástatt er erfitt að samnýta gögn frá aðilum sem sinna mælingum og kortagerð, t.d. frá Vegagerð ríkisins, Landsvirkjun, Orkustofnun og Pósti - og símamálastofnun, vegna þess að samræmdan grunn vantar. Stofnanirnar nota t.d. ólíkan grunn í hæð og legu sem gerir það að verkum að gögn einnar stofnunar koma öðrum ekki að notum. Nýting á fjármagni er því slæm á þessu sviði. Hér er um mikla fjármuni að ræða þar sem áætlað hefur verið að stofnanir ríkisins verji núna um 600 til 800 milljónum króna árlega til mælinga og kortagerðar, og því til mikils að vinna að ná fram aukinni hagkvæmni, ekki síður fyrir sveitarfélög en stofnanir ríkisins.
     Stafræn kortagerð er á frumstigi á Íslandi, en nokkrar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki eru að þreifa fyrir sér á þessu sviði. Þar má t.d. nefna Norrænu eldfjallastöðina, Raunvísindastofnun Háskólans, Landsvirkjun, Skipulag ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og verkfræðistofuna Hnit. Kort framtíðarinnar verða stafræn og það er ljóst að í óefni stefnir ef stjórnvöld hefjast ekki fljótlega handa um að samræma kortagerðina alla og miða þar við stafræn kort. Þeir aðilar, sem mest þurfa á kortum að halda, munu þá fara hver í sína áttina. Gagnasöfnun og kortin verða þá áfram ósamstæð og ófullkomin og nýtast ekki heildinni. Kostnaður ríkisins af kortagerð, landmælingum, hönnunarvinnu og áætlanagerð yrði þar með margfaldur á við það sem vera þyrfti.
     Hæðar - og staðsetningarkerfi Landmælinga Íslands stenst ekki þær kröfur um nákvæmni sem gerðar eru í áætlana - og skipulagsgerð fyrir verklegar framkvæmdir. Opinberar stofnanir og sveitarfélög hafa yfirleitt neyðst til að nota staðbundin hnitakerfi bæði í hæð og legu vegna þess að kerfi Landmælinga Íslands fullnægir ekki þörfum þeirra. Nauðsynlegt er að endurskoða og bæta hæðar - og staðsetningarkerfið áður en ráðist er í gerð stafrænna staðfræðikorta. Einnig er nauðsynlegt að ljúka gerð kortastaðals sem nú er í vinnslu.
     Hér er lagt til að allt landið verði kortlagt í mælikvarða 1:25 000 á næstu 10 árum og að kortin verði unnin á stafrænan hátt, þannig að þau nýtist sem grunnur fyrir sem flesta notendur. Enn þá skortir ýmsar forsendur fyrir nákvæmri verkáætlun um gerð kortanna. Áður en hafist verður handa um kortagerðina með verkáætlun sem nær til alls landsins þarf m.a. að endurskoða fastmerkjakerfið og meta hvernig best verði staðið að endurbótum á því, ljúka gerð kortastaðals, efla sjávarfallamælingar umhverfis landið og gera fallmælingar. Einnig verður að kanna þarfir og kröfur hinna ýmsu stofnana og annarra notenda, og hanna gagnagrunn kortanna í framhaldi af því. Kanna þarf og þróa vinnuaðferðir fyrir stafræna kortagerð og koma upp nauðsynlegum búnaði fyrir verkefnið.
     Lagt er til að ráðist verði í tilraunaverkefni í því skyni að ljúka þessari forvinnu og til að koma á nauðsynlegri samvinnu stofnana. Velja þarf eitt afmarkað svæði þar sem landslag er fjölbreytilegt og landnytjar margvíslegar, og gera þar nokkur stafræn staðfræðikort með þeirri tækni sem líklega verður notuð við kortagerð og hönnun gagnasafns í framtíðinni.
     Koma þarf strax á samstarfi stofnana um slíkt tilraunaverkefni á vegum umhverfisráðuneytis og miða við að niðurstöður úr því verði til taks í lok árs 1992. Í framhaldi af því verði gerð nákvæm áætlun um gerð stafrænna staðfræðikorta af landinu öllu fyrir aldamót, þar sem svæðum sé raðað í forgangsröð, og fjármagn tryggt til verksins.

Gróðurkort.


    
Gerð gróðurkorta af Íslandi hófst árið 1955. Meginmarkmiðið með þessari vinnu er að gefa út gróðurkort og afla tölulegrar vitneskju um útbreiðslu, eðli, ástand og framleiðslugetu gróðurlenda, m.a. til að ákvarða beitarþol landsins og til að skipuleggja gróðurvernd og aðra landnýtingu. Áður hafði ekki verið gerð heildarúttekt á gróðurfari og landgæðum á Íslandi, en fyrir hendi var mikil grunnþekking, m.a. á sviði grasafræði, sem var nauðsynleg forsenda þess að unnt væri að hefja þetta verk.
     Þegar gróðurkortagerðin hófst fyrir 35 árum ríkti mikil bjartsýni hjá þeim sem að verkinu stóðu um að unnt yrði að ljúka því á þremur til fjórum áratugum. Óvíða er gróður jafn illa farinn og óvíða er gróðureyðing jafn ör og á Íslandi. Af þeim sökum hefði mátt ætla að úttekt á þessari hnignandi auðlind yrði veitt brautargengi svo að unnt yrði að taka nýtingu landsins föstum tökum og færa til betra horfs. Á síðasta áratug hefur hins vegar hallað svo á ógæfuhliðina að málið er nánast komið í strand.
     Skortur á staðfræðikortum í mælikvarða 1:25 000 til að byggja gróðurkortin á hefur haft veruleg áhrif á gróðurkortagerðina. Vegna þess að ekki eru til grunn - eða staðfræðikort af landinu í þessum mælikvarða hafa ekki verið gerð nema fá gróðurkort af byggðum landsins. Af sömu sökum hefur ekki verið unnt að gefa út gróðurkort af ýmsum svæðum landsins þótt vettvangsvinnu væri lokið fyrir mörgum árum.
     Nú er búið að gefa út gróðurkort af u.þ.b. 40% landsins, en vegna skorts á góðum kortagrunni hefur ekki verið talið fært að gefa út öll þau kort sem útivinnu er lokið við. Enn er vettvangsvinnu ólokið á um 35 þús. ferkm lands, þar af eru um 80% í byggð.
     Hér er lagt til að gróðurkortagerð af landinu verði lokið fyrir næstu aldamót og að kortin verði unnin á stafrænan hátt, þannig að kortin verði aðgengilegri og notkun gagnanna verði fjölbreyttari en áður. Nauðsynlegt er að til séu staðfræðikort í mælikvarða 1:25 000 af þeim svæðum sem kortleggja á og þess vegna verður að samræma áætlanir um gerð staðfræðikortanna og gróðurkortanna. Áður en hafist verður handa um gerð stafrænna gróðurkorta með verkáætlun sem nær til allra svæða á landinu sem nú er ólokið þarf töluverða undirbúningsvinnu. Lagt er til að þessi vinna fari fram í tilraunaverkefni því sem ráðgert er fyrir gerð staðfræðikortanna til að koma á nauðsynlegri samvinnu og samnýtingu stofnana, og verði því lokið fyrir árslok 1992.

Landfræðilegt upplýsingakerfi.


    
Öflun og úrvinnsla staðbundinna upplýsinga er þegar snar þáttur í þjóðfélaginu og fjölmargar stofnanir safna landfræðilegum gögnum og geyma þau þótt ekki séu þau aðgengileg á samræmdu formi. Verði gagnasöfn hinna ýmsu stofnana sem vinna með staðbundin gögn tengd saman verða gögnin aðgengilegri og nýtast fleirum en áður og betur. Uppbygging landfræðilegs upplýsingakerfis krefst stafrænna staðfræðikorta af landinu, eignakorta og samræmdra gagnasafna. Uppbygging landfræðilegra upplýsingakerfa er mjög skammt á veg komin hérlendis, og lítil samræming á þessu sviði enn sem komið er. Þó hafa nokkrir aðilar hafið uppbyggingu slíkra kerfa á ýmsum sérsviðum, og nokkrir þeirra komið sér upp þar til gerðum hugbúnaði. Þar á meðal eru Norræna eldfjallastöðin, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Skipulag ríkisins, Reykjavíkurborg, Póst - og símamálastofnun og Rafmagnsveitur ríkisins. Auk þeirra eiga margir aðilar umfangsmikil söfn landfræðilegra upplýsinga og má þar nefna Hagstofu Íslands, Búnaðarfélag Íslands, Fasteignamat ríkisins, Landsvirkjun, Orkustofnun, Raunvísindastofnun Háskólans, Vegagerð ríkisins, Landmælingar Íslands, Byggðastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og ýmsar aðrar rannsóknastofnanir.
     Þörf fyrir aðferðir til vinnslu staðbundinna gagna hefur vaxið með hverju ári á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins. Í náttúruvísindum er m.a. mikil þörf á ýmsum upplýsingum um gróður, jarðveg og veðurfar. Í umhverfismálum er þörf fyrir öflugt landfræðilegt upplýsingakerfi, ekki síst vegna forvarna og rannsókna á sviði mengunarmála. Í stjórnsýslu og vegna landnýtingar er mikil þörf fyrir upplýsingar um eignarmörk, stærð eigna og eignarlanda og nákvæma staðsetningu þeirra. Í skipulagi er þörf fyrir miklar staðbundnar upplýsingar vegna áætlanagerðar og ákvarðanatöku. Landfræðilegt upplýsingakerfi er forsenda fyrir góðri landnýtingaráætlun eigi hún að verða raunverulegur sáttmáli um ráðstöfun lands á sem flestum sviðum. Á tæknisviði þarf öflug upplýsingakerfi fyrir þjónustukerfin (lagnir, virkjanir, samgöngur o.s.frv.). Í viðskiptum eru markaðskannanir og upplýsingar um viðskiptamenn með einum eða öðrum hætti staðbundnar. Í fjölmiðlum eru upplýsingar birtar með tilvísun til staðfræði.
     Landfræðilegu upplýsingakerfi fylgja miklar breytingar á upplýsingaflæði á milli stofnana og ljóst er að jafnframt verða breytingar á stjórnskipulagi þeirra. Slíkar breytingar eru viðkvæmar og því er heppilegt að reyna að sjá þær fyrir og móta um þær stefnu. Hagkvæm uppbygging slíks kerfis hér á landi er því fyrst og fremst háð því að stjórnvöld móti skýra stefnu í upplýsingamálum. Uppbygging án heildarstefnu mun verða dýr og mikil hætta er á offjárfestingu og tvíverknaði í gagnaöflun og vinnslu.
     Hér er lagt til að komið verði á fót samræmdu landfræðilegu upplýsingakerfi á Íslandi. Stuðlað verði að samkomulagi og samstarfi um myndun landfræðilegs gagnasafns og vinnubrögð þeirra stofnana og fyrirtækja sem vinna með staðbundin gögn verði samræmd. Áður en hafist er handa um uppbyggingu þess þarf að gera nákvæma áætlun. Æskilegt er að samstarf komist á milli stofnana um tilraunaverkefni til þess að komast að göllum, skilgreina vandamál og gera úrbætur áður en lagt er í miklar fjárfestingar. Mikilvægur liður í þeirri vinnu yrði að gera nokkur stafræn kort með svipaðri tækni og verður notuð við kortagerð og hönnun gagnasafns í framtíðinni. Þetta yrði gert samhliða tilraunaverkefni um gerð stafrænna staðfræði - og gróðurkorta.


REPRÓ fskj.