Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 370 . mál.


Ed.

753. Breytingartillögur



við frv. til l. um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum.

Frá Skúla Alexanderssyni, Karvel Pálmasyni og Margréti Frímannsdóttur.



     Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                   Stofna skal deild innan Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins sem nefnist Viðlagasjóður loðnuútgerðar. Hlutverk viðlagasjóðsins er að bæta afkomu loðnuútgerðar vegna aflabrests, verðhruns á afurðum og þess háttar áfalla. Sjóðurinn er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum.
                   Útgerðir loðnuveiðiskipa skulu greiða í sjóðinn 2% af aflaverðmæti, en sjávarútvegsráðherra er heimilt að lækka greiðsluhlutfallið ef staða sjóðsins leyfir.
     Á eftir 1. gr. bætast við þrjár nýjar greinar er orðist svo:
         
    
     (2. gr.)
                        Greitt skal í Viðlagasjóð loðnuútgerðar við uppgjör loðnukaupanda við útgerð loðnuveiðiskips mánaðarlega og skulu greiðslur renna inn á viðlagareikning á nafni þeirrar útgerðar sem greiðir.
                        Verkendur loðnuafurða og lánastofnanir skulu innheimta greiðslur til sjóðsins skv. 1. mgr.
                        Stjórn Hagræðingarsjóðs ákveður hvenær greiða skuli úr Viðlagasjóði loðnuútgerðar.
         
    
     (3. gr.)
                        Innstæður á reikningum Viðlagasjóðs loðnuútgerðar teljast eign hans en eru bundnar við að bæta afkomu þeirrar útgerðar loðnuveiðiskips sem inneign myndaði. Sé félagi, sem á reikning í sjóðnum, slitið og það sameinað öðru félagi með þeim hætti að ákvæðum 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er fullnægt skal það félag er við tekur taka við rétti til afkomutryggingar af sérreikningi þess félags sem slitið var. Sé rekstur einstaklings, sem greitt hefur í sjóðinn, seldur er heimilt að kveða svo á að innstæða á sérreikningi hans í sjóðnum fylgi með í sölunni. Með sama hætti getur innstæða á nafni einstaklings flust yfir á félag sem myndað kann að verða um rekstur hans. Látist einstaklingur, sem greitt hefur í sjóðinn, taka erfingjar hans við öllum réttindum sem hinn látni hafði áunnið sér gagnvart sjóðnum uppfylli þeir ákvæði laga þessara, nema um skuldafrágöngubú sé að ræða.
                        Verði útgerð loðnuveiðiskips gjaldþrota eða sé félagi slitið án þess að ákvæði 1. mgr. eigi við skal innstæða á sérreikningi útgerðar renna inn í óskiptan reikning Viðlagasjóðs loðnuútgerðar. Sama á við ef útgerð hefur ekki haldið skipi til loðnuveiða í sex ár.
         
    
     (4. gr.)
                        Skylt er útgerðum loðnuveiðiskipa og verkendum loðnuafurða ásamt lánastofnunum að veita Viðlagasjóði loðnuútgerðar allar þær upplýsingar sem hann kann að leita eftir um kaupverð og annað það sem máli skiptir.
                        Greiðslur útgerða loðnuveiðiskipa í Viðlagasjóð loðnuútgerðar skulu koma til lækkunar á tekjum þeirra á því ári sem afli er seldur. Greiðslur úr sjóðnum til útgerða skulu færðar til tekna á því ári sem greitt er.
     Á eftir 2. gr. bætast við tvær nýjar greinar er orðist svo:
         
    
     (6. gr.)
                        Ríkissjóði er heimilt að ábyrgjast lán sem Viðlagasjóður loðnuútgerða tekur til að endurlána útgerðum loðnuveiðiskipa. Upphæð lánsins skal nema þeirri upphæð sem stjórn Hagræðingarsjóðs telur jafngilda markaðsverði 8.000 þorskígildislesta. Heimilt er að lána loðnuveiðiskipum af þessu láni sjóðsins í hlutfalli við aflahlutdeild skipanna af loðnu og hver afli þeirra af loðnu var á haustvertíðinni 1990. Stjórn Hagræðingarsjóðs ákveður lánstíma og lánskjör.
         
    
     (7. gr.)
                        Lokamálsliður ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, nr. 40 15. maí 1990, orðist svo: Aflaheimildum þessum skal varið til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er höllum fæti standa, sbr. 9. gr.
     Við 3. gr., er verði 8. gr., bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                   Sjávarútvegsráðherra skal haustið 1991 leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um Viðlagasjóð loðnuútgerðar.
     Fyrirsögn frv. orðist svo: Frv. til l. um viðauka við lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, nr. 40/1990, o.fl.