Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 437 . mál.


Nd.

793. Frumvarp til laga



um kynningu á íslenskri menningu.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     Markmið laga þessara er að stuðla að öflugri og skipulegri kynningu á íslenskri menningu erlendis. Í því skyni starfar skrifstofa er nefnist Miðstöð íslenskrar menningarkynningar.

2. gr.


     Meginhlutverk skrifstofunnar er að vinna að því að kynna erlendum aðilum íslenska menningu af öllu tagi.
     Verkefni skrifstofunnar eru:
     Að stuðla eins og fremst er kostur að samvinnu þeirra aðila sem annast kynningu á íslenskri menningu.
     Að annast upplýsingaþjónustu um íslenska menningu gagnvart erlendum aðilum.
     Að hafa frumkvæði að og annast skipulag og taka þátt í kynningu á íslenskri menningu erlendis.
     Skrifstofunni er heimilt að taka þátt í kynningu íslenskrar menningar hérlendis.

3. gr.


     Skrifstofa kynningar á íslenskri menningu lýtur yfirumsjón menntamálaráðuneytisins.
     Í stjórn skrifstofunnar eiga sæti þrír menn skipaðir af menntamálaráðherra til fjögurra ára í senn: Einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður en hinn skal vera frá fyrirtækjum og stofnunum sem fást við að flytja út íslenskt menningarefni. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Í tengslum við skrifstofuna skal starfa ráðgjafarhópur skipaður fulltrúum helstu listgreina í landinu.

4. gr.


     Menntamálaráðherra ræður framkvæmdastjóra skrifstofunnar til þriggja ára í senn með heimild til endurráðningar í önnur þrjú ár tvisvar sinnum. Framkvæmdastjórinn skal ráðinn að fengnum tillögum stjórnar skrifstofunnar.
     Framkvæmdastjóri ræður annað starfslið með samþykki stjórnar og eftir því sem fjárheimildir standa til.

5. gr.


     Tekjur skrifstofunnar eru:
     Framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
     Framlög sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.

6. gr.


     Skrifstofan skal hafa sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Hún skal vera undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarfélaga.

7. gr.


     Menntamálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

8. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem menntamálaráðherra skipaði í byrjun janúar 1991 og í áttu sæti Halldór Guðmundsson, tilnefndur af fjármálaráðherra, Jakob F. Magnússon, tilnefndur af utanríkisráðherra, Jón Sveinsson, tilnefndur af forsætisráðherra, og Guðrún Ágústsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðherra.
     Mikil ásókn hefur verið í kynningu á íslenskri menningu erlendis. Eftirspurnin erlendis frá hefur aukist og er margföld á við það sem unnt hefur verið að anna. Ljóst er að þennan mikla áhuga á íslenskri menningu erlendis má hagnýta betur en gert hefur verið og árangurinn þarf að festa í sessi. Kynning íslenskrar listar erlendis ætti að vera mikilvægur liður í öllum útflutningi landsmanna.
     Að undanförnu hefur hvað eftir annað verið efnt til kynningar íslenskrar menningar erlendis með góðum árangri. Samt skorir mjög á nauðsynlega samhæfingu á þessu sviði og tilviljun ræður oft miklu um hvernig til tekst. Þess vegna er æskilegt að stofnuð verði sérstök skrifstofa sem geti eflt samstarf þeirra aðila sem koma við sögu í kynningu á íslenskri list og menningu erlendis. Hlutverk skrifstofunnar yrði með öðrum orðum það að vera samtengjandi skipulagsaðili, svara fyrirspurnum og beiðnum um íslenska menningarkynningu erlendis frá og hafa frumkvæði að kynningu ískenskrar menningar erlendis.
     Lengi hafa verið til sérstök lög um útflutningsráð, en þar er ekki sérstaklega fjallað um menningarmál. Oft hefur verið rætt um það hvort menningarmálin eigi heima í sömu stofnun. Það hefur af ýmsum ástæðum ekki þótt ráðlegt. Ástæðan er aðallega sú að þeir aðilar, sem kynna vörur sínar á vegum Útflutningsráðs Íslands, fjármagna starfsemi þess með óbeinum og beinum hætti, en skrifstofa sem kynnir íslenska menningu erlendis hlýtur öðru fremur að fjármagnast af opinberum aðilum eðli málsins samkvæmt. Þó er í þessu frumvarpi eins og síðar kemur fram gert ráð fyrir því að skrifstofan geti safnað framlögum fyrirtækja til einstakra kynningarverkefna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    1. gr. fjallar um markmið laganna sem er að stuðla að öflugri og skipulegri kynningu á íslenskri menningu erlendis með stofnun skrifstofu sem einkum beitir sér fyrir því að kynna útlendingum íslenska menningu af öllu tagi.

Um 2. gr.


     Í greininni er lögð áhersla á það meginverkefni skrifstofunnar að vera samtengjandi skipulagsaðili fyrir þá sem kynna vilja íslenska menningu erlendis. Hér er skilgreint hvaða verkefni skrifstofan hefur á sínum höndum. Í 4. tölul. er einkum átt við kynningu á íslenskri menningu gagnvart útlendingum hér á landi, ferðamönnum, fræðimönnum og öðrum þeim sem áhuga kunna að hafa.

Um 3. gr.


     Í greininni er fjallað um stjórn skrifstofunnar. Í stjórninni eiga sæti:
     Fulltrúi samtaka listamanna.
     Fulltrúi frá aðilum sem fást við að flytja út íslenskt menningaefni, má þar nefna sem dæmi Listasafn Íslands, Listasöfn Reykjavíkur, Tónverkamiðstöðina, Félag íslenskra bókaútgefenda, Samtök hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra kvikmyndaframleiðenda o.fl.
     Fulltrúi menntamálaráðuneytis sem ber ábyrgð á þessari starfsemi.
     Með skipun ráðgjafarhóps myndast tengsl við allar helstu listgreinar og þar með listamenn í landinu. Ráðgjafarhópurinn getur verið til ráðuneytis um almenna stefnumótun varðandi kynningu á íslenskri list. Í reglugerð skal tilgreint hvaða samtök listamanna tilnefna fulltrúa í ráðgjafarhópinn. En nefna má í því sambandi Rithöfundasamband Íslands, Leiklistarráð, Tónskáldafélag Íslands, Félag íslenskra tónlistarmanna, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag tónskálda og textahöfunda, Arkitektafélag Íslands, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samband íslenskra myndlistarmanna.

Um 4. gr.


     Ætlast er til að stjórn miðstöðvarinnar geri tillögur um framkvæmdastjóra hennar sem ræður starfslið að öðru leyti samkvæmt ákvörðunum á fjárlögum hverju sinni.

Um 5. gr.


     Í 5. gr. er lögð áhersla á að skrifstofan geti auk fjárveitinga á fjárlögum beitt sér fyrir því að sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar eða félagasamtök leggi fram fé til verkefna á vegum skrifstofunnar eftir því sem þurfa þykir.
     Um mat á kostnaði vegna frumvarpsins er þetta að segja:
    Erfitt er að áætla kostnað í eitt skipti fyrir öll af framkvæmd þessa frumvarps. Kemur þar margt til. Fyrst auðvitað ákvarðanir Alþingis sjálfs með fjárveitingum hverju sinni. Á sl. ári var varið 20 millj. kr. til menningarkynningar af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir af ýmsum fjárlagaliðum menntamálaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir því að þeir fjármunir fari til skrifstofunnar. En í öðru lagi ræðst umfang starfseminnar af framlögum sem aðrir kunna að leggja til þeirrar starfsemi sem hér um ræðir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Það er því ekki hægt að halda því fram að frumvarpið, ef að lögum verður, hafi sjálfkrafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þvert á móti má reyndar ætla að þeir fjármunir, sem þegar fara til þessarar starfsemi, muni nýtast betur en verið hefur með því fyrirkomulagi sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir.

Um 6., 7. og 8. gr.


     Greinarnar þarfnast ekki skýringa.