Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 447 . mál.


Nd.

839. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.


     Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður svohljóðandi:
     Hljómleikahald hvers konar og annar lifandi flutningur á íslenskri tónlist, enn fremur hljóðritað íslenskt efni á hljómplötum, hljómböndum og hljómdiskum hvers konar.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Andinn á bak við virðisaukaskattinn er að íslensk menning skuli ekki skattlögð. Þess vegna er hinum ýmsu listgreinum haldið utan við þá skattheimtu og nú síðast bókagerð. En tónlistin varð ein eftir í fjölskyldu listanna og ber áfram fullan virðisaukaskatt. Hún fór í VASKINN. Tónlistin stendur því höllum fæti hér á landi og mun brátt dragast aftur úr öðrum listgreinum.
    Á sama tíma eru íslenskir tónlistarmenn að hasla sér völl í öðrum löndum og hafa hlotið lof fyrir. Íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt gildi íslenskrar tónlistar með því að styðja við útflutning hennar. Tónlistin er því um það bil að verða umtalsverð atvinnugrein og skapa þjóðarbúinu nokkurn gjaldeyri auk þess að kynna bæði land og þjóð.
    Þessum vaxtarbroddi er nú stefnt í voða með því að láta hann bera virðisaukaskatt einan allra listgreina. Fyrir bragðið er hætt við að tónlistin standist ekki öðrum listgreinum snúning og innlent tónlistarlíf rifi seglin, hæfileikafólk rói á önnur mið.
    En tónlistin er ekki bara atvinnugrein því að hún er fyrst og fremst listgrein. Engin önnur list á jafngreiða leið að íslenskum heimilum og íslenskri æsku. Þess vegna er mikið í húfi að vel sé til tónlistarinnar vandað og myndarlega að henni staðið. Lengi býr að fyrstu gerð.