Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 204 . mál.


Ed.

912. Nefndarálit



um frv. til l. um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Frá allsherjarnefnd.



         Frumvarpið er flutt í tengslum við frumvarp til stjórnsýslulaga, 203. mál þingsins, og var rætt samhliða því í nefndinni. Nefndin fékk á sinn fund Jón Sveinsson, aðstoðarmann forsætisráðherra, Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra, Eirík Tómasson hæstaréttarlögmann, Björn Þ. Guðmundsson prófessor, Lúðvík Geirsson, formann Blaðamannafélags Íslands, og Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð. Umsagnir bárust frá Blaðamannafélagi Íslands, Birni Þ. Guðmundssyni prófessor, umboðsmanni Alþingis, Sýslumannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, stjórnsýslunefnd, Páli Hreinssyni lögfræðingi, forsætisráðuneytinu og Þjóðskjalasafni Íslands. Auk þess sendi forsætisráðuneytið þær umsagnir sem nefndinni, er samdi frumvarpið, bárust.
    Nefndin telur brýnt hagsmunamál fyrir almenning að fá lög um aðgang að upplýsingum sem stjórnvöld hafa. Slíkar reglur auka án efa réttaröryggi í landinu og stuðla að vönduðum vinnubrögðum stjórnvalda.
    Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, eru til samræmis við þær breytingar sem meiri hl. nefndarinnar lagði til að gerðar yrðu á frumvarpi til stjórnsýslulaga og varða hugtakanotkun. Einnig er lagt til að gildistöku sé seinkað um hálft ár.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. mars 1991.



Guðmundur Ágústsson,


form., frsm.

Jóhann Einvarðsson,


fundaskr.

Skúli Alexandersson.


Valgerður Sverrisdóttir.

Ey. Kon. Jónsson.

Salome Þorkelsdóttir.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.