Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 376 . mál.


Sþ.

922. Nefndarálit



um till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1990.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og leggur til að hún verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Nefndin birtir sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 4. september 1990.

Alþingi, 12. mars 1991.



Jóhann Einvarðsson,


form., frsm.

Hjörleifur Guttormsson,


fundaskr.

Ey. Kon. Jónsson.


Ragnhildur Helgadóttir.

Guðmundur G. Þórarinsson.

Kristín Einarsdóttir.


Karl Steinar Guðnason.





Fylgiskjal.



VESTNORRÆNA ÞINGMANNARÁÐIÐ


Ályktanir ráðsins í Þórshöfn 4. september 1990.



I.


    Landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands kanni hvort grundvöllur er fyrir sameiginlegum samningaviðræðum um útflutning á fiskafurðum til landa Evrópubandalagsins.

II.


    Landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands vinni að því að komið verði á árlegum, skipulegum kennara- og nemendaskiptum á milli grunn- og framhaldsskóla í öllum aðildarlöndunum.

III.


    Ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hafi frumkvæði að samningu námsefnis um samfélagsaðstæður, menningu og lífsskilyrði í Færeyjum og á Grænlandi og Íslandi; námsefnið verði samið til notkunar í skólum landanna í því skyni að auka upplýsingar og gagnkvæma kynningu þeirra þjóða sem byggja þessi lönd.

IV.


    Vestnorrænu löndin meti möguleika á samningum sín á milli um gjaldalausar landanir svo að fiskiskip geti óheft selt afla sinn í löndunum þremur.

V.


    Vestnorrænu löndin hefji þegar viðræður um hvernig unnt sé með sameiginlegum aðgerðum að takmarka selastofninn svo að aftur náist vistfræðilegt jafnvægi í sjónum.

VI.


    Ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Grænlands og Færeyja hugleiði möguleika á samræmingu á reglum um æskulýðsferðir á Vestur-Norðurlöndum, hugsanlega með „Nordrejsekortet“ að fyrirmynd, og kanni einnig möguleika á að samræma þessar reglur reglunum um „Nordrejsekortet“; vísað er til ályktana nr. 2/86 og 3/87.

VII.


    Ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Grænlands og Færeyja hefji viðræður um að fjarskiptahljóðvarp og sjónvarpsnet landanna verði bætt svo að allir búi við sömu aðstæður í fjarskiptum.