Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að í þingflokki Framsfl. og í þingflokki Alþb. var flutt önnur lýsing á því sem fram fór milli forseta og formanna þingflokka heldur en hér hefur komið fram af hálfu formanns þingflokks Sjálfstfl. Ég tel það afar óheppilega byrjun á samstarfi þingflokka á þessu kjörtímabili og samstarfi þingflokka við forseta að þessari umræðu sé haldið áfram nú gegn óskum okkar. Ég setti hér fram formlega ósk um það að þessari umræðu yrði frestað og formenn þingflokkanna hefðu tækifæri til þess að ráða ráðum sínum um það hvernig yrði með framhaldið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lýst því að honum finnist hann settur í óþægilega stöðu. En hitt er aðalatriðið að kæmi það í ljós á morgun að formenn þingflokka Alþb. og Framsfl. teldu það réttan skilning sem hér hefur verið lýst, að það hafi verið gert eins konar samkomulag við þá og það hafi verið þeirra skilningur að þessari umræðu ætti að ljúka um miðnætti, þá hefur verið þvingað hér fram af hálfu ríkisstjórnarinnar framhald umræðnanna gegn þeim skilningi sem ríkti. Ég sé satt að segja ekki af hverju er þörf á því, virðulegi forseti, og bið þess vegna forseta að hugleiða það hvort ekki sé skynsamlegra að fresta umræðunni nú. Formenn þingflokka og forsetar hafa tækifæri til þess fyrir hádegi á morgun að skipuleggja næsta dag í samráði við þá ráðherra sem þurfa að þeirri umræðu að koma og aðra þingmenn. Ég teldi það satt að segja miklu farsælla framhald á þessu máli heldur en að þvinga fram það sem lýst var hér áðan.