Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:34:00 (3458)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég vísa á bug þessum ómerkilegu dylgjum og athugasemdum hæstv. forsrh. og var svo sem honum líkt að hlaupa inn í umræðurnar með þeim hætti sem hann gerði þegar hv. 8. þm. Reykn. á ekki kost á því að svara fyrir sig samkvæmt þingsköpum.
    Ég vil hins vegar aðeins vekja athygli á því líka, virðulegi forseti, að hér er um að ræða harla ófullkomið svar vegna þess að það kemur ekki fram hvernig auglýsingabirtingar Hvíta hússins eru. Meginliðurinn hér er skráður á Hvíta húsið upp á 62 millj. kr. Það kemur fram að birtingarkostnaður þar af er um 65%, væntanlega um 40 millj. kr. og ég trúi því að Morgunblaðið sé með um 25--30 millj. kr. af þeirri tölu. Það er óhjákvæmilegt að óska eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi hvernig þessar birtingar Hvíta hússins skiptast þannig að að komi skýrt fram gagnvart Alþingi Íslendinga og þjóðinni að Morgunblaðið er að sjálfsögðu langstærsti auglýsingamiðillinn í þessu sambandi. Það liggi því alveg skýrt fyrir og svari um leið þeim ósæmilegu dylgjum sem hv. 3. þm. Reykn. hefur ákveðið að efna til hér í dag.