Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:39:00 (3461)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þetta leikrit Sjálfstfl. hér í þingsalnum er satt að segja orðið mjög ómerkilegt. Og lengi skal manninn reyna, hæstv. forsrh. Að hæstv. forsrh. skuli taka þátt í þessu leikriti með svo ómerkilegum hætti sem hann gerði hér. Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstv. forsrh. en það kom greinilega hér fram. ( Gripið fram í: Hvað sagði ræðumaður?) Ég sagði: svona skítlegt eðli. ( Forseti: Ég bið hv. þm. að gæta orða sinna.)
    Hæstv. forsrh. gerði sér að erindi hér í ræðustólinn að koma því inn hjá þingheimi og þjóð að það væru einhver pólitísk tengsl og pólitísk afstaða að baki samninga fjmrn. við auglýsingastofuna Hvíta húsið. Hver er sannleikurinn í þessu máli? Það var ekki ég sem tók ákvarðanir um það að fela Hvíta húsinu þessi stóru verkefni sem hér koma fram á þessum tölum. Þegar ég kom í fjmrn. þá var þar samningur frá tíð fjmrh. Sjálfstfl. um að Hvíta húsið annaðist kynningar á auglýsingum vegna skattamála. Þegar síðan var ákveðið að efna til sérstakrar kynningarherferðar vegna virðisaukaskattsins var efnt til samkeppni og útboðs meðal auglýsingastofa og þær fengu að skila inn tillögum. Það var síðan ríkisskattstjóraembættið sem lagði það til að Hvíta húsið yrði ráðið. Það var gert. Eins og má ráða af þessum gögnum sem hér koma fram er hinn mikli auglýsingakostnaður Hvíta hússins vegna skattamála, vegna átaks í kynningu sjóðvéla í tengslum við betri innheimtu virðisaukaskatts 24 millj. Vegna kynningarstarfs um virðisaukaskatt um 29 millj., og vegna endurskoðunar atvinnurekstrarframtala og staðgreiðslu í skattamálum, tæpar 8 millj.
    Ég sakna þess nokkuð, hæstv. fjmrh., að það skyldi ekki vera birt sundurliðun á auglýsingakostnaði Hvíta hússins, sérstaklega vegna þess að það hefur orðið þingmönnum Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. tilefni til þeirra ómerkilegu aðdróttana sem þeir fluttu hér og m.a. fer hv. þm. Björn Bjarnason hér upp og les ákveðna tölu sem gildir um Morgunblaðið. Það er auðvitað alveg ljóst að inni í þessari 62 millj. kr. tölu Hvíta hússins er Morgunblaðið með einn stærsta hlut, eðlilega. Og það er þess vegna nauðsynlegt að þessi sundurliðun sé birt.
    Það var ekki pólitísk ákvörðun fjmrn. að ráða Hvíta húsið til þessara verka. Það var ákvörðun ríkisskattstjóraembættisins og átti rætur í samningum sem yfirmenn skattamála gerðu við auglýsingastofuna Hvíta húsið löngu áður en ég var fjmrh. Staðreyndin er nefnilega sú að ég réð enga nýja auglýsingastofu til þess að vinna verk fyrir fjmrn. meðan ég var fjmrh. Þær auglýsingastofur sem unnu verkefni á vegum fjmrn., bæði þessi og sú sem vann að kynningu á spariskírteinum ríkisins, voru þær sömu og unnu þau verk áður en ég var fjmrh. Það er staðreynd málsins.
    Það kemur jafnframt fram í þessum gögnum að þeim litla hluta, og ég segi það, þeim litla hluta af auglýsingastarfsemi, sem ákveðinn var af fjmrn. sjálfu og nemur aðeins mjög litlum upphæðum samanborið við það sem ákveðið var í tengslum við skattamálin, var varið vítt og breitt til fjölmargra aðila, flestra þeirra ópólitískra eins og hér kemur fram á þessum lista.
    Vegna þess að hæstv. forsrh. var svo ósmekklegur að fara að blanda kosningaáróðri Alþb. og vinnu okkar í kosningabaráttunni inn í þetta mál, þá skal ég segja hæstv. forsrh. það, því að það er ekkert leyndarmál, að Alþb. greiddi Hvíta húsinu 6 millj. kr. fyrir þá vinnu sem það vann fyrir flokkinn í tengslum við kosningarnar. Þá tölu getur hæstv. forsrh. fengið staðfesta hvar sem hann vill.
    Við skulum ekki í samskiptum okkar hér í þinginu fara að temja okkur jafnódrengilegar athugasemdir í garð hvers annars eins og komu hér fram hjá hæstv. forsrh. áðan.