Lánsviðskipti

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:42:00 (3557)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Það er orðið alllangt síðan ég lagði þetta frv. fram. Þetta er annað skiptið sem ég legg það fram. Ég mæli fyrir frv. til laga um grundvöll lánsviðskipta, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna og fleira. Flm. ásamt mér eru aðrar þingkonur Kvennalistans.
    Frv. er tvíþætt. Annars vegar felur það í sér þá sjálfsögðu kröfu að viðskiptatraust lántakanda og þær tryggingar sem hann getur sjálfur lagt fram eigi að vera undirstaða lánsviðskipta lánastofnunar og lántakanda eins og segir í 1. gr. frv. Í þeirri grein er einnig kveðið á um að greiðsluáætlun skuli vera grundvöllur þessara lánsviðskipta í stað þess að krafist sé, eins og nú er jafnan, ábyrgðarmanna eða veðs. Þótt frv. láti ekki mikið yfir sér mundi það fela í sér veigamiklar breytingar, ef að lögum verður, á lánsviðskiptum hér á landi. Á Íslandi er lánsviðskiptum lánastofnana og einstaklinga þannig háttað að oft er ekki spurt um greiðslugetu eða greiðsluáætlanir heldur hvort hægt sé að útvega ábyrgðarmenn eða veð. Þetta eru ekki heilbrigðir viðskiptahættir að mínu mati og hlýtur því að vera meira en tímabært að taka upp nýja siði.
    Í annan stað felst í frv. að sá sem lánar öðrum veð, eins og mjög oft tíðkast vegna þeirra hátta sem nú eru á viðskiptum einstaklinga við lánastofnanir, hefur nú meiri möguleika á að fylgjast með fjárhag þess sem lánið fær og því hvernig greitt er af lánum. En því miður hefur það viljað brenna við að menn hafa í góðri trú lánað t.d. einhverjum ættingja veð og ekki haft möguleika á að athuga hvernig gengur að greiða af láninu fyrr en á það er kominn mikill kostnaður og mikil vanskil og jafnvel útilokað að greiða upp skuldina sem hefði verið hægt á fyrri stigum. Þetta er mjög alvarleg brotalöm í því kerfi viðskipta einstaklinga sem nú er við lýði. Því tel ég mjög mikilvægt að einnig þessi ákvæði frv. nái fram að ganga og verði að lögum.
    Sl. vetur, þegar frv. var lagt fram á 113. löggjafarþingi, var það sent til umsagna og ég hef haft möguleika á að kynna mér efnisatriði þeirra umsagna. Ég er því miður ekki með þau með mér þar sem ég var orðin úrkula vonar um að það næðist nú frekar en aðra daga að koma málinu á dagskrá. Í stórum dráttum má segja að kerfið gæti að sínu í umsögnunum og ýmis tæknileg tormerki eru fundin á því að framkvæma megi ákvæði laganna samkvæmt því sem frv. segir. En ég vil vekja athygli á að enginn mælir gegn efnisatriðum frv. og séu einhverjir tæknilegir vankantar, sem ég er reyndar alls ekki sammála um að séu á frv., vonast ég til að hv. nefnd muni líta á þá og leysa vegna þess að ég held að óhjákvæmilegt sé að taka upp nýja siði í viðskiptum hér á landi. Enda benda mikil gjaldþrot undanfarinna ára til þess að hér sé víða pottur brotinn. Að vísu hefur örlítið lát orðið á þeirri fjölgun gjaldþrota sem verið hefur en þó eru fjölskyldur, ábekingar, ábyrgðarmenn og þeir sem lána veð auk þeirra sem taka lán enn að verða gjaldþrota, komast í greiðsluerfiðleika, greiðsluþrot, með þeim félagslegu og efnahagslegu afleiðingum sem það hefur. Því miður eru brögð að því að fólk hafi svift sig lífi vegna slíkra fjárhagsörðugleika og þeirra félagslegu hliðarverkana sem fylgja.
    Þetta er auðvitað fullkomlega óviðunandi og geti löggjafinn eitthvað gert í málinu ber honum að gera það. Í þeim tilgangi er frv. þetta flutt.
    Mig langar til að árétta það sem stendur í greinargerð og varðar sérstaklega það frv. sem hér liggur fyrir. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þessu frumvarpi er lögð áhersla á að meginregla í öllum lánsviðskiptum sé gagnkvæmt traust lántakanda og lánveitanda. Eðlilegt er að við lántöku sé greiðslugeta lántakanda metin, greiðsluáætlun gerð og að hún sé grundvöllur viðskiptatrausts hans. Í flestum lánaviðskiptum tíðkast nú að krefjast trygginga fyrir skilvísum greiðslum lántakanda. Algengt er að lántakandi leggi sjálfur fram slíkar tryggingar, t.d. með veði í fasteign sinni. Hitt er ekki síður algengt að krafist sé sjálfskuldarábyrgðar eins eða tveggja manna á greiðslum lántakanda. Þarf lántakandi að útvega þessa ábyrgðarmenn sem oft eru ættingjar lántakanda. Þá er einnig algengt að lántakandi fái lánað veð í eign annars manns til tryggingar greiðslum sínum, sérstaklega í tengslum við fasteignakaup. Segja má að nánast sé meginregla að lántakandi geti ekki fengið lán án þess að afla trygginga frá öðrum. Slíkt ætti þó einungis að vera í undantekningartilvikum og gilda um það skýrar reglur.
    Margir sem veita ábyrgð sína á endurgreiðslum af lánum annarra gera sér ekki grein fyrir því hvert eðli og umfang slíkrar ábyrgðar er. Ef til ábyrgðarinnar þarf að taka ábyrgist sjálfskuldarábyrgðarmaður greiðslur lántakanda með öllum eigum sínum, en sá sem hefur

lánað fasteignarveð leggur viðkomandi fasteign undir. Ábyrgðarmaður þarf oft að greiða verulegar fjárhæðir fyrir lántakanda sem hann ábyrgist. Ef ábyrgðarmaður getur ekki greitt skuldir lántakanda missir hann eigur sínar í hlutfalli við skuldir lántakandans, oft allt sitt. Á síðustu árum hafa gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja aukist mjög mikið og sífellt fleiri ábyrgðarmenn hafa þurft að standa við ábyrgðir sínar, oft með þeim afleiðingum að ábyrgðarmaður verður líka gjaldþrota. Gjaldþrot hafa ekki einungis viðskiptalega hlið því að oft leysast heimili gjaldþrota einstaklinga upp.
    Með þessu frumvarpi er gengið út frá þeirri meginreglu að lántakandi ábyrgist sjálfur skilvísar endurgreiðslur sínar og geri sér grein fyrir sinni lánshæfni með gerð greiðsluáætlunar. Frumvarpinu er einnig ætlað vekja athygli á stöðu ábyrgðarmanna og tryggja lágmarksréttindi þeirra til upplýsingaöflunar. Nauðsynlegt er að flytja sérstakt frumvarp um þessi efni því almenn lög um skuldabréf hafa aldrei verið sett hér á landi og ekki þótti rétt að setja þessi ákvæði í lög um viðskiptabanka, sparisjóði eða verðbréfafyrirtæki þar sem fleiri lána fé en þær stofnanir. Frændur vorir á Norðurlöndum hafa búið við almenna löggjöf um skuldabréf í langan tíma og væri þörf á að setja slík lög hér á landi þótt ekki sé ráðist í það nú með þessu frumvarpi. Verði frumvarpið að lögum geta ábyrgðarmenn á auðveldan hátt áttað sig á efni þeirra ábyrgða sem krafist er. Einnig geta þeir gripið mun fyrr en nú er í taumana ef lántakandi greiðir ekki af skuldbindingum sínum. Bitur reynsla undanfarinna ára hefur sannað að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga hafa brýna hagsmuni af því að þessi löggjöf nái fram að ganga.``
    Hér lýkur tilvitnun í greinargerðina. Ég vil taka fram að ein af þeim athugasemdum sem kom í umsögnum um þetta frv. varðaði það að ekki væri nægjanlega skilgreint hvað væru lánastofnanir. Því er mjög einfalt mál að bæta þar úr. Því miður hafði ég ekki fengið þá umsögn í hendurnar þegar ég lagði þetta frv. fram á nýjan leik en þetta er einungis eitt af dæmunum sem ég get tekið um að það virðist vera nokkur tregða í kerfinu að styðja jafnsjálfsagt frv. og þetta er. Eflaust er hægt að kenna þar um m.a. tregðu kerfisins sem vill varðveita sinn eigin gang en ég hvet til þess að menn skoði þetta mál með opnum huga, líti á að þarna er um lítilvæg atriði að ræða sem e.t.v. þarf að kveða skýrar á um og jafnframt kalli eftir þeim umsögnum sem ekki hafa borist því að þær varða einmitt sérstaklega neytandann, lántakandann. Svo virðist sem þeir þjónar kerfisins sem spurðir voru hafi verið fúsir til að veita sínar umsagnir en aðrir hafi e.t.v. ekki gert sér grein fyrir því að ef þeir sendu ekki umsögn þegar í stað þá er hætta á því að þeirra viðhorf komist ekki til skila.
    Ég tók sérstaklega eftir því að ekki hafði verið beðið um umsögn frá Samtökum gjaldþrota einstaklinga og vil mælast til við hv. nefnd, þegar hún tekur málið til umfjöllunar, að leitað verði eftir umsögnum og e.t.v. viðræðum við þau samtök og jafnframt ítreka ég það að ég tel að samtök eins og Neytendasamtökin og fleiri ættu að koma nálægt málinu.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.