Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir stuðingi mínum við þessa tillögu. Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að koma að er að mér hefur fundist það koma svolítið fram í þessari umræðu að menn hafa talað eins og ekkert hafi verið gert á Akureyri. Það væri ástæða til að koma slíkri stofnun þar upp. En það kom hins vegar vel fram í máli síðasta ræðumanns að þarna er grundvöllurinn til staðar, þarna er komin sjávarútvegsbraut og þarna er kominn vísir að rannsóknastarfsemi, bæði á vegum Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Þetta var unnið í góðri samvinnu margra aðila en þó hygg ég að á engan sé hallað þó að ég nefni fyrrv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson sem hafði að því verulegt frumkvæði að þessu var hleypt af stokkunum, þ.e. rannsóknarstarfseminni, þar sem hann skildi mjög vel nauðsyn þess að Háskólinn á Akureyri tengdist strax í upphafi rannsóknum.

    Ég vil þess vegna benda á að það eru tækifæri til að halda þessari þróun áfram strax á næstu vikum og mánuðum ef vilji er fyrir hendi. Ég nefni þar tvennt. Síðasti ræðumaður benti á að það ætti að flytja Hafrannsóknastofnun norður. Ekki ætla ég að draga úr því en ég tel reyndar að það gerist ekki öðruvísi en í vissum áföngum og þar væri út af fyrir sig eðlilegt að útgerð og rekstur skipa Hafrannsóknastofnunar yrði flutt til Akureyri sem næsta skref.
    Í öðru lagi vísa ég til umræðna sem verið hafa í fjölmiðlum að undanförnu þar sem er boðuð framlagning frv. á Alþingi um nýja stofnun í sjávarútvegi, sem hefur í umfjöllun ráðuneytisins fengið nafnið fiskistofa, þar sem á að sameina þó nokkra þætti í þjónustu og eftirliti sem hafa verið á vegum nokkurra stofnana fram að þessu. Af viðræðum við starfsmenn sjútvrn. hef ég fengið það upplýst að þarna sé um að ræða stofnun sem hugsanlega hefði allt að því 60 manna starfslið. Stærsti hlutinn af því eru veiðieftirlitsmennirnir en þar er líka menntað fólk á sviði sjávarútvegsins. Það væri ákveðið að fiskistofan yrði á Akureyri, starfaði þar við hliðina á öðrum sjávarútvegsstofnunum og mundi geta styrkt staðinn sem slíkan, m.a. með samnýtingu starfsfólks. Þetta eru hvort tveggja atriði sem geta verið einföld ákvörðunaratriði stjórnvalda á hverjum tíma og ég skora á viðkomandi stjórnvöld að hrinda þessu í framkvæmd.
    Ég vil að lokum taka undir það sem fram hefur komið um að sjávarútvegurinn hefur ekki gengið sína braut til enda varðandi þróun og möguleika. Þar eru margvíslegir möguleikar. Áðan var bent á smápakkalínuna sem er komin upp á Dalvík og er kannski talandi dæmi um að það er ekki sama hvernig staðið er að hlutunum. Hlutirnir þurfa að vera í sínu rétta umhverfi. Þessi lína var ekki flutt beint til Dalvíkur eða keypt þangað inn. Það var búið að gera tilraun með rekstur hennar í Hafnarfirði. Það gekk ekki upp, menn náðu ekki tökum á því en með því að setja hana inn í vel þróað frystihús, sem hefur verið í stöðugri þróun, þá hefur mönnum tekist að búa þannig um hnútana á tæplega tveimur árum að það stefnir að því að 40% af framleiðslu frystihússins á Dalvík fari í þessar pakkningar nú í ár. Þetta eru þau atriði sem ég vil koma inn í þessa umræðu.