Sinubrennur

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:51:00 (4431)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Frv. því sem hér um ræðir, frv. til laga um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 8/1966, sem bera reyndar þetta sama nafn. Þau lög leystu af hólmi lagaákvæði frá árinu 1281, 29. kapítula Landleigubálks úr Jónsbók en eiga sér í rauninni eldri sögu eins og rakið er í greinargerð og ætla ég ekki að rekja þá sögu frekar. En eins og búskaparhættir hafa breyst hér á síðustu 25 árum þá hafa skoðanir manna á gildi sinubrennu sömuleiðis breyst. Þó virðast skoðanir sérfróðra manna vera að sinubrennur eigi vissan rétt á sér en hins vegar verður því ekki móti mælt að töluverð hætta getur af þessu stafað og dæmi eru um verulegt tjón.
    Á sl. vori og sumri var töluvert um að kvartað væri til umhvrn. vegna sinubrennslu út um land. Í þéttbýlinu er einnig mjög undan þessu kvartað. T.d. er það skoðun bæði slökkviliðs og lögreglu í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu og raunar víðar að það þurfi að koma betra lagi á þessi mál. Það vantar ekki að lagaákvæði séu fyrir hendi en sannleikurinn virðist vera sá að þeim ákvæðum er misjafnlega sinnt að ekki sé meira sagt. Því var það 1. okt. sl. að umhvrn. hafði frumkvæði að því að efna til fundar um þetta mál og auk fulltrúa frá ráðuneytinu sátu þennan fund fulltrúar frá Búnaðarfélagi Íslands, landbrn., Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarráði, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Stéttarsambandi bænda. Það var einmæli þeirra sem þennan fund sóttu að full ástæða væri til að takmarka sinubrennu frá því sem verið hefur. Þá væri rétt að banna sinubrennu en hafa hins vegar heimild til undanþágu á svæðum utan þéttbýlis og fjarri skógræktarsvæðum. Þá var bent á að nauðsynlegt væri að efla fræðslu til bænda um kosti og galla sinubrennslu og um leiðir til að draga úr sinumyndun.
    Eftir þetta var frv. samið í umhvrn. og um það var haft fullt samráð við fulltrúa frá Búnaðarfélagi Íslands og Náttúruverndarráði. Þá var efni frv. sérstaklega kynnt á ráðunautafundi Búnaðarfélags Íslands í febrúarmánuði sl. og nýlega var það kynnt umhverfismálanefnd búnaðarþings sem óskaði eftir að fá að ræða það við fulltrúa ráðuneytisins.
    Sé þetta frv. borið saman við eldra frv. og gildandi lög raunar má einkum benda á eftirgreind atriði sem eru frábrugðin:
    Fyrst er það að þetta frv. er styttra en gildandi lög. Ástæðan er sú að það virðist ástæðulaust að festa í lög hrein framkvæmdaatriði sem hljóta að mótast af aðstæðum á hverjum tíma og staðháttum. Því er gengið út frá því að slík atriði verði í reglugerð sem umhvrh. setji að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands og Náttúruverndarráðs. Að sjálfsögðu geta aðrir aðilar komið ábendingum á framfæri sem þeir telja máli skipta. Með þeirri tilhögun sem ég hef hér lýst er auðveldara en ella að haga málsmeðferð eftir því sem henta þykir á hverjum stað.
    Eins og nú er háttað eru í lögum settar meginreglur sem eru með svo miklum og margbreytilegum undanþágum að í raun má segja að ekki gildi neinar fastmótaðar reglur samkvæmt lögunum. Í reglugerð er hægara að koma til móts við breytilegar aðstæður og gera ákvæðin markvissari og þar með auðveldari í framkvæmd. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að samræmi sé milli lagabókstafs og lagaframkvæmdar en á það virðist nokkuð hafa skort í þessum efnum. Einhver kann að segja að með því að hafa þessa skipan að setja framkvæmdaatriði í reglugerð sé verið að taka vald frá Alþingi. Ég held hins vegar að það sé nokkur misskilningur. Hér er um algerlega ópólitísk og tiltölulega einföld framkvæmdaatriði að ræða.
    Annað sem ég tel ástæðu til að nefna í þessu sambandi varðandi aðrar greinar frv. er að þar sem sýslumenn fá nú nýtt hlutverk samkvæmt þeim lögum sem öðlast gildi 1. júlí nk., þá virðist eðlilegt að þeir hafi í auknum mæli með höndum stjórn staðbundinna mála sem tvímælalaust heyra undir framkvæmdarvaldið. Hingað til hafa hreppstjórar haft ákveðið vald til að leyfa eða banna sinubrennslu og sjá um að tilteknum reglum væri framfylgt, t.d. ákveðnum öryggisreglum. Mér er það nokkuð til efs að markviss framkvæmd sé á þessum sundurliðuðu lögboðnu atriðum og tel raunar að kannski skorti nokkuð á að framfylgt sé bókstaf laganna. Það hlýtur t.d. að vera erfitt verk fyrir hreppstjóra að sjá til þess að svo flóknum reglum sem eru í 2. gr. gildandi laga sé framfylgt samkvæmt bókstafnum. Þar er kveðið á um í metrum fjarlægðir sem skulu frá brennustað að mannvirkjum og í klukkustundum hvaða fyrirvari skuli vera um tilkynningu til nágranna um fyrirhugaða sinubrennu. Það er auðvitað höfuðatriði í þessu frv. að sinubrenna er ekki leyfð nema með skýrum undantekningum. Sá sem brennir sinu þarf að sýna skilríki til að sanna að hann hafi heimild til slíks. Þá er réttaróvissa sem alls konar undantekningar skapa í gildandi lögum takmörkuð. Hjá undantekningum verður áreiðanlega ekki komist en slíkt yrði þá að ákveða í reglugerð.
    Samkvæmt frv. eru það einungis ábúendur einstakra jarða og umráðamenn einstakra jarða sem geta fengið leyfi sýslumanns til að brenna sinu og það með vissum skilyrðum. Allt þéttbýli er þar undanskilið og þar er sinubrennsla bönnuð. Leyfi og þar með ábyrgð er bundin við ákveðinn einstakling sem ber þá ábyrgð á því tjóni sem hann kann að valda öðrum með sinubrennu, sbr. 5. gr. frv.
    Nú kann einhver að spyrja hvort sækja þurfi árlega um leyfi til að brenna sinu en slíkt felst ekki í frv. Vafalaust eru til þeir staðir á landinu þar sem sinnubrennsla þykir sjálfsögð og er þá ekkert við því að segja að dómi þeirra sem gerst til þekkja að þar sé veitt ótiltekið leyfi og ótímabundið. Þeir eru vafalaust margir sem brenna sinu af fullri nauðsyn og sýna gát þannig að er til fyrirmyndar en annars staðar er því miður ekki sömu sögu að segja. Aðalreglan í sambandi við framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, er eins og áður er nefnt að sá sem brennir sinu skal sanna að hann hafi til þess rétt. Varðandi gildandi lög má segja að ákvæðin í 1. gr. þeirra séu svo holuð af ýmsum undantekningum að framkvæmdin verður í molum. Og þá má líka spyrja til hvers eru þau tímamörk sem sett eru í 6. gr.? Þar er miðað við 1. maí eða 15. maí. Þar eru búin til einhver landfræðileg mörk um heimild ef svo mætti kalla frá norðanverðu Djúpi eða norðan heiða allt austur að Fjarðarheiði og að Breiðdalsheiði. Svo eru víðtækar heimildir til undanþágu en það virðist eins og ég hef áður nefnt fremur eiga heima í reglugerð. Ég held að önnur framkvæmdaatriði þessa frv. þurfi varla skýringa við umfram það sem segir í greinargerð.
    Það er þó eitt nýtt sem hér er kveðið á um. Það er um auknar skyldur almennings til að gera sitt til að slökkva eld í gróðurlendi. Það má segja að þetta sé kannski ekki alltaf auðvelt í framkvæmd en hér er um að ræða nauðsynjamál sem er rétt, að ég tel, að hafa í lögum og framkvæmdin verður auðvitað að fara eftir því sem er frekast unnt hverju sinni.
    En að lokum, virðulegi forseti. Ýmsir munu sjálfsagt spyrja sem svo: Hverjir eru kostir og gallar sinubrennslu? og ég tek þá fram líka að víðast hvar í grannlöndum okkar er búið að banna þetta vegna þess að þetta er talið hafa í för með sér meiri umhverfisspjöll en umhverfisbætur. M.a. hefur þetta í för með sér mengun, eins og afar auðvelt er að sjá t.d. í apríl þegar segja má kannski að heilu sveitirnar sums staðar séu eitt logabál eins og þeir kannast við sem voru t.d. á ferð að næturlagi í síðustu kosningabaráttu sl. vor víðs vegar um landið.
    En hverjir eru kostir og gallar samfara því að brenna sinu? Niðurstaða þeirra sem gerst til þekkja er kannski í stuttu máli þessi: Askan sem myndast við þennan bruna hefur dálítið áburðargildi fyrir nýgræðing, einkum eru það steinefni. Hins vegar mun tapast eitthvað af köfnunarefni og öðrum efnum við þennan bruna. Brennt land þiðnar heldur fyrr á vorin og fyrir bragðið getur gróður orðið fyrr til en á óbrenndu landi. Á brenndu landi verður nýgræðingurinn aðgengilegri fyrir búfé, sérstaklega þar sem sina er mikil vegna lítillar beitar eða engrar árið áður. Í sumum tilvikum er talið að bæta megi beitiland með sinubruna. Hitt er svo það að af brennslu getur hlotist varanlegur skaði af sumum tegundum gróðurs, einkum trjágróðri, lyngi og mosa. Á undanförnum árum hafa orðið skógarbrunar á ýmsum stöðum hér á landi vegna ógætilegrar meðferðar elds við sinubruna. Þá hefur áratuga skógræktar- og landgræðslustarf orðið eldi að bráð á fáeinum klukkustunum. Í kjölfar sinubruna eykst hætta á gróður- og jarðvegseyðingu sem kann að orsaka uppblástur á þurrlendi. Það getur tekið náttúruna aldir að bæta slíka jarðvegseyðingu og þess eru jafnvel dæmi að kviknað hafi í þurrum móajarðvegi þegar sina hefur verið brennd. Eftir að fuglar eru farnir að verpa á vorin er sinubrennsla auðvitað mesti bölvaldur. Sömuleiðis er hætta á því að smádýralíf bíði verulegt tjón af þegar eldur svíður landið. Mikil sinubrennsla veldur reykmengun andrúmslofts og getur raunar byrgt útsýni á vegum og þannig skapað slysahættu. Tjón getur hlotist af mannvirkjum, bæði byggingum, girðingum, síma- og rafmagnsstaurum. Ég held að flestum sé það ljóst að ókostirnir eru veigameiri en kostirnar.
    Sérfróðir menn hafa á það bent að þótt viss ávinningur geti verið af sinubrennslu á beitilandi, einkum á grasgefnum mýrum, þá sé hægt að ná sama árangri með hóflegri og skipulagðri beit. Það virðist skynsamlegra og geðfelldara að nýta gróður með þeim hætti en að láta hann ganga upp í eldi. Þess vegna sýnist að full ástæða sé til að þrengja verulega heimild og undanþágur fyrir sinubrennum. Reynslan hefur sýnt að bæði almannahætta og verulegt tjón bæði á gróðurlendi og mannvirkjum getur leitt af sinubrennu eins og ég hef áður nefnt. Þótt óheimilt sé að brenna sinu í þéttbýli er varla vafi á að vitneskjan um sinubrennur víða um land verður til að vekja áhuga á slíku tómstundagamni og bæði af hálfu lögreglu og slökkviliðs í Reykjavík er árlegur brennufaraldur á vorin verulegt vandamál og raunar nokkuð kostnaðarsamt.
    Eftir að þetta frv. var samið var haldinn fundur hjá ráðunautum Búnaðarfélags Íslands eins og ég minntist raunar á áður. Þar fluttu margir sérfræðingar erindi, m.a. um sinubrennslu, kosti hennar og galla

og mér sýnist af lauslegum lestri þeirra erinda sem þar voru flutt, en þau hafa verið gefin út, að niðurstaðan hafi verið sú að ókostir væru taldir meiri en kostir. Ég held að skynsamlegt væri fyrir þá sem vilja mynda sér skoðun á þessu máli að kynna sér efni fyrirlestranna af þessum ráðunautafundi.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg áherslu á að mér er það alveg ljóst að mönnum sýnist sitt hvað sjálfsagt um þetta efni. Hér er verið að fjalla um gamlan sið sem sumir telja óhjákvæmilegan en ég legg áherslu á það að af hálfu umhvrn. hefur frá upphafi þessa máls verið haft mjög náið samstarf við þá aðila sem hér eiga hagsmuna að gæta og ég nefni þá aftur: Búnaðarfélag Íslands, landbrn., Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarráð, Líffræðistofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Stéttarsamband bænda. Við alla þessa aðila hefur verið haft gott samráð og um málið hefur tekist mjög góð samstaða.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til hv. umhvn. og 2. umr.