Greiðslur bænda í Atvinnuleysistryggingasjóð

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:16:00 (4534)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrsta fsp. hv. þm. hljóðar svo:
    ,,Hvers vegna hefur verið frestað að skipa nefnd til að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar . . .  `` o.s.frv. Í byrjun síðasta árs stóð til að skipa nefnd til að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar og gerði þáv. heilbrrh. tilraun til þess að koma slíkri nefnd á laggirnar. Hann sendi út bréf 14. mars í fyrra þar sem óskað var eftir tilnefningu ýmissa aðila í nefndina og var tilnefninga óskað fyrir 1. apríl. Gert var ráð fyrir að nefndinni ættu sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Stéttarsambands bænda, Sambands ísl. bankamanna, fjmrn., Atvinnuleysistryggingasjóðs og heilbr.- og trmrn. Tilnefningar bárust frá flestum þessara aðila en þó ekki frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Ég ritaði þessum aðilum að nýju bréf 24. júlí sl. og ítrekaði beiðnina um tilnefningu fulltrúa í endurskoðunarnefndina. Enn barst ekki svar frá Alþýðusambandi Íslands og hefur ekki borist enn. Í svari Vinnuveitendasambandsins var hins vegar mótmælt fyrirhugaðri samsetningu nefndarinnar og talið óeðlilegt að endurskoðunarnefndin væri að meiri hluta skipuð fulltrúum stéttarfélaga. Jafnframt kom fram í svarinu að Vinnuveitendasamband Íslands hygðist ekki tilnefna fulltrúa í nefndina að óbreyttri samsetningu hennar. Ég átti líka fund með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands um þessi mál.
    Í ljósi viðbragða Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins við fyrirhugaðri nefndaskipan var ákveðið að bíða að svo stöddu með heildarendurskoðun laganna um atvinnuleysistryggingar og hætt við þá fyrirætlun fyrrv. hæstv. ráðherra að skipa umrædda nefnd. Fyrirhugað er þó að taka þetta mál upp að nýju með heildarendurskoðun í huga.
    Í öðru lagi var spurt hvort staðið hafi verið við það fyrirheit sem bændum hafi verið gefið fyrir ári, er þeir hófu að greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs, að þeim verði tryggð bótaréttindi til jafns við aðra. Samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, er hver sá aðili gjaldskyldur sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun. Gjaldskyldan tekur þannig til allra launagreiðenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða, stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og

allra þeirra aðila sem greiða laun eða einhvers konar þóknanir fyrir störf. Enn fremur nær gjaldskyldan til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Samkvæmt lögunum er tekjum af tryggingagjaldi ráðstafað svo: Í fyrsta lagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur 0,15% af gjaldstofni. Í öðru lagi til Vinnueftirlits ríkisins sem nemur 0,08% af gjaldstofni og í þriðja lagi til Tryggingastofnunar ríkisins það sem umfram er til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga.
    Í grg. sem fylgdi frv. til laga um tryggingagjald er það var til umfjöllunar á Alþingi segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Sú breyting, sem verður á gjaldtöku til Atvinnuleysistryggingasjóðsins, breytir á engan hátt núverandi skipan á rétti til atvinnuleysisbóta að því er varðar hverjir eiga rétt til bótanna, hve háar og miðað við hvaða tímabil.``
    Í nál. meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að tekið verði til endurskoðunar ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, m.a. að því er varðar bótaréttindi, enda fela ákvæði frv. um tryggingagjald í sér að fleiri aðilar munu greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs.``
    Í nál. 1. minni hluta segir, með leyfi forseta:
    ,,Eina breytingin, sem verður við samþykkt þessa frv., er að ýmsir sem njóta ekki réttinda úr Atvinnuleysistryggingasjóði verða að greiða til sjóðsins. Nauðsynlegt er að tryggja réttindi þeirra með sérstökum lögum þannig að skyldur og réttindi fari saman.``
    Í nál. 2. minni hluta nefndarinnar segir, með leyfi forseta: ,,Auk þess leggur frv. nýjum aðilum þær skyldur á herðar með tilkomu tryggingagjaldsins að greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs án þess að ljóst sé hvaða réttinda þeir fái samhliða. Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hefðu því þurft að koma fram samhliða þessu frv.``
    Af þessum tilvitnunum má ljóst vera að frv. sjálft lofaði engum breytingum á núverandi skipan á rétti til atvinnuleysisbóta. Nál. fjárhags- og viðskiptanefndar benda hins vegar öll réttilega á að nauðsynlegt er að endurskoða þessi mál þannig að saman fari skyldur til greiðslna í Atvinnuleysistryggingasjóð og réttindi til atvinnuleysistryggingabóta en frv. og núverandi lög tryggja ekki að rétturinn fari saman við greiðsluskylduna og fjölmargar stéttir verða að sæta því.
    Þriðja spurning var hvort settar hafi verið fram tillögur þar sem skilgreind eru réttindi þeirra nýju aðila sem skyldaðir voru til að greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð. Slíkar tillögur hafa ekki verið settar fram en að nýju skal bent á grg. frv. þar sem fram kemur að breytingin á gjaldtökunni mun ekki hafa neinar breytingar í för með sér á réttinum til atvinnuleysistrygginga. Það kemur skýrt fram í greinargerð umrædds frv.