Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 13:45:00 (4734)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Eins og allir vita sem hafa fjallað um það mál sem nú er á dagskrá, þá snýst það ekki um veiðar í efnahagslögsögu Íslands heldur um það atriði hvort heimilt sé íslenskum fiskvinnslustöðvum að kaupa fisk af erlendum aðilum, fisk sem þeir hafa veitt innan sinnar efnahagslögsögu eða utan sinnar efnahagslögsögu.
    Nú er það svo að við ætlum íslenskum sjómönnum og útgerðarmönnum þann rétt að geta valið á milli hvort þeir selja íslenskum aðilum sinn fisk eða hvort þeir selja hann beint til erlendra aðila. Með þessu móti hafa þeir sterkari stöðu en þau fiskvinnslufyrirtæki í landi sem ekki hafa frelsi til að velja á milli þess hvort þau kaupa fisk af erlendum eða innlendum aðila. Mér er ljóst að hv. 1. þm. Vestf. hefur til að bera víðsýni í þessum efnum og hefur horft á þetta mál í stóru samhengi út frá hagsmunum Íslendinga allra sem þjóðar. Og mér er ljóst að hann hefur samþykkt málamiðlun með þeirri brtt. sem hann lagði til og var samþykkt. Ég vil því taka það skýrt fram að með mínum athugasemdum er ég fyrst og fremst að gera eina tilraun enn til þess að opna augu þeirra þingmanna sem hafa verið svo sannfærðir um að við gætum ekki náð viðunandi samningum við Grænlendinga eða aðrar þjóðir um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum Íslands og þeirra þjóða nema við hefðum einhver tök á okkar viðsemjendum.
    Það má vel vera að menn trúi því að með því að segja við Grænlendinga: Þið fáið ekki að selja ykkar fisk á Íslandi nema þið semjið við okkur um það að þessum fiskstofni, sem er sameiginlegur, verði skipt eftir ákveðnum leikreglum á milli þjóðanna, nái þeir samningum með þessu móti. Þetta er löndunarbannsleiðin sem Bretar prófuðu á okkur Íslendingum og gafst illa vegna þess að hún herti upp þjóðarvitund. Hún herti upp þjóðarvitund og hafði þær afleiðingar að þeir sem gætnari voru í okkar hópi áttu verra með það að ná því fram að menn semdu við aðila sem vildu beita okkur ofríki.
    Ég tel því að þessar aðgerðir, að ætla núna að fela sjútvrh. sjálfdæmi í þessum efnum, geti gefist vel ef sjútvrh. er sannfærður um að það sé ekki rétt að beita þessum vinnubrögðum. En ef sjútvrh. er þeirrar skoðunar að þetta séu hin réttu vinnubrögð, þá mun þetta gefast illa. Og ólík eru þessi vinnubrögð því sem Þórður kakali viðhafði í Skagafirði forðum eftir Hauksnesfund þegar hann leitaði ekki uppi sína fjandmenn í hópi Skagfirðinga til að drepa þá, heldur bauð að þar skyldu allir ná heilum sáttum sem vildu.
    Ég get vel skilið það að Íslendingar hafi minnimáttarkennd gagnvart Grænlendingum því að við glímdum við það að nema þetta land, hafa þar búsetu og biðum ósigur. Við vorum ekki menn til þess að búa í þessu landi. Það var of harðbýlt fyrir íslensk karlmenni. Við liðum undir lok. Grænlendingar aftur á móti leystu þetta mál. Og kannski höfum við aldrei fyrirgefið þeim að þeir skyldu geta leyst þetta frekar en Þorgeir Hávarsson átti erfitt með að fyrirgefa að Þormóður skyldi bjarga honum forðum úr bjarginu.
    En við stöndum frammi fyrir því að haustak á Grænlendingum er það sem við viljum nota til þess að ná viðunandi samningum. Hvernig bregðast þeir við? Þeir vita að þeirra hafnlausa austurströnd verður ekki nytjuð, hafsvæðið út af henni, með skipum frá Grænlandi. Þeir leigja einfaldlega út þetta svæði til veiða. Þeir leigja það þjóðum sem hafa fullkominn verksmiðjuflota og geta tekið þann afla sem þær kaupa af Grænlendingum yfir sumartímann á tveimur eða þremur mánuðum. Ef við hefðum opnað íslenskar hafnir fyrir þessum aðilum þá hefðu Grænlendingar trúlega sjálfir farið að veiða þennan fisk og þeir hefðu landað honum á Íslandi. Sumu af honum til þess að skipa upp og flytja beint úr landi, öðru til vinnslu hér á landi. Og við hefðum haft af því verulegar tekjur. Það vill nú svo til að viðskiptajöfnuður okkar við Grænlendinga er hagstæður Íslendingum, það sama gildir um Færeyjar. En auðvitað þurfum við að eiga í útistöðum við þjóðir sem þannig er ástatt um og draga úr viðskiptum á milli þjóðanna.
    Ég hef dálítið gaman af því að við vorum að samþykkja hér að vísa til 2. umr. frv. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Við erum friðelskandi þjóð. Við viljum ekki standa í illindum við neina nema nágrannana. Þetta er góð þjóð, íslenska þjóðin. Hún er að vísu búin að samþykkja það að sjóhraktir menn megi leita hér lands af öryggi, þeim verði bjargað. Það er skýrt tekið fram í þessum lögum, við ætlum ekki að drepa þá eins og við gerðum við Spánverjana á Hornströndum forðum, eða í Ögri. Þetta er liðin tíð. Við förum ekki að mönnum með þessum hætti. En þá er það líka búið. Það er í gildi það sama og var þegar duggurnar tóku land í Árneshreppnum. Það er í gildi það sama að viðskiptin eru bönnuð á milli. Við megum ekki kaupa af þeim fiskinn, hann skal úldna í lestinni ef því er að skipta nema sérstakt ráðherraleyfi komi til. Eða gera við skipin.
    Ég er ákaflega tregur til að samþykkja lög sem hljóða bara upp á heimildir fyrir ráðherra. Ástæðan er einfaldlega sú að mig skortir alla framsýni til að átta mig á því hvað ráðherrarnir geri við slík lög. Það má vel vera að menn telji að það sé auðvelt að samþykkja lög sem heimila ráðherra að ráða því hvaða ákvörðun hann tekur, hvort hann leyfir eða bannar, og Alþingi Íslendinga hefur verið ákaflega iðið við að

samþykkja slík lög. Þetta er ákaflega sérstæð lagasetning og það þarf mikla framsýni til að sjá það fyrir hverjir sitja í ráðherrastól og hvernig þeir muni bregðast við. Þess vegna finnst mér að Alþingi Íslendinga þurfi að venja sig af þeim ósið að setja jafnmikið af lögum og heimildir fyrir ráðherra til þess að ráða í jafnstórum málum.
    Ég er sannfærður um það að til þess að tryggja fiskvernd við austurströnd Grænlands, þá þurfa Grænlendingar sjálfir að veiða þennan fisk. Þeir þurfa að vita það að ef þeir veiða of mikið þá geta þeir ekkert veitt á næsta ári. En ef þetta er bara spurningin um það að selja útlendingum réttinn, eins og er í dag, þá er auðvitað sama hugsunin og var hjá Einari Ben. þegar hann vildi selja norðurljósin. Þá er að hafa betur í viðskiptunum og selja miklu meira en til er og það er það sem þeir hafa verið að leika sér að af og til til þessa.
    Þess vegna eru mér það þó nokkur vonbrigði, þó ég viðurkenni að þetta séu breytingar til hins betra frá því sem var, að Alþingi Íslendinga skuli leggjast það lágt í þessum efnum að viðskiptahagsmunir og atvinnuhagsmunir iðnaðarmanna í landi skuli einskis metnir þegar menn taka þessar ákvarðanir. Nú er það svo að störf iðnaðarmannsins sem vinnur eru jafnþörf og hinna. Og þegar Ísland býr við vaxandi atvinnuleysi eins og nú er, hví skyldum við þá ýta verkefnunum frá okkur? Hvers vegna skyldum við gera það? Gott og vel. Mikill meiri hluti á Alþingi Íslendinga hefur samþykkt það að til þess að ná viðunandi samningum við Grænlendinga dugi ekkert annað en að hafa á þeim haustak og herða að. Spurningin er bara þessi: Komumst við þá nokkuð í návígi við þá?
    Mér hefur líkað margt vel sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt og aðhafst að undanförnu, en ég verð að segja það eins og er að mér voru það nokkur vonbrigði að það skyldi að hluta gleymt hvernig Færeyingar reyndust okkur í seinasta þorskastríði. Færeyingar stóðu svo fast með Íslendingum að sennilega voru þeir eina þjóðin sem lagði á sig efnahagslegan skaða til þess að styðja Íslendinga í þeirri baráttu. Þeir neituðu að veita breskum skipum þjónustu sem þá voru á Íslandsmiðum og þeir sköðuðust efnahagslega á því að gera þetta. (Gripið fram í.) Hér er spurt af mikilli hógværð utan úr salnum: Var ekki vitleysa af þeim að vera að þessu? Ég met það nú svo að þeir hafi horft á hin stóru mál, að ef Íslendingar fengju 200 mílur mundu þeir einnig seinna geta stækkað sína lögsögu. Engu að síður fór það svo að við minnkuðum þeirra rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands. Auðvitað voru margir sem vildu ýta þeim út og sjútvrh. hafði vafalaust á eftir sér vissa hirð sem lagði á það mikið kapp að stöðva þessar veiðar. En þetta voru mér vonbrigði og því segi ég þetta hér og nú að ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi í mörgu reynst víðsýnn í því sem hann hefur verið að fást við.
    Ég trúi því að þeir tímar komi að Íslendingar samþykki löggjöf sem rýmkar það sem hér hefur nú verið ákveðið og stefnt er að. Og ég trúi því líka að þá verði mönnum það ljósar en virðist vera í dag að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá skapar eitt starf í frumvinnslugrein, eins og sjávarútvegi, níu störf í landi. Þess vegna er það, ef þessi regla er til staðar, að eitt fiskiskip grænlenskt sem mundi stunda veiðar við austurströnd Grænlands og leggja upp afla sínum á Íslandi til vinnslu, mundi raunverulega nífalda þann mannafla á Íslandi sem hefði störf miðað við þann fjölda sem er á sjónum. Svo mikil eru margföldunaráhrifin ef við skoðum þá þróun sem hefur verið að eiga sér stað í atvinnumálum Íslendinga og horfum til hagtíðinda til að sjá það hve mikið af nýjum störfum verða í öðrum greinum en í frumvinnslugreinunum.
    Ég geri mér grein fyrir því að mín orð um þessi mál munu engu breyta, en engu að síður vil ég koma þeim hér á spjöld sögunnar svo mér sjálfum verði rórra yfir því hvað gerst hefur.