Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 13:55:00 (4867)

     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hefur orðið um þetta mál og ég þakka þær góðu undirtektir sem till. mín hefur fengið í ræðum margra þeirra sem hér hafa talað. Hins vegar verð ég að viðurkenna það að umræðan, eins og hún hefur farið fram núna, hefur opinberað, ég vil segja þann misskilning og þá togstreitu sem menn vilja kenna jafnvel svona tillöguflutningi en sem ríkir í viðhorfum þeirra sem vilja bregðast gegn allri áætlunargerð gegn lausagöngu. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum vegna þess að ég hef rakið í þessari greinargerð hvernig aftur og aftur hefur verið komið að þessum málum, en það er rangt að tillaga sem þessi hafi áður komið fram um Landnám Ingólfs. Það hafa komið fram tillögur skyldar henni, sumar eins og ég hef rakið hér þar sem vísað er til landnámsins í greinargerð, en þetta er í raun í fyrsta sinn sem ályktun er flutt varðandi Landnám Ingólfs sérstaklega. Þetta vildi ég taka fram út af því hvernig umræðan fór hér fram áðan.
    Hv. 3. þm. Austurl. spurði hvort við ætluðum að banna sauðfjárhald og vísaði til atvinnuleysis á svæðinu. Nokkuð hefur borið á að umræðan beri keim af því að það mætti halda að verið væri að leggja til að friða Landnám Ingólfs fyrir búfé. Það er algjör misskilningur og ég vil taka undir orð hv. 5. þm. Suðurl. um að um þessi mál ætti að ríkja friður og sátt og vinna ætti að fara þannig fram, það er nákvæmlega það sem ég vil að sé gert. Samvinna við sveitarfélög þýðir samvinna við bændur. Áætlanagerð í samvinnu við sveitarfélög milli ríkisvaldsins og bænda þýðir skoðun á framtíðaráformum bænda.
    Vissulega tóku flestir undir að það væri jákvætt að vera með umræðu um landgræðslu. Ég hef það á tilfinningunni að nokkuð margir þeirra sem tóku til máls hafi alls ekki hlustað á framsögu mína, vegna þess að tekið var á mörgum þeim þáttum sem seinna var rætt um hér á allt annan hátt og þar sem mér voru gerð upp viðhorf sem ekki komu fram í framsöguræðu minni. Það er alveg ljóst að hér erum við ekki eingöngu, þó það sé veigamesti þátturinn, að tala um landgræðsluna, við erum líka að tala um sambúð þéttbýlis, landbúnaðar og búfjár. Það hefur komið hér fram hver er fjöldi búfjár á svæðinu og hversu því hafi fækkað og það er allt hárrétt. Það er samt enn þá mjög mikið af búfé á svæðinu miðað við hvað þetta er þéttbýlt svæði og þess vegna mjög mikilvægt og dýrmætt að gera áætlun um hvernig þessum búskap verði háttað og í hvers konar hólfum eða girðingum búfé verði haft í framtíðinni.
    Það var sagt hér að ríkið hafi lagt vegi gegnum eignarlönd en ekki girt veginn af og það er ekki til fyrirmyndar, en það hefur líka komið fram að lausnin sé eingöngu að girða vegi af á hvaða svæði sem er og þá erum við að tala um að búfé eigi að vera í raun og veru á öllum svæðum nema vegunum. Við hljótum öll að sjá að ef við erum að tala um kostnað við aðgerðir hlýtur það að verða dýrasti kosturinn. Dýrasti kosturinn og ekki endilega sá besti fyrir bændur.

    Ég hef lagt mikla áherslu á það í minni framsögu að við verðum að búa saman, dreifbýli og þéttbýli, í sátt og að tillögugerð mín sé m.a. í þá veru. Það hefur verið talað um að það þurfi að skilgreina lausagönguna. Við erum hér að tala um að í búskap sé sauðfé í innan einhvers konar girðinga. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að í áætlanagerðinni komi það fram hversu stór beitarhólfin eigi að vera, hversu stór svæði miðað við staðsetningu og aðstæður eigi að girða af. Það hefur líka verið talað um kostnað við beitarhólfin og það er eitt af því sem mér finnst mikilvægt að sé lagt fyrir Alþingi þegar ég legg til að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi, að vísu í upphafi næsta þings 1992, en þá verða menn að taka tillit til þess að tillagan var lögð fram í nóvember þó hún komi ekki til umræðu hér á hv. þingi fyrr en nú í lok mars. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi tími er orðinn of naumur fyrir þá áætlanagerð sem hér er lögð fram.
    Ég ætla ekki að blanda mér í umræðu um hrossin annað en að það er fyrir löngu búið að banna lausagöngu hrossa og það segir okkur líka hvaða misskilningur er lagður í orðið lausaganga vegna þess að hvar sem við förum um á þessu svæði sjáum við mikið af hrossum. En það er alls staðar gert ráð fyrir þeim innan girðinga og þess vegna er mjög undarleg sú umræða sem hér hefur farið fram varðandi beitarhólf eða að búfé sé innan ákveðinna girðinga.
    Það hefur líka verið talað um það að þessi sjónarmið falli að markmiðum þeirrar nefndar sem hefur verið sett á laggirnar og þess vegna þurfi ekki að leggja það til sem hér er gert, það sé allt farið í gang sem lagt er hér til. Svo er líka talað um að það eigi ekki að taka einstök svæði fyrir eins og í þessari tillögu.
    Ég verð að viðurkenna að það veldur mér nokkrum vonbrigðum að heyra viðhorf 14. þm. Reykv. þó að þingmaðurinn taki undir margt af því sem sett er fram í tillögunni vegna þess að í þeirri ályktun sem var lögð fyrir Alþingi árið 1990 frá hinum ýmsu félagasamtökum þar sem óskað var eftir að Landnám Ingólfs yrði friðað fyrir lausagöngu búfjár og lög sett þar um, þá var undir það ritað af forráðamönnum þriggja stórra samtaka og m.a. ritaði hv. þingmaður Auður Sveinsdóttir undir það fyrir hönd Landverndar. Auðvitað getur fólk skipt um skoðun en þarna var verið að biðja um að setja lög um friðun fyrir lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs sem á þeim tíma var vissulega jafnafmarkað svæði og nú er miðað við landið allt.
    Ég vil aðeins nefna það líka hér að það urðu nokkuð hörð viðbrögð, eftir því sem fréttir bárust, út af þessari þáltill. á búnaðarþingi 1992 en mér hefur verið send bókun, ákvörðun stjórnar búnaðarfélags varðandi þetta mál, og þar lýsir búnaðarþingið ánægju sinni, með leyfi forseta, yfir auknum áhuga almennings á umhverfisvernd og endurheimt gróðurs og bændasamtökin bjóða velkomna til samstarfs og samvinnu alla þá sem af einlægni vilja vinna að þessum málum. Hins vegar bendir búnaðarþingið á nauðsyn þess að friða vegsvæði með gripheldum girðingum og vitnar í því sambandi til ályktana búnaðarþings frá 1990 og í þá hættu sem stafar af búfé á vegum og aðgerðir þar að lútandi. Það er nokkuð líkt viðhorf og kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. þar sem hann kom inn á þessi mál og varaði nokkuð við banni við lausagöngu en vísaði samt í að vegna þéttrar byggðar í Eyjafjarðarsveit væri bönnuð lausaganga við stofnbrautir og vegi. Mér finnst því að við þurfum einmitt að skoða þetta. Er þetta það sem við erum að leggja til? E.t.v. yrði niðurstaða ráðherra og sveitarfélaga að miða við aðstæður á svæðinu og þá ætti að girða alla vegi þannig að beitarhólfin yrðu sem stærst en miðað við þá fækkun sem menn hafa haldið fram að hafi orðið, og sem er alveg hárrétt, úr 37.000 fjár 1965 niður í um 14.000, þá væri æskilegra að hafa girðingarnar með öðrum hætti hér í mesta þéttbýlinu en meðfram vegum.
    Svo ég víki að búnaðarþinginu aftur, þá segir í ályktuninni, með leyfi forseta: ,,Sú tillaga sem hér liggur fyrir er aftur á móti óþörf því núna er starfandi nefnd sem vinnur að þessum málum af fullum krafti. Nefnd þessa skipaði landbrh. í september sl. til að móta tillögur um þessi mál og rétt er einnig að benda á að í Landnámi Ingólfs er verið að vinna að skipulagi innan allflestra sveitarfélaganna, auk allflestra sveita sunnan Skarðsheiðar og samkvæmt skipulagsreglugerð er markmið svæðisskipulags að móta samræmda heildarstefnu um þróun byggðar á svæðinu og stuðla að hagkvæmri þróun. Enn fremur að sýna í einstökum atriðum stefnumörkun hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þróun byggðar og landnot innan svæðisins. Og þess vegna mælir búnaðarþing ekki með samþykkt tillögunnar.``
    Hvað þýðir þetta? Menn segja: Nefndin ætlar að gera nákvæmlega það sama og tillagan fjallar um, þess vegna er hún óþörf. Í tillögunni felst það að umhvrh. og landbrh. vinni áætlun í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sem miði að því að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs og áætlunin verði lög fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.
    Væru það nú ekki fagleg og góð vinnubrögð að þegar þessi nefnd, sem ég get alveg fallist á að falli mjög að þessu máli og ráðherrarnir gætu þess vegna ákveðið að sá hluti tillögunnar sem fellur hér að, að þessi nefnd vinni það verk, væri það ekki góður þáttur að síðan yrði málið og ályktunin lögð fyrir þingið? Vegna þess að ef á að koma til móts við bændur í þessu máli og taka þátt í kostnaði t.d. við beitarhólf og annað þá hlýtur sá kostnaður að verða að koma til kasta þingsins. Þetta finnst mér meginatriði og þess vegna ættum við að vera sammála um þessi mál.
    Ég get líka alveg tekið undir að það er mismunandi hver aldur ábúenda er á þessu svæði og undir varnaðarorð hv. þm. Auðar Sveinsdóttur varðandi Þingvallasveitina og að þar sé fátt um aðra atvinnu. Ég er heldur ekki að leggja það til að búfjárhald verði lagt af í Þingvallasveit. Ég held að miklu fremur

hafi komið fram í minni framsögu að það þurfi að gæta að þessum málum og að í sumum tilfellum geti þurft að stuðla að búskap ef vilji er fyrir því að búskapur leggist ekki af, því ef t.d. er eingöngu mjög fullorðið fólk á einu svæði og ekkert útlit fyrir að aðrir muni taka við, þá getur vel þurft að koma til stuðningur ef það er vilji þeirra sem að málunum vinna að sveitin haldist í slíkri byggð.
    Ég hef lagt mikla áherslu á samráð, samráð á milli ríkisins, sveitarfélaga og bænda, og þess vegna tek ég ekki til mín þá gagnrýni sem hefur komið fram um einhvers konar gerræði. Ég legg líka mikla áherslu á að svæðisskipulag komi að slíku máli. Svæðisskipulag er grunnur að áætlanagerð eins og hér er lögð til og hún kemur að þeirri áætlanagerð, en svæðisskipulagið er ekki áætlun í sjálfu sér um þá hluti sem hér eru lagðir til. Þess vegna harma ég að hugmyndir hafi komið fram um að vísa þessu máli frá.
    Einmitt vegna þess sem hér er sagt um svæðisskipulag, og svæðisskipulag á vissulega heima undir umhvrn., þá finnst mér það vera einn af þeim þáttum sem gætu verið stuðningur við að málið eigi heima í umhvn. Ég fékk þær upplýsingar að líklega væri það mitt val hvort málið færi til umhvn. eða landbn. miðað við tillöguna sem hér liggur fyrir og hef ég kosið að málið fari til umhvn., en miðað við hvaða afstöðu ég hef til þinghalds og hefða þá mun ég lúta úrskurði forseta í því efni. Ef forseti telur að tillaga mín ætti að vera á annan veg, þá mun ég bara lúta því. En mér hefur sýnst miðað við allt það sem hér hefur komið fram í mínu máli og margt af því sem hefur verið talið stórt atriði í sambandi við áætlanagerð af þessu tagi, sem hér er lögð fram, að þá sé það ekkert síður ástæða til þess að umhvn. fjalli um tillöguna og umhvrn. er nefnt hér fyrst í minni tillögu.
    Ég gæti vissulega haldið lengra mál um þetta efni en það er ekki alltaf farsælast og ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hafa látið góð orð falla og tek undir þau orð sem hér hafa fallið um að friður og samvinna sé það sem eigi að koma í þessum málum og tel að í þeim anda sé tillaga mín.