Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 16:22:00 (5079)


     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir slæmt til þess að vita að hæstv. umhvrh., samstarfsráðherra Norðurlanda, skuli ekki hlusta á það sem ég hef sagt hér í tvígang, bæði sl. fimmtudag og núna. Ég sagði að ég hefði stutt eina tillögu frá vinstri sósíalistum og ég studdi líka tillögu frá sósíaldemókrötum. Ég hef ekki haft tækifæri til að styðja fleiri tillögur frá flokkahópum hingað til og að segja síðan ,,með dyggum stuðningi fulltrúa Kvennalistans`` og gefa í skyn að ég sé sammála öllu sem vinstri sósíalistar gera. Ég tók það sérstaklega fram að ég væri það ekki. Mér finnst það alveg ótrúlegt að maður þurfi að margkoma hérna upp og segja það sama.
    Ég mótmæli líka þeirri fullyrðingu að þegar ég ræði um norrænt samstarf taki ég ekki tillit til þess sem er að gerast í Evrópu, mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Ef það er að taka tillit til þess sem er að gerast í Evrópu að hlaupa í fangið á Evrópubandalaginu, eins og hæstv. umhvrh. virðist vilja gera, veit ég ekki af hverju það er meira að taka tillit til þess sem er að gerast í Evrópu heldur en sá málflutningur sem ég hef haft hér í frammi. Mér finnst einkennilegt þar sem hann segist virða skoðanir annarra ef hann vill ekki viðurkenna að þótt fólk hafi mismunandi stefnur geti það ekki haft eitthvað til síns máls. Ég vil alveg virða það að hæstv. umhvrh. sem og aðrir hafi sínar skoðanir en hann

þarf ekki að traðka á mínum. Hann sagði áðan að ljóst væri að uppi væri skoðanaágreiningur innan Kvennalistans. Ég vil benda honum á það að í þessari umræðu hafa þrjár kvennalistakonur talað um Evrópubandalagið og þær hafa allar lýst því að þær væru á móti inngöngu Íslands í Evrópubandalagið og Evrópska efnahagssvæðið þannig að ég veit ekki hvar hann hefur verið þegar við töluðum um það.
    Ég hefði gjarnan viljað taka fleiri þætti hæstv. ráðherra til meðferðar en hef ekki tíma til þess, því miður.