Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 21:22:00 (6271)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Einu sinni var fallegur froskur. Hann var settur í búr sem í var bæði vatn og sef og þurrt svæði. Froskurinn gat valið hvort hann var á þurru eða í vætu. Fallegi froskurinn valdi sér stað í vatninu á milli sefstráanna. Maðurinn sem sett hafði froskinn í búrið og ætlaði að kanna viðbrögð dýrsins við hita kynnti afar gætilega undir búrinu og jók hitann síðan hægt og sígandi, gráðu fyrir gráðu, því maðurinn vildi gefa froskinum tækifæri til þess að átta sig á hættunni og forða sér upp á þurra svæðið í búrinu.
    Og hvað gerði froskurinn? Jú, hann beið, velti vöngum og hugsaði: Það er að verða ansi heitt. Áfram jókst hitinn og þá sagði froskurinn við sjálfan sig: Æ, æ, æ, hitinn er að drepa mig. En það var of seint, þrek hans var þrotið og viljinn til sjálfsbjargar dugði ekki til og brátt var froskurinn fallegi allur. Maðurinn tók annan frosk og endurtók tilraunina og allt fór á sömu leið. Og hann tók annan og annan og sama sagan endurtók sig. Maðurinn, sem með þrautseigju sinni hafði þannig dregið hvern froskinn af öðrum til dauða, komst að þeirri niðurstöðu að froskeðlið svíkur ekki, þeir áttuðu sig aldrei á mistökum sínum fyrr en um seinan.
    Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur sagði þessa sögu á þingi arkitekta og tengdi hana þeim mistökum sem gerð hafa verið hér á landi við skipulagsvinnu og mannvirkjagerð. Mér dettur þessi saga hins vegar alltaf í hug þegar ég horfi til þess af hve miklum ákafa ríkisstjórnin vill koma okkur Íslendingum inn í EES-samkomulagið. Reyndar finnst mér að ríkisstjórnin sé þarna bæði í hlutverki þrautseiga tilraunamannsins og frosksins. Með þrautseigjunni á að troða þjóðinni inn í EES og að því fengnu muni sjálfsbjargarviðleitnin eða sjálfstæðisviljinn engu breyta um það hvernig mál koma til með að þróast, ekki frekar en hjá froskinum sem hafði ekki vit á að koma sér á þurrt áður en allt varð um seinan.
    Góðir áheyrendur. Nú er rúmt ár liðið síðan ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við stjórnartaumunum. Á þessum stutta tíma hefur ríkisstjórninni tekist að draga mátt úr þjóðlífinu. Hún hefur markvisst talið kjark úr fólki og fest þá skoðun í sessi að fátt megi verða Íslendingum til bjargar á næstunni. Hún kemur ekki sjálf auga á aðrar betri leiðir til bjargar en möguleika á lottóvinningum í sambandi við nýtt álver eða Evrópskt efnahagssvæði, og er þó hvorugt fast í hendi frekar en aðrir lottóvinningar.
    Ýmsum fannst að gefa ætti ríkisstjórninni frið til að vinna fyrstu mánuðina og töldu að við, sem skipum þá flokka sem nú eru utan ríkisstjórnar, máluðum skrattann á vegginn þegar við lýstum áhyggjum okkar yfir þeirri stjórnarstefnu sem ríkisstjórnin boðaði og hefur síðan fylgt. En það hefur svo sannarlega komið á daginn að það sem við sögðum var síður en svo ofsagt. Hvarvetna blasa verk ríkisstjórnarinnar við í dag. Niðurskurður á velferðarkerfinu, aukin skattheimta í formi þjónustugjalda og ekki svíkur eðli ríkisstjórnarinnar þegar kemur að atvinnumálum. Þar má helst skilja að sjávarútvegurinn, sem staðið hefur undir þróun þjóðfélagsins á undanförnum áratugum og þar með uppbyggingu þess velferðarkerfis sem við nú búum við, sé orðinn baggi á þjóðfélaginu. Enginn efast um að við eigum við tímabundna erfiðleika að etja í fiskveiðum okkar og það kemur niður á sjávarútveginum í heild. Á ríkisstjórnarheimilinu mega menn hins vegar ekki heyra á það minnst að það þurfi að aðstoða atvinnugreinar tímabundið þegar erfiðleika ber að höndum. Nei, nú skal hver og einn bara spjara sig. Ef illa gengur hjá atvinnuvegunum er það ekki vandamál ríkisstjórnarinnar frekar en það stóraukna atvinnuleysi sem við blasir. Þvert á móti þjónar svokallað ,,hæfilegt atvinnuleysi`` vel eðli þeirrar stefnu sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir.
    Var ekki eitt fyrsta verk hennar að ákveða að fækka störfum á vegum ríkisins um allt að 600 á þessu ári? Samkvæmt nýjum yfirlýsingum þá heyrist manni að allt bendi til að þessu takmarki verði náð. Atvinnuleysisgrýlan, sem lamar smátt og smátt baráttuþrek launþega, er dyggur þjónn ríkisstjórnarinnar. Það kemur vel fram í 1,7% launahækkun sem á að koma í staðinn fyrir kjaraskerðingar sem ríkisstjórnin samþykkti í vetur. Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem stjórnarliðar á þingi samþykktu skömmu eftir áramótin, fólu í sér 2% kjaraskerðingu svo ekki sé nú minnst á þau gjöld sem sett voru á heimilin í landinu við samþykkt fjárlaganna fyrir þetta ár.
    Stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hún kemur fram í þessum og öðrum aðgerðum undanfarinna mánaða, stafar þó ekki eingöngu af illvilja í garð launþega og heimila í landinu að mínu mati. Ég er viss um að ríkisstjórnin rekur ekki þessa stefnu, sem kemur t.d. illa niður á hjónum sem vinna hjá hinu opinbera og eiga tvö börn, vegna þess að henni sé beinlínis við þessa litlu fjölskyldu. Þessi ríkisstjórnarstefna er rekin vegna þess að hún er í anda þeirrar lífssýnar sem þeir hafa sem styðja ríkisstjórnina. Sú lífssýn er með þessum hætti. Það er að láta sig engu varða um kjör og lífsafkomu fjölskyldunnar sem ég var að nefna. Ef endar ná ekki saman um mánaðamót hjá henni eða einhverri annarri, það er þá bara hennar mál. Ef foreldrar draga of lengi að fara með barn sitt til læknis í von um að það muni nú brátt hressast vegna þess að það er dýrt að kalla út lækni í vitjun þá er það mál foreldranna, ekki ríkisstjórnarinnar. Foreldrarnir hafa þá að mati þeirra sem styðja þessa stefnu ekki unnið nógu mikið eða eignast of mörg börn eða kannski, eins og vinsælasta skýringin er, fjárfest of mikið, lifað um efni fram.
    Það er, ágætu hlustendur, ákveðinn hópur í þjóðfélaginu sem lifir mjög hátt. Hópur sem getur tekið á sig þau auknu þjónustugjöld sem komið var á með þeim rökum stjórnarliða að efla þyrfti kostnaðarvitund almennings. Þessi hópur er til. En ég þori að fullyrða að stærsti hluti þeirra launþega innan ASÍ og BSRB, sem voru að fá þessa 1,7% kauphækkun, er ekki í þessum hópi og alls ekki sá stóri hópur sem á vegna einstaklega bágra launakjara að fá sérstaka launauppbót. Þó má e.t.v. með sanni segja að þessi hópur hafi lifað um efni fram og safnað skuldum langt umfram greiðslugetu. En það er ekki vegna óráðsíu eins og gefið er í skyn með þessu tali um að bæta kostnaðarvitund almennings. Það er vegna þess að hvernig sem reynt er ná endar ekki saman og til þess að geta rekið heimili og hafa fyrir nauðþurftum þarf að taka lán í banka. Það þarf ekki að efla kostnaðarvitund þessa fólks, það veit mætavel hvað hlutirnir kosta.
    Það vita allir um og viðurkenna erfiðleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það vita einnig allir að á síðasta kjörtímabili náðist fram ákveðinn stöðugleiki með gerð þjóðarsáttarinnar svokölluðu. Verðlag varð þá stöðugra en það hafði verið um langa hríð, verðbólga minnkaði og menn trúðu því að sá árangur yrði nýttur á þessu ári og þeim næstu til að bæta kjör þeirra sem legðu hlutfallslega hvað mest af mörkum við gerð þjóðarsáttarsamninga. En því miður varð sú raunin ekki á. Aldrei var ráðist í þá vinnu sem óhjákvæmilega þurfti að fylgja í kjölfar þjóðarsáttarinnar og hefði reyndar átt að vera hluti af þeim samningum, þar á ég við endurskoðun og endurskipulagningu ríkiskerfisins. Að menn legðu í þá vinnu að stokka upp og forgangsraða verkefnum og ríkisútgjöldum með það fyrir augum að efla velferðarkerfið og draga þá úr öðrum verkefnum og framkvæmdum á vegum ríkisins eða hætta við eftir þörfum. Að skattakerfið yrði notað til að jafna tekjur. Í þessa vinnu, sem mundi skila sér fljótt í bættum og jafnari kjörum launþega í landinu, var aldrei ráðist. Einfaldlega vegna þess að við stjórn ríkisins tóku menn með aðra lífssýn og aðrar skoðanir en þeir sem stóðu að gerð þjóðarsáttarinnar af hálfu ríkisvaldsins þá. Af því okkur hættir til að vera svo skammsýn og hugsa framtíðina í fjögurra ára kjörtímabili þá er þessi ríkisstjórn, sem nú situr, ekkert bundin af yfirlýsingum þeirra síðustu þótt annar af núverandi ríkisstjórnarflokkum ætti þó sæti í síðustu ríkisstjórn. En þar leið forustu-Jónunum þó aldrei jafnvel því að jafnaðarstefnan sem þá var rekin féll þeim ekki í geð. Þeir þoldu illa að geta ekki gagnrýnislaust bundið Ísland á klafa EES.
    Nú líður þeim vel og fylgja dyggilega stefnu Sjálfstfl., jafnvel af enn meiri hörku en fulltrúar þess flokks gera sjálfir. Örfáir jafnaðarmenn leynast þó enn í röðum Alþfl., sem hafa af veikum mætti reynt að verja velferðarkerfið og kjör fólksins í landinu. Heldur er þó farið að volgna undir þeim blessuðum eins og froskunum fallegu sem ég nefndi í upphafi. Því miður er hætt við að það fari fyrir þeim eins og froskinum, vini okkar, að um leið og þeir segja: Æ, æ, æ, ég þoli þetta ekki lengur, verði flokksþingi þeirra lokið og við blasa ný fjárlög með ennþá harðari niðurskurði á velferðarkerfinu en áður og jafnaðarstefna flokksins komin fyrir kattarnef. Þá verður eins og hjá froskinum of seint að snúa við.
    Góðir áheyrendur. Þjóðlíf og atvinnulíf á okkar tímum er fjölþætt og flókið. Sumir segja að litlu máli skipti hvaða ríkisstjórn sitji að völdum hverju sinni. Mestu skipti fyrir gróandi þjóðlíf og blómstrandi atvinnulíf að það gefi á sjó og veiðist vel og að alþjóðlegt umhverfi og viðskiptakjör séu Íslendingum hagstæð. Ég vil ekki vera að gera svona lítið úr ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, að hún skipti ekki máli. En vonandi reynist það svo að hún hafi minni skaða valdið þegar ráðherrar hennar standa upp úr stólunum en nú horfir. Þetta er ríkisstjórn sem hefur verið mjög upptekin af fortíðarvanda og tekið upp á arma sína hugmyndir um samdrátt í velferðarþjónustu sem hefur sannarlega leitt til ófarnaðar í Bretlandi og Bandaríkjunum.
    Ríkisstjórnin hefur ekki haft forustu um annað en fortíðina. Við viljum hins vegar horfa til framtíðar og vinna að því að sú framtíð verði öllum landsmönnum björt. Við vitum að vaxtarbroddur atvinnulífsins felst ekki í Brussel-ferðum. --- Góðar stundir.