Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 21:32:48 (6272)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar Alþfl. lagði grunn að íslenska velferðarríkinu á þriðja og fjórða áratugnum þá var það í þjóðfélagi þar sem flestir voru fátækir. Atvinnuleysi var reglubundið, atvinnuleysisbætur þekktust ekki. Fæstir áttu eigið húsnæði, fáeinir útvaldir nutu langskólanáms, ef slys eða sjúkdóma bar að

höndum voru engar almannatryggingar, þá var heldur enginn ellilífeyrir.
    Á árunum eftir stríð hefur Íslendingum tekist að skapa hér velmegunarsamfélag. Það er ekki fullkomið, en miðað við það er fátæktarþjóðfélagið fyrir stríð veröld sem var. Langflestir Íslendingar búa í eigin húsnæði og búa rúmt. Tveggja bíla fjölskyldan er algeng. Tæplega helmingur af aldursárgangi tvítugra lýkur stúdentsprófi, milli 60 og 80% unglinga stunda sérhæft framhaldsnám. 2.000--3.000 Íslendingar stunda nám erlendis, sumir við dýrustu menntastofnanir heims. Mælt á mælikvarða eigna, afkomu og neyslu býr mikill meiri hluti Íslendinga við lífskjör á borð við það sem best þekkist í heiminum.
    Í fátæktarþjóðfélaginu var hugsun jafnaðarmanna sú að allir, án tillits til eigna eða efnahags, skyldu njóta sama réttar til ókeypis skólagöngu, heilbrigðisþjónustu, sjúkratrygginga, ellilífeyris o.s.frv. Þess vegna hefur sú meginregla gilt enn í dag, líka í velmegunarsamfélaginu. Það á líka við um þá sem eiga skuldlausar villur, sumarbústaði og torfærujeppa og færa neysluna á fyrirtækið og geyma slatta af skattfrjálsum spariskírteinum og hlutabréfum í eldtraustum bankahólfum en borga ótrúlega lága skatta til samfélagsins. Það má spyrja: Þurfa þessir menn líka nú á að halda útréttri hönd samfélagsins? Eiga þeir líka að njóta t.d. barnabóta, vaxtabóta, ellilífeyris? Eigum við að halda áfram að beina jafnvel milljarða millifærslum, þar á meðal til milljónamæringa og milliliða, jafnvel þótt það þýði að aðstoð við þá sem raunverulega eru þurfandi sé þá skorin við nögl?
    Þetta eru fá dæmi af víðtækri umræðu um velferðarsamfélagið, sem fer ekki bara fram í okkar þjóðfélagi heldur um allan hinn vestræna heim. Dæmi um breyttar þjóðfélagsaðstæður frá fátæktarþjóðfélagi til velmegunarsamfélags og þessi dæmi vekja upp spurningar um hvort breyttar aðstæður kalli kannski á breyttar aðferðir þótt markmiðið sé óbreytt, að jafna kjör og tryggja félagslegt öryggi þeirra sem á þurfa að halda, þeirra sem nú byggja landið og afkomenda okkar í framtíðinni.
    Kjarninn í hugsun okkar jafnaðarmanna um félagslega ábyrgð í velferðarsamfélaginu er sá að við viljum leiðrétta þá eigna- og tekjuskiptingu sem markaðsöflin skila þannig að þeim sem bera skarðan hlut frá borði sé rétt hjálparhönd, hjálpað til sjálfsbjargar þegar þeir þurfa á því að halda. Það hefur aldrei verið okkar hugsun að auka á ójöfnuðinn, að bruðla með almannafé í þágu fullfrísks fólks, að ala upp forréttindahópa sem gera meiri kröfur til annarra en sjálfra sína, eða að verja hagsmuni kerfisins gegn hagsmunum almennings í landinu. Breyttar aðferðir við breyttar aðstæður eiga ekkert skylt við frá fráhvarf frá hugsjónum jafnaðarstefnu.
    Þessar breytingar eru hins vegar staðfesting þess einu sinni að öfugt við kommúnismann, sem nú er fallinn á eigin illverkum, hefur jafnðarstefnan aldrei staðnað í kreddum. Hugsjónin er sú hin sama en aðferðirnar hljóta að breytast með breyttum aðstæðum.
    Virðulegi forseti. Það eru sérstakar ástæður fyrir því að við Íslendingar getum ekki lengur skotið á frest að endurskoða ýmsa grundvallarþætti okkar þjóðfélags. Síðastliðin fimm ár hefur ríkt stöðnun í efnahags- og atvinnulífi okkar. Ef þjóðarframleiðsla okkar hefði sl. fimm ár aukist um 3% á ári eins og hjá nágrannaþjóðum okkar þá hefðum við nú úr að spila u.þ.b. 18 milljöðrum króna hærri þjóðartekjum. Það eru 300 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Hvers vegna er það sem við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum? Það á sér margar skýringar. Fæstar hafa komið fram í umræðunni í kvöld.
    Ein er sú að við erum komin að endimörkum vaxtar í sjávarútvegi. Ef þorskafli okkar Íslendinga hefði sl. þrjú ár verið 350 þús. tonn á ári hefði það skilað okkur, miðað við óbreytt viðskiptakjör, 6 milljörðum króna meiri verðmætum. Þá væri sjávarútvegurinn á Íslandi ekki rekinn með halla. Þá hefði hv. 1. þm. Austurl. ekki verið hér í dag að biðja um gengisfellingu og þar með að kalla á styrjöld í þjóðfélaginu til þess að rifta friði eftir kjarasamninga.
    Tilraunir okkar til þess að nýta aðra meginauðlind okkar, orkuna í iðrum jarðar, hafa hingað til strandað. Ýmist á skammsýni og þvergirðingshætti stjórnmálaafla hér heima fyrir eða öndverðum ytri aðstæðum. Eftir endurtekin fjárfestingarævintýri, undir ríkisforsjá og á ríkisábyrgð sitjum við uppi reynslunni ríkari með gjaldþrota fyrirtæki og tugmilljarðaskuldir. Er það þetta, kæri vin, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem þú áttir við með hinni örvandi hönd ríkisvaldsins? Væri kannski nær að ætla að þetta hafi verið afleiðingar af ráðgjöf brjálaðra hagfræðinga?
    Virðulegi forseti. Ég segi það hreint út: Hafi einhver atlaga verið gerð að velferð þjóðarinnar í framtíðinni þá er hún sú að taka lán frá börnum okkar til að fjármagna eigin eyðslu og óráðsíu. Það er ekki örvandi hönd. Það er eyðslukló, virðulegi forseti, og mál að linni.
    Verkefni núverandi ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili er í reynd aðeins eitt, að snúa af þessari braut á meðan það er ekki um seinan. Að byggja velferð framtíðar á varanlegum grunni, efnahagslegt og pólitískt sjálfstæði okkar sem þjóðar er að veði. Ríkisstjórnin hefur í lok fyrsta starfsárs síns náð bærilegum árangri sem vekur vonir um að hún muni geta valdið þeim verkefnum sem hún hefur tekið að sér. 20 milljarða innbyggður halli í ríkisfjármálum hefur verið tekinn niður um þrjá fjórðu hluta á fyrsta ári. Þessi árangur hefur náðst með hagræðingu og sparnaði í rekstri, aukinni gjaldtöku fyrirtækja og einstaklinga fyrir opinbera þjónustu, skerðingu bóta og tilfærslna til hinna efnameiri í þjóðfélaginu og með frestun framkvæmda. Nýbirtar tölur fjmrh. um afkomu ríkissjóðs benda til að þessar áætlanir geti staðist. Með því að snarlækka ásókn ríkisins í takmarkað sparifé landsmanna voru skapaðar forsendur fyrir lækkun vaxta. Vaxtalækkunin nú í kjölfar kjarasamninga lækkar útgjöld atvinnulífsins þegar í stað um tvo milljarða og léttir byrðar skuldugra heimila, og hún er bara fyrsta skrefið af þeirri einföldu ástæðu að verðbólga mælist nú

1,7% á samningstímabilinu og er sú lægsta í Evrópu og reyndar sú lægsta í sögu lýðveldisins.
    Á grundvelli þessara aðgerða hafa tekist kjarasamningar sem eyða óvissu, festa stöðugleika í sessi og stuðla þar með að auknu og traustara atvinnuöryggi. Hálfnað er verk þá hafið er. Með þessum aðgerðum höfum við lagt grunn að framfarasókn um leið og ytri skilyrði snúast til hagstæðari átta.
    Virðulegi forseti. Stærsta verkefni sem núverandi ríkisstjórn setti sér að leysa var samningurinn um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Samningurinn mun vissulega marka tímamót í Íslandssögunni með svipuðum hætti og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og útfærsla landhelginnar á sínum tíma. Í fyrsta sinn í sögunni mun sjávarútvegur okkar standa jafnfætis keppinautum sínum á öllum helstu mörkuðum. Tollfrjáls markaðsaðgangur fyrir unnar afurðir skapar innlendri fiskvinnslu um allt land ný tækifæri til vöruþróunar, markaðssóknar og meiri verðmætasköpunar. Minnkandi afli kallar einmitt á markvissar aðgerðir til þess að auka verðmæti aflans, samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið skapar okkur þau tækifæri, bara ef við erum menn til að nýta þau.
    Stærstu verkefni ríkisstjórnarinnar í framhaldi þessa tímamótasamnings er að ná sátt og samkomulagi um það hvernig arðinum af nýtingu auðlinda sjávar verði skilað til eigenda sinna að lögum íslensku þjóðarinnar. Fiskstofnarnir eru sameign þjóðarinnar og mega aldrei verða lögvarin séreign fáeinna útvalinna.
    Annað meginverkefni verður að brjóta skörð í múra þess einokunarkerfis um vinnslu og dreifingu landbúnaðarafurða sem hefur komið í veg fyrir aukinn kaupmátt almennings í formi lækkaðs verðs á lífsnauðsynjum. GATT-samningurinn, sem vonandi næst í höfn fyrr en síðar, mun tryggja að dagar þessa einokunarkerfis verða brátt taldir og þá munu þeir lítt verða syrgðir, hvort heldur er af neytendum eða bændum.
    Mörg önnur stórverkefni bíða ríkisstjórnarinnar á næstu þremur árum kjörtímabilsins. Meðal þeirra vandasömustu vil ég nefna, virðulegi forseti:
    Samræmingu á skattlagningu fjármagnstekna og annarra eignatekna. Fækkun undanþága og lækkun álagningarhlutfalls í virðisaukaskatti til þess að stuðla að verðlækkun. Í þriðja lagi að forða lífeyrissjóðunum frá fyrirsjáanlegu greiðsluþroti upp á nokkra tugi milljarða, og það er aðeins unnt að gera með því að dreifa fortíðarvanda þeirra á okkur öll.
    Tekjujöfnunaráhrif tekjuskattsins eru mikil en þau má enn auka með því t.d. að þrengja ýmsar frádráttarheimildir vegna hlunninda, ökutækjastyrkja, hlutabréfakaupa o.s.frv. Þessar aðgerðir ásamt eigna- og tekjutengingu ýmissa bótagreiðslna koma í stað hátekjuþreps, skila ríkissjóði meiri tekjum en með minni eftirlitskostnaði. Ábyrgðarvæðing í ríkisrekstri með breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög, afnámi ríkisábyrgðar og sölu á hlut ríkisins í áföngum er eitt þeirra stórverkefna sem ríkisstjórnin verður að hrinda í framkvæmd á kjörtímabilinu. Forsenda þessarar kerfisbreytingar er m.a. setning samkeppnislaga sem þingið hefur nú til umfjöllunar og mun koma í veg fyrir samþjöppun fjármálavalds á fáar hendur. Fækkun og stækkun sveitarfélaga er veigamikill þáttur þeirrar kerfisbreytingar í stjórnsýslu og atvinnulífi sem þessi ríkisstjórn vinnur að. Ríkisstjórn sem hefur slík umbótaverkefni á stefnuskrá sinni er ekki íhaldsstjórn, hún er róttæk umbótastjórn.
    Góðir hlustendur. Málefnaleg gagnrýni veitir hverri ríkisstjórn nauðsynlegt aðhald í lýðræðisþjóðfélagi. En stjórnarandstaða, sem treystir sér ekki til að taka afstöðu til stærstu mála þjóðfélagsins, eins og samningsins um aðild að Evrópsku efnahagssvæði eða lætur sér sæma að fara með innantóm hróp og köll á torgum um að nú sé verið að selja landið eða limlesta velferðarríkið, vafalaust af mannvonskunni einni saman, slík stjórnarandstaða er lítt á vetur setjandi. Hún er því miður bara niðurrifsafl, vargur í véum þjóðar sem á í vök að verjast. Alþýðubandalagsmenn bæta ekki úr skák þegar þeir klykkja út í ræðum sínum með því að líkja andstæðingum sínum, þjóðinni allri reyndar, við froska og tala um froskeðlið. Svo vill til að í þjóðsögunni breytist froskurinn oft á tíðum --- þegar rétt er að farið --- í dásnotran prins.
    Ríkisstjórnin mun þess vegna láta slík frýjuorð sem vind um eyrun þjóta. Hún mun halda striki sínu og hún mun láta verkin tala. Þau verk munu lifa og efla sjálfstæði þjóðarinnar í samstarfi við aðrar þjóðir í framtíðinni. --- Ég þakka áheyrnina.