Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:28:48 (6278)

     Sólveig Pétursdóttir :
    Góðir áheyrendur. Á öllum sviðum, í ást, trú, stjórnmálum og starfi er skynsamlegt að setja öðru hverju spurningarmerki við þá hluti sem við höfum alltaf talið sjálfsagða.
    Við Íslendingar göngum út frá því að menntun barna okkar og heilbrigðisþjónusta sé ókeypis, og það finnst okkur líka eðlilegt. En innst inni vitum við að þó að við fáum ekki reikningana senda, rétt eins og fyrir rafmagn, hita og síma, kostar þetta peninga, stórfé, sem greitt er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna allra. Við teljum líka eðlilegt að allir hafi næga atvinnu og ráði við að greiða afborganirnar af íbúðinni. Við trúum því líka að íslensk þjóð sé velmegandi menningarþjóð sem standi vel að vígi í samfélagi þjóðanna.
    En verðum við ekki að setja spurningarmerki við þessa trú okkar og skoðun? Þurfum við ekki að grípa til aðgerða til þess að varðveita þessa velmegun þannig að hún megi hvíla á varanlegum grunni? En til þessara aðgerða er ríkisstjórnin einmitt að grípa svo að ekki verði skrúfað fyrir þessa þætti rétt eins og heita vatnið. Vissulega hafa þær falið í sér ýmsar erfiðar og umdeildar ákvarðanir, sem menn hafa verið missáttir við, en markmið þeirra hefur að sjálfsögðu verið að ráða bót á þeim mikla vanda sem við okkur hefur blasað í ríkisfjármálum.
    Nýlokið er atkvæðagreiðslum um miðlunartillögu sáttasemjara og ljóst er að þótt launþegar séu ekki alls kostar sáttir við kjör sín þá hafa þeir kosið að taka þá ábyrgu afstöðu að greiða fyrir hagsmunum atvinnulífsins. Þetta er virðingarverð afstaða sem hægt er að draga mikinn lærdóm af. Mörg stórfyrirtækja okkar Íslendinga, m.a. í sjávarútvegi, hafa undanfarið haldið aðalfundi sína og hefur sú skoðun forustumanna þeirra ekki farið leynt að nokkuð dökkar horfur séu fram undan og að leita verði leiða til úrbóta. Það verður að kappkosta að atvinnufyrirtækjum okkar verði sköpuð sem eðlilegust rekstrarskilyrði.
    Þær miklu breytingar, sem hafa átt sér stað í alþjóðamálum að undanförnu, sýna okkur Íslendingum líka þörfina á því að við lítum vel til allra átta, ekki eingöngu til Evrópubandalagsins heldur líka til annarra landa. Við höfum ekki efni á því að einangrast í alþjóðaviðskiptum.
    Í gær var höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins að vitna til orða Friðriks Pálssonar, forstjóra Sölusamtaka hraðfrystihúsanna og hugleiddi m.a. hvernig við Íslendingar gætum aukið verðmæti fiskútflutnings okkar og náð allri dreifingu erlendis í okkar hendur. Orðrétt segir:
    ,,Til þess að leggja út í slíkt stórvirki þarf ungt og menntað fólk, sem hefur sambærilega þekkingu og jafnaldrar þess í öðrum löndum og þetta fólk eigum við. En til þess þarf líka dirfsku og umfram allt þá framtíðarsýn, sem hvað eftir annað hefur skipt sköpum í sögu þessarar þjóðar, þegar syrt hefur í álinn. Við höfum ekki í langan tíma þurft jafnmikið á slíkri dirfsku og framtíðarsýn að halda og einmitt nú.``
    Þetta eru orð í tíma töluð og því segi ég, það er einmitt núna sem við höfum ríkisstjórn með dirfsku og framtíðarsýn. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. sem þorir að takast á við vandann og sem er og verður að vera gjörólík miðjumoði og máttleysi þeirra ríkisstjórna sem Framsfl. og Alþb. hafa átt aðild að þar sem allur tíminn hefur farið í innbyrðis átök, málamiðlanir og stólakaup í stað þess að taka á raunverulegum vandamálum þjóðarinnar með framtíðina í huga og þar sem ekki hefur verið hugað að þeim arfi sem við búum börnum okkar. Við slíkt ábyrgðarleysi verður ekki lengur unað.
    Löngum hefur verið haft á orði að eitt meginhlutverk ábyrgra stjórnarandstöðuflokka væri að veita ríkisstjórn aðhald á málefnalegan hátt. En í hverju felast afrek stjórnarandstöðunnar á þessu þingi? Hefur eitthvað frv. frá henni falið í sér raunhæfa möguleika til lausnar vandamálum okkar, t.d. hvað ríkisfjármál varðar? Ekki man ég til þess. Öllu heldur hafa flestar af þeim annars fáu tillögum, sem fram hafa komið, falið í sér gylliboð sem vitað var að ekki var hægt að standa við.
     Er þetta þing tók til starfa höfðu verið samþykkt ný lög um þingsköp sem allir voru sammála um að ættu að auðvelda þingstörf öll og gera þau markvissari. En hvað gerðist? Stjórnarandstaðan ákvað vegna eigin yfirgangs að taka ekki þátt í störfum forsætisnefndar þingsins og hótaði því jafnframt að ekki yrði friður um þingstörfin. Við þessa hótun hafa þeir staðið. Afleiðingin hefur verið langir og leiðinlegir fundir, þar sem stjórnarþingmenn og ráðherrar hafa nánast ekki getað sagt sína skoðun án þess að hafa fengið á sig málþóf. Þetta hefur gengið svo langt að þingstörf hafa verið tafin vegna ummæla utan þings og jafnvel í blaðagreinum. Maður skyldi þó ætla að málfrelsi ætti að ríkja á báða bóga. Þó hafa ekki allir stjórnarandstöðuþingmenn leikið þennan leik, þar hafa nokkrir útvaldir verið fremstir í flokki. Þá þarf varla að kynna enda hefur þessi framkoma þeirra beinlínis verið notuð til að koma sér á framfæri í fjölmiðlum. Þeir hafa heldur ekkert hikað við að skipta út skoðunum rétt eins og þeir hafi aldrei áður komið nálægt pólitík. Það er ekki síst þetta ábyrgðarleysi sem hefur einkennt málflutning stjórnarandstöðunnar hér í kvöld. Hryðjuverk og þjóðfélagsleg átök virðast helstu skilaboð þeirra til þjóðarinnar.
    Einnig hefur verið eftirtektarvert í vetur hversu mjög sumir fjölmiðlar hafa teygt sig eftir svonefndum ,,ekki-fréttum``. Þannig virðast gífuryrði og alls kyns uppákomur vekja mun meiri athygli en málefnaleg umræða á Alþingi Íslendinga. Vita menn almennt um þau mörgu mikilvægu mál sem hér er verið að afgreiða og um þá miklu vinnu sem fram fer í fastanefndum þingsins? Talað er um niðurskurð hér og niðurskurð þar, en ekki vakin athygli t.d. á þeirri staðreynd að framreiknuð gjöld til heilbrigðis- og tryggingamála eru 4% hærri nú í ár en samkvæmt fjárlögum 1989. Þetta finnst mér umhugsunarvert.
    Ríkisstjórnin hefur sett sér ákveðin markmið, sem hún hyggst standa við, og árangurinn er nú þegar farinn að koma í ljós. Þannig hefur verðbólgan aldrei verið lægri og líklega er það ein besta kjarabótin fyrir okkur öll. Fram undan er mikil vinna í sumar í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Mikilvægar úrbætur í dómskerfinu taka gildi 1. júlí nk. svo dæmi séu tekin, og samhliða hafa verið afgreidd frumvörp sem fela í sér verulegar réttarbætur fyrir almenning. Rík áhersla hefur verið lögð á hagsmuni barna og unglinga, t.d. hafa verið afgreidd ný barnalög og fyrir liggja langþráðar breytingar á hegningarlögum.
    Fulltrúar stjórnarandstöðunnar geta talað sig hása hér í kvöld en þeir breyta ekki þeirri staðreynd að þessi ríkisstjórn hefur styrk og þor til þess að takast á við vandann með íslenskri þjóð þannig að hér skapist velferð á varanlegum grunni. --- Ég þakka áheyrnina.