Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:52:54 (6313)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er kannski ástæðulaust að lengja þessar umræður miklu meira. Þó held ég að hér hafi komið fram nauðsynlegar ábendingar. Vegna áskorunar hv. 9. þm. Reykv. er ég eiginlega búin að leysa málið og vil aðeins biðja hv. nefndarmenn að punkta hjá sér hvaða breytingar þarf að gera til þess að þetta mál leysist og þær eru sáralitlar. Tillaga mín er einfaldlega sú að í 2. gr. standi ,,manni`` í stað ,,karli eða konu``. Í 3. gr. má í stað ,,manni`` standa ,,einstaklingi`` og í 4. gr. má í stað ,,manns`` standa ,,einstaklings``. 5. gr. má vera óbreytt. Mér þætti rétt að 6. gr. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við karl eða konu utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að viðkomandi er honum háður fjárhagslega, í atvinnu sinni`` o.s.frv.
    Þetta eru sáralitlar málfarslegar breytingar. Það er létt verk að laga líka margumrædda 7. gr. Hún gæti hljóðað svo: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við karl eða konu sem heldur ranglega að fram fari í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða er í þeirri villu að um annan aðila sé að ræða`` o.s.frv. Hér er aðeins smá handavinna óunnin sem gerir frv. þannig úr garði að það sé boðlegt. Það er það ekki eins og er.
    Aðrar tillögur hef ég ekki og ég held að það þurfi ekki aðrar málfarslegar tillögur til að leiðarétta þetta. Ég vil jafnframt taka fram, hæstv. forseti, að ég er sammála athugasemdum bæði hv. 10. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Suðurl. og mun styðja þær breytingartillögur sem ég sé ástæðu til þess að fram komi. Önnur er fram komin og hin held ég að ætti að koma fram. Hins vegar hefur það alltaf vafist dálítið fyrir mér við lagasetningu á hinu háa Alþingi þegar kemur að hegningarlögum að löggjafarþingið ákveði lengd refsivistar. Ég held að það sé almennt afar erfitt og hef alltaf verið þeirrar skoðunar, og vel má vera að allir landsins lögspekingar séu þar ósammála mér, að það sé að langmestu leyti verkefni dómstólanna að ákveða lengd refsingar. Ég held að það hljóti að vera afar erfitt fyrir hv. þm. að meta afbrot til refsingar. Ég hef einkum gert við það athugasemd þegar komið hafa fram frumvörp á hinu háa Alþingi um að eitt afbrot hafi forgang umfram önnur afbrot í réttarkerfinu. Vissulega eru svo alvarleg afbrot til að nauðsynlegt sé að taka þau fram fyrir öll önnur en ég held að það þurfi töluvert til að það geti verið verkefni hins háa Alþingis að velja forgang mála í réttarkerfinu.
    Ég vildi aðeins lýsa þessu sjónarmiði mínu úr því að ég er nú komin í ræðustól en það sem rak mig á fætur er einfaldlega að ég held að hér hafi verið eytt aðeins of löngu máli í að leiðrétta örfáar málskekkjur sem hafa komist inn í frumvarpið. Ég vil jafnframt taka það fram að ég er sammála hv. 4. þm. Austurl. um að orðið ,,manneskja`` hefði ekki þótt gott orð þegar ég var í íslenskutímum hjá dr. Bjarna Aðalbjarnarsyni í Flensborg. Það hefði ekki þótt íslenska í þeirri tíð. En ég held að við þurfum ekki að vera í neinum vandræðum með aðskilja svo hvert smábarn skilji karl og konu. Einstaklingur er ágætt orð þegar ekki þarf að skilgreina það frekar.