Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:00:58 (6316)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég sat hjá þegar verið var að afgreiða þetta mál síðast vegna þess að ég hafði ekki lesið það nógu vel yfir til þess að ég treysti mér til að taka afstöðu til ýmissa greina frv. Ég er sannarlega ekki sannfærður um það enn þá að ég treysti mér til að greiða atkvæði með öllum greinum frv. og umræðan núna hefur eiginlega styrkt mig í þeirri trú að það geti orðið erfitt fyrir mig að samþykkja sumt af þessu.
    Þessi umræða um 7. gr. hefur fyrst og fremst snúist um íslensku og hvort rétt sé að nota orðið kona eða maður og ég ætla mér ekkert að blanda mér í þá umræðu. En í þessari grein er verið að setja refsingu við því að einhver blekki annan til kynmaka og refsingin snýr að þeim sem blekkja þá sem eru í hjónabandi eða óvígðri sambúð. En það er engin refsing við því að blekkja einhverja aðra. Mér finnst að það eigi ekki að draga þarna línu og ég tel að menn hefðu átt að halda sig við að það væri bara blekking á ferðinni.
    Ég bendi á það líka að í 10. gr. stendur, og þá er verið að tala um fólk sem er yngra en 14 ára: ,,Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni á aldrinum 14--16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.`` Það er sem sagt minni refsing lögð við því að blekkja 14 ára gamalt ungmenni en að blekkja gifta konu eða karl til samræðis miðað við 7. gr. eins og hún þarna stendur.
    Ég tel reyndar að það hefði verið hægt að einfalda 7. gr. mjög og þá hefði hún a.m.k. ekki haft þessa mismunun í för með sér. Vissulega er það mögulegt að fólk, sem ekki er í hjónabandi eða óvígðri sambúð, sé blekkt til samræðis. Ég tel að greininni mætti breyta á þennan hátt: ,,Hver sem blekkir mann til samræðis eða kynmaka með því að látast vera annar en hann er skal sæta fangelsi allt að 6 árum.`` Svo einfalt er það. Ég vil koma þessu á framfæri. Ég hefði auðvitað átt að vera búinn að kynna mér málið betur svo ég hefði getað tekið þátt í þeirri umræðu sem fór fram um það fyrr í þinginu og þess vegna komið mínum sjónarmiðum á framfæri. En ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma til þess, ég er sennilega ekki nógu starfssamur, að kynna mér öll þau mál sem við þurfum að vera tilbúin til að afgreiða á þinginu. Þess vegna er það sem mínar athugasemdir koma ekki fram fyrr en núna.