Viðlagatrygging Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:48:58 (6326)


     Sigurður Hlöðvesson :
    Virðulegi forseti. Mig langar að koma með fyrirspurnir varðandi frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands. Það er þá fyrst og fremst sem snýr að 5. gr. frv. þar sem talið er upp hvað er skylt að vátryggja. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Einnig er skylt að vátryggja neðangreind mannvirki þótt þau séu ekki brunatryggð:
    1. Hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs.
    2. Hafnarmannvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs . . .  ``
    Það sem mig langar að spyrja um í þessu sambandi er fyrst og fremst hvaða umsögn hafi fengist frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um þennan lið sem ég las upp úr 5. gr. frv. Þar eru lagðar skyldur á hendur sveitarfélaga um að þeim verði skylt að tryggja hitaveitur, vatnsveitur, skolpveitur og hafnarmannvirki. Þar kemur upp í huga minn þrennt, þ.e. í fyrsta lagi vil ég fá einhverja skýringu á því og upplýsingar um það hvernig þessi mannvirki skuli metin. Þegar af þeim er greitt hlýtur að vera gengið út frá ákveðnu mati eins og þegar gengið er út frá brunatryggðum eignum er gengið út frá brunabótamati. En ég vil spyrja að því hvernig mannvirki eins og t.d. skolpveitur sveitarfélaga og vatnsveitur yrðu metin fjár og þar sem gjaldstofn væri notaður til álagningar tryggingargjalds.
    Mig langar í öðru lagi að spyrjast fyrir um hvort athugun hafi farið fram á því hvaða kostnaðarauki er af völdum þessara ákvæða í frv. fyrir sveitarfélögin þar sem þau eru skyldug til þess að tryggja þessi mannvirki.
    Í þriðja lagi hefði ég viljað fá upplýsingar um það hvernig skilgreining bóta er. Ef við tökum sem dæmi skolpveitur og vatnsveitur og lítum svo á 4. gr. þar sem talað er um gegn hvaða áhættu skuli vátryggt er þar talað um eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð. Þá sýnist mér að það sé kannski fyrst og fremst tvennt sem geti valdið bótarétti á skolpveitum og vatnsveitum, þ.e. jarðskjálftar og vatnsflóð. Þess vegna hefði ég viljað fá upplýsingar um það hvort lagfæring á skolpveitum, sem stíflast hafa af framburði í vatnavöxtum, sé bótaskyld. Dæmi eru um að skolpveitur hafi nánast eyðilagst af því að sandfok hefur verið mikið og sandur fyllt skolplagnir.
    Það er fyrst og fremst við þetta þrennt sem ég hef talið hér upp sem ég vildi fá skýringar og svör við, ef mögulegt er.